04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (1954)

77. mál, skaðabótamál gegn Íslandsbanka

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg verð að láta fylgja nokkur orð þál. till. minni á þskj. 181, og get þá ekki komist hjá því að rifja upp ýmislegt viðvíkjandi ástandi þessara síðustu tíma, sem talað hefir verið um áður, einkum þó hvað snertir fjárhagstjón það, sem landið hefir orðið fyrir.

Það mun hafa verið snemma á árinu 1920, að farið var að gera orð á því nokkuð alment, að Íslandsbanki, aðalbanki landsins, sá bankinn, er hafði seðlaútgáfuna á hendi, myndi ekki hafa farið vel með það vald yfir fjármálum landsins, sem honum var trúað fyrir. Að vísu höfðu heyrst áður einstaka raddir um það, að ekki væri alt með feldu hjá bankanum, en Íslandsbanki hefir nú einu sinni verið svo í sveit settur hjer á þessu landi, að það hefir ekki þótt árennilegt móti honum að ganga. Bankinn hefir verið í uppáhaldi hjá stjórn landsins og embættismönnum og öðrum mektarmönnum landsins. Og þeir, sem fundið hafa að einhverju hjá bankanum, hafa verið taldir óalandi og óferjandi. Það er þó að koma á daginn nú, að þessar aðfinslur hafa ekki verið gerðar að ástæðulausu, — og það mun þó koma betur í ljós seinna.

Það er óhætt að fullyrða, að allur þorri manna í þessu landi er sannfærður um það, að alt það fjárhagslega böl, sem landið hefir átt við að búa á síðustu tímum, sje Íslandsbanka að kenna og ógætilegri fjármálastarfsemi hans.

Það var í aprílmánuði 1920, að blað eitt hjer í bænum tók til rækilegrar athugunar fjármálastarfsemi bankans. Var þar bent á, hversu alt framferði bankans væri skaðvænlegt fyrir fjárhagslegt sjálfstæði landsins. Þar var og sýnt fram á, hversu gróðafíkn bankans og hluthafa hans hafi leitt hann á glapstigu, í þá átt að lána stórmiklar fjárhæðir til vafasamra gróðafyrirtækja. Greinar þessar vöktu afskaplega athygli. Og nú var eins og fjöldi manna vaknaði til meðvitundar um það, í hvaða ógöngur bankinn væri að teyma landið. Bankinn og vinir hans risu auðvitað upp á afturfótunum og sögðu, að alt væri í besta lagi. Og landsstjórnin, sem löngum hefir verið verkfæri í höndum þessa banka, gerði auðvitað ekki neitt. En nú tóku fleiri blöð líka í sama strenginn með þetta, hver voði væri hjer á ferðinni, enda var sjón hjer sögu ríkari. Bankinn gat ekki eða vildi ekki standa við skyldur sínar, sem honum voru lagðar á herðar með seðlaútgáfunni. Ein þeirra var sú, að hann skyldi yfirfæra fje til útlanda fyrir Landsbankann. En bankinn skaut sjer hjá þessari skyldu, sem honum var lögð á herðar með lögum nr. 16, 18. maí 1920, og varð þannig brotlegur við lögin.

Annað, sem Íslandsbanki hafði tekið að sjer fyrir ríkið, var að yfirfæra póstávísanafje fyrir póstsjóðinn. Allir þekkja söguna um ávísanirnar frægu, sem bankinn gaf út á viðskiftabanka sinn í Danmörku og námu 1 milj. kr., en voru ekki greiddar, af því að bankinn átti ekki inni fyrir upphæðinni. — Það hefir löngum þótt ísjárvert að gefa ávísanir á fje, sem ekki er til, en bankinn var afsakaður á allar lundir.

Jafnframt þessu hættir bankinn að yfirfæra fje, og stöðvar með því viðskifti við útlönd og kemur þjóðinni í það öngþveiti, sem hún á bágt með að losa sig úr. En ástæðan til þess var sú, að hann hafði lánað út fje til gróðabralls til vafasamra braskfyrirtækja, og herjað svo út úr landsstjórninni aukinn seðlaútgáfurjett.

Það er dálítið merkilegt að athuga, að bankinn byrjar með því að borga hluthöfum sínum lágan arð. T. d. var arðurinn ekki nema 5% árið 1914, og er það að vísu sæmilegt, en árið 1919 borgar hann meira en helmingi meira, eða 12%. Þá hafði bankinn fengið aukna seðlaútgáfu hjá landsstjórninni, og notar nú fjeð óspart og lánar það aðallega út til síldarbrasks, að ógleymdum miljónum, sem hann lánaði fiskhringnum sæla. Þó að bankinn á þessum tímum væri yfirleitt ör á lánum, er mjer ekki grunlaust um, að lánveitingar hafi verið hlutdrægnislegar af hans hendi, og mætti ef til vill benda á dæmi þessu til sönnunar.

