13.03.1924
Efri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

59. mál, friðun rjúpna

Einar Árnason:

Frv. þetta fer fram á það, að tími sá, er rjúpurnar eru alfriðaðar, sje framlengdur til 1. okt. 1927. Jeg er fullkomlega sammála hv. flm. (GÓ) um það, að það sje skylda löggjafarvaldsins að gera sitt til þess að afstýra því, að rjúpunni fækki, en jeg er á hinn bóginn ósammála honum um það, að nauðsynlegt sje að framlengja friðunartímann svo mikið, sem frv. fer fram á. Í raun og veru álít jeg friðunartímann hæfilegan eins og hann var ákveðinn með lögum nr. 14, 27. júní 1921, en jeg hefi þó leyft mjer, ásamt hv. þm. Snæf. (HSteins), að koma fram með brtt. á þskj. 106 sem málamiðlunartillögu, þannig að í stað „1927“ í 1. gr. komi: 1925. Byggi jeg þá breytingu á því, að rjúpunni hefir fjölgað svo upp á síðkastið, að nægilegt ætti að vera að friða hana til 1925. Eins og hv. frsm. (EP) tók fram, þá fækkaði rjúpunni mjög harðindaveturinn mikla 1918, og snjóaveturinn 1920 gerfjell hún. Þá tók löggjafarvaldið til sinna ráða og friðaði hana til 1. okt. 1924. Árangurinn af þeirri friðun hefir orðið sá, að á stórum svæðum á landinu er rjúpnamergðin eins mikil og hún var fyrir harðindin. Á síðastliðnu hausti gerði jeg mjer far um að fá vitneskju um þetta með því að spyrja ýmsa fjallgöngumenn um þetta, og bar þeim öllum saman um það, að töluvert mikið sje orðið um rjúpu hjer á landi. Og þeir menn aðrir, sem oft hafa farið fjallvegi, hafa sömu sögu að segja. T. d. veit jeg það, að í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslu er töluvert mikið um rjúpu. Sama er að segja um Austurland. Og jeg veit, að hv. meðflm. minn (HSteins) hefir sömu sögu að segja að vestan. Eins og mönnum er kunnugt, er viðkoma rjúpunnar mikil þegar vel árar. Og nú undanfarin ár hefir tíðin verið hagstæð og rjúpunni fjölgað mikið, sjerstaklega síðastliðið vor, og færi svo, að þessi vetur og vor komandi yrði jafngott og horfur eru á, þá mun fjölgunin verða mjög mikil. Það hefir verið svo hjer frá fyrstu tíð, að náttúruöflin hafa mest orsakað fækkun rjúpunnar, en sje tíðin góð um nokkurt skeið, þá fjölgar henni mjög ört. Jeg lít svo á, að þó að veiðigirni manna sje mikil, þá sje hún ekki eins hættuleg viðkomu rjúpunnar sem harðindin. — Menn mega heldur ekki gleyma því, að rjúpan er oss Íslendingum til nytja, og þó að jeg viðurkenni það, sem hv. frsm. mintist á, að rjúpan sje skemtilegur fugl, þá er hún undir sömu forlögin seld eins og önnur þau dýr, sem höfð eru þjóðinni til lífsframfæris. Hún er hvorttveggja í senn allmikilsverð útflutningsvara og neysluvara í landinu sjálfu. Sje jeg ekki, að vjer megum, eins og ástandið er nú loka augunum fyrir gagnsemi rjúpunnar, sjerstaklega þegar þess er gætt, að þó að rjúpan verði friðuð um lengri eða skemri tíma, þá mega menn eiