05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

91. mál, herpinótaveiði

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Eins og þál. á þskj. 231 ber með sjer. hefir það orðið samkomulag í sjávarútvegsnefnd að leggja til, að frv. verði samþ. Í lögunum frá 1913. um samþyktir um herpinótaveiði í Eyjafirði og Skagafirði, er lína sú, sem hjer um ræðir og takmarkar samþyktarsvæðið í Skagafirði, dregin frá Þórðarhöfða, syðri enda hans, og á Ingveldarstaði á Reykjaströnd, sem er yst undir Tindastóli. En samkvæmt frv. þessu er línan færð út, einkum að vestanverðu, þannig, að nú liggur hún frá Þórðarhöfða um Drangey og þaðan sömu stefnu á Skaga. Það er því aðallega vestanmegin fjarðarins, sem línan færist út. En ástæðan til þess, að fram á þetta er farið, er sú, að einmitt þarna eða á þessu svæði eru góð fiskimið, sem þeir vilja friða, og telja brýna nauðsyn til þess, fyrir herpinótaveiðum. Slíkar veiðar valda truflunum við venjulegar fiskveiðar og valda auk þess oft skemdum á veiðarfærum. En svo er og enn eitt ótalið, sem mælir mjög með því, að þessi breyting sje gerð, en það er sú staðreynd, sem ekki einasta er fengin á þessum stað, heldur einnig á öðrum flóum og fjörðum, að herpinótaveiði inni á fjörðum tálmar því, að síldin gangi áfram inn eftir fjörðunum og inn í fjarðarbotn, eins og venja hefir verið til, að hún geri. Nú, síðan farið var að stunda herpinótaveiði þarna inni á Skagafirði, er síldin hætt að ganga nokkuð til muna lengra inn í fjörðinn, en afleiðingin af því er aftur sú, að fiskurinn, sem fylgir síldartorfunum og síldargöngunni, hefir af þessum orsökum lagst frá fiskimiðum innar með firðinum. Þetta er því bagalegra og skaðlegra á þessum stað, þar sem afli á aðalfiskimiðum þeirra Sauðkræklinga, en þar er aðalútgerðin við Skagafjörð, en þau eru innarlega í firðinum, hefir brugðist nú undanfarið, og er það einróma álit sjómanna norður þar, að orsakir að þessu sje að rekja til þess, er jeg nú hefi greint. En fiskimið þau lengra úti með firðinum, sem afli helst enn á. geta Sauðárkróksbúar ekki sótt á á opnum bátum, sökum vegalengdar, og verða því að liggja við þar út frá til að geta notfært sjer þau.

Á Eyjafirði er alt svæðið innan við Hrísey friðað fyrir herpinótaveiði; er þó miklu meiri vegalengd frá Hrísey inn í fjarðarbotn en frá Drangey og að botni Skagafjarðar.

En svona mikil friðun á Eyjafirði fyrir herpinótaveiði þótti nauðsynleg til verndar þorskveiðunum og til þess að trufla ekki fiskigöngurnar á grunnmiðin, og á það sama auðvitað við um Skagafjörð. Nefndin leggur því eindregið til, að mjög rjettmætar óskir Skagfirðinga um þetta sjeu teknar til greina.