Bankinn hefir upp á síðkastið orðið fyrir þungum dómum víða að, meðal annars hjer á hv. Alþingi. Hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) kvað um daginn í hv. Ed. upp þann harða dóm yfir bankanum, að hann hafi „varpað allri varkárni fyrir borð“, og um bankastjórnina segir hann, að ekkert sje á að byggja, hvað hún segi, því „hún hugsi um það eitt að græða fyrir stofnunina“. Þetta er þungur dómur, þegar það er íhugað, að hjer er að ræða um bankann, sem hefir á hendi seðlaútgáfu landsins og út á við er talinn aðalbanki landsins.

Það blandast víst engum hugur um, að þessar stórkostlegu misfellur á fjármálastarfsemi bankans hafi haft lamandi áhrif á lánstraust landsins. Munu einstakir menn hafa frá mörgu að segja í því efni, hve afskaplega fjármálastarfsemi bankans hafi spilt lánstrausti þeirra og viðskiftum erlendis, og hinn sameiginlegi sjóður landsmanna, ríkissjóðurinn, mun ekki heldur hafa farið varhluta.

Nægir hjer að benda á það, þegar landsstjórnin á síðastliðnu ári ætlaði að taka lán handa ríkissjóði í Danmörku, þar sem öll okkar ríkislán hafa verið tekin til þessa, en það mistókst, eins og kunnugt er, og þektu þó Danir eða áttu að þekkja fjárhag okkar allra þjóða best, og hlutu því að vita, að fjárhagur hins íslenska ríkis var í raun og veru mjög góður, þótt erfiðleikar væru í bili. Jeg er ekki í neinum vafa um, að orsökin til þess, að lánið fjekst ekki í Danmörku, var óhyggilegar ráðstafanir fjármálastjórnar Íslandsbanka, og jeg get því ekki betur sjeð en að hjer sje um lánstraustsspjöll að ræða, sem landið hefir orðið fyrir af starfsemi bankans, enda er jeg sannfærður um, að margir menn hjer á landi eru mjer sammála um það.

Ríkislánið, sem tekið var í Bretlandi á síðastliðnu ári, var tekið með hinum mestu ókjörum, og stóðu lánskjörin ekki í neinu hlutfalli við hag ríkisins. Má þar sjerstaklega benda á vaxtakjörin, sem hljóta að verða okkur þungur baggi. Hefir það vafalaust verið að kenna óorði því, sem komið var á landið fyrir ógætilega fjármálastarfsemi Íslandsbanka.

Til samanburðar skal jeg geta þess, að einstakir menn, sem hafa fengið lán í enskum bönkum til skipakaupa, hafa aðeins goldið 5% vexti, og hversu miklu betur átti ríkið ekki að standa að vígi?

Að vísu má ef til vill að einhverju leyti kenna seinheppilegri aðferð fyrverandi stjórnar um hin óhentugu kjör lánsins, en þó munu þau, og tregðan á að fá lánið, að langmestu leyti vera að kenna óorði því, sem Íslandsbanki hafði komið á landið. Þetta eru auðvitað lánstraustsspjöll og stórtjón fyrir landið.

Það hefir verið sagt hjer í hv. deild, í umræðunum um fjárlögin, að það mundi vera um 5 milj. kr., sem útlendingar ættu hjer inni og fallnar væru í gjalddaga, og að það væru þessar skuldir, sem verið væri að bjóða út; og að það væru þessar kröfur, sem orsökuðu gengismun íslenskrar og danskrar krónu. Það hefir ekki verið upplýst, hvort alt þetta fje liggi í bönkum, eða hvort nokkuð af því sje skuldakröfur á einstaka menn. En hitt þykjast margir vita, að töluvert mikið fje liggi í Íslandsbanka, sem hann eigi að yfirfæra, og hafa sumir talið það nema nokkrum miljónum króna.

Þegar ríkissjóður skifti enska láninu á síðastliðnu hausti, fjekk Íslandsbanki nálega helming þess. Bankinn mun hafa notað það til að borga viðskiftaskuldir sínar við erlenda banka, aðallega viðskiftabanka sinn í Danmörku, og mun bankinn hafa verið nær skuldlaus um síðustu áramót þar. Margir telja það misráðið af bankanum að hafa ekki samið um greiðslur á skuld sinni við þennan viðskiftabanka sinn, sem mun að mestu leyti vera eigandi Íslandsbanka, og nota heldur fjeð til að greiða þessar aðkallandi innheimtuskuldir, svo að ekki væri verið að fella íslensku krónuna í verði með stöðugu útboði á henni. Af þessu dreg jeg þá ályktun, að sá munur, sem er á danskri og íslenskri krónu, sje að kenna óhyggilegri fjármálaráðstöfun Íslandsbanka.

Munurinn á íslenskri og danskri krónu er nú um 30 aurar, og sje það lagt á innfluttar vörur vorar, þó ekki sje nema eitt ár, þá er það engin smáræðisupphæð.

Aðfluttar vörur árið 1919 námu samkvæmt skýrslum um 60 miljónum króna. Fyrir árið 1920 og 1921 eru ekki komnar út skýrslur, svo það er ekki hægt að segja nákvæmlega, hvað mikið hefir verið flutt inn á þeim árum, en það mun mega gera ráð fyrir, að á yfirstandandi ári muni ekki verða minni innflutningur en sem nemur 30 miljónum króna, og mun það mjög varlega áætlað, eða helmingi minna en árið 1919. Gengismunurinn á íslenskri og danskri krónu nemur þá á aðfluttum vörum árið 1922 9 miljónum króna, og um það fje eigum við kröfu á hendur bankanum fyrir óhyggilegar fjármálaráðstafanir hans.

Þetta er dálaglegur skildingur og ekki að undra, þótt einhverjum detti í hug að láta þá sæta ábyrgð og borga skaðabætur, sem menn telja valda að þessu þjóðartjóni. Vitanlega er þetta alls ekki útgjöld ríkissjóðsins, heldur allra landsmanna, en ríkið á að sjá um hag þjóðarinnar og hefja kröfuna fyrir hennar hönd; en auðvitað kemur þetta afarhart niður á ríkissjóði, því eingöngu gengishækkunin á vöxtum og afborgunum af ríkislánum mun nema hundruðum þúsunda króna.

Nú mætti spyrja að því, á hvern hátt væri hægt að koma því við að höfða mál á hendur Íslandsbanka, og þá kem jeg að því, sem vikið er að í greinargerð till., þar sem talað er um málaferli bankans. Bankinn höfðaði sem sje skaðabóta- og meiðyrðamál á hendur blaðinu, sem flutt hafði greinar, að vísu harðorðar, en fullkomlega rjettmætar, um starfsemi hans. Krafðist bankinn milj. kr. í skaðabætur, og þóttist hafa orðið fyrir skakkaföllum sem því næmi, út af umræddum greinum. Það hefir nú alt reynst rjett, sem sagt var í greinunum um bankann, og fyrst eftir að þær komu út fór bankinn að sjá að sjer og fór að gera tilraun til þess að lagfæra misfellurnar hjá sjer. Er ekki nokkur vafi á því, að þessar skörulegu aðfinslur hafa bjargað bankanum, sem annars hefði í andvaraleysi ef til vill flotið sofandi að feigðarósi. En bankinn heimtar hjer milj. kr. skaðabætur fyrir greinarnar, sem björguðu honum.

Í þessu máli er fallinn dómur, og hefir bankinn fengið 20 þús. kr. skaðabætur, auk málskostnaðar af þessum 500 þús., sem hann setti upp, en það getur verið, að hann fái meiri skaðabætur, því í forsendum dómsins er tekið fram, að fleiri blöð hafi ráðist á bankann, og er því ekki útilokað, að honum græðist eitthvað á þeim.

Jeg skal ekki tala um sjálfan dóminn hjer, þótt hann geti gefið efni til hugleiðinga um, hvort prentfrelsi sje hjer á landi eða ekki, er ekki má finna að óviturlegum og háskalegum ráðstöfunum opinberra stofnana, og þeir, sem það gera, megi eiga von á svo þungum fjársektum, að þeir fái ekki undir risið. Og standist slíkir dómar, sem þessi er, er jeg ekki í neinum vafa um það, að ríkissjóður hefir miklu meiri líkur til þess að fá dæmdar skaðabætur frá Íslandsbanka fyrir alt hans framferði.

Annars væri rjett að athuga, í sambandi við þennan dóm, hvort ekki væri hægt að fá hjer tekjustofn handa ríkissjóðnum, að hann færi í skaðabótamál við þá, sem opinberlega ávíta fjármálastjórn landsins. Jeg gæti t. d. hugsað mjer, að landsverslunin hlyti að geta fengið stórfje í skaðabætur, ef hún færi í mál út af öllu því misjafna, sem — vitanlega ranglega — hefir um hana verið sagt.

Jeg þykist svo ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta. Jeg hefi bent á, að Íslandsbanki hafi spilt fyrir lántöku í Danmörku, valdið gengismuninum og slæmum vaxtakjörum á enska láninu, og loks er það var tekið, sem gert var til þess að bæta gengið, gerir bankinn þann tilgang að engu, og má skrifa allan þann gengismun, sem nú er á danskri og íslenskri krónu, á syndareikning bankans.

Þetta eru lánstraustsspjöll og beint tjón, sem reikna má út með nokkuð mikilli nákvæmni, og treysti jeg þeim mönnum, er dæmdu bankanum skaðabætur fyrir greinarnar, til að meta það tjón, sem landið hefir orðið fyrir, og til þess að dæma landinu skaðabætur fyrir afglöp þau, sem bankinn hefir framið.