04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (1956)

77. mál, skaðabótamál gegn Íslandsbanka

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg skal ekki kveða hjer upp dóm um það, hvernig Íslandsbanka hefir verið stjórnað undanfarin ár. Til þess að geta gert slíkt þyrfti jeg að hafa rannsakað hag bankans. En jeg get ekki ímyndað mjer, að hv. Alþingi fari að samþykkja till. eins og þessa, sem hjer liggur fyrir.

Í tillögunni er bein skipun til stjórnarinnar um að höfða skaðabótamál gegn Íslandsbanka. Stjórninni er ekki einu sinni falið að rannsaka fyrst, hvort hægt sje að sanna, að bankinn hafi gert landinu skaða, því án slíkrar rannsóknar væri þó ekki hægt að krefjast skaðabóta. Nei, hjer er aðeins gefin bein skipun.

Nú er bankanum, eins og kunnugt er, stjórnað af fulltrúaráðinu; hv. Alþingi kýs 3 menn, hluthafarnir 3 menn, en forsætisráðherrann er oddamaður. Að lögum hefir fulltrúaráðið mjög víðtæk ráð yfir bankanum (J. B.: Að lögum, en ekki í framkvæmd), og hlýtur því að bera eigi litla ábyrgð á stjórn hans. Skaðabótamálið yrði þá væntanlega aðallega að snúast á móti fulltrúaráðinu, og er auðsætt, hvernig litið yrði á það í útlöndum, ef hv. Alþingi færi að skipa slíka málshöfðun.

Það er sýnilegt, að svo fremi ráðstafanir hafa verið gerðar í bankanum, sem skaðlegar voru fyrir lánstraust landsins, þá var skylda fulltrúaráðsins að grípa fram fyrir hendur bankastjóranna og setja þá af, en til þess mundi fulltrúaráðið vafalaust hafa haft vald undir slíkum kringumstæðum. Ef bankinn hefir gert stórvægileg axarsköft, þá hefir líka fulltrúaráðið vanrækt að gera skyldu sína, og málið yrði því gegn fulltrúaráðinu, en formaður þess er forsætisráðherra, og í því eiga sæti 3 þingkjörnir menn. En hvernig mundi slík málshöfðun dæmd í útlöndum, og hvaða áhrif hefði hún á allan fjárhag landsins, og sjerstaklega á lánstraust þess?

Eins og kunnugt er, hefir nú farið fram mat á bankanum, og eru hlutabrjefin metin á 91%. Þetta mat sýnir undir öllum kringumstæðum, að þrátt fyrir alt tap stendur bankinn þó ekki á völtum fótum. Hins vegar er það víst, að hagur Landsbankans er hinn allra besti. Fyrir traust landsins er það mikils virði, að peningastofnanir þess standa þrátt fyrir alt á föstum fótum. Það er því síst ástæða til fyrir þá, sem bera ábyrgð á fjárhagnum, að fela þessa niðurstöðu.

Jeg lít á það sem fyrstu og helgustu skyldu stjórnar og þings að hafa eftirlit með bönkum og peningastofnunum, og taka hart á þeim, ef þeir uppfylla ekki skyldur sínar. Hitt væri glappaskot, ef þingið færi að samþykkja slíka till. um málshöfðun, sem hjer liggur fyrir, og þótt svo fari, að hún verði samþykt, þá tek jeg ekki að mjer að framkvæma hana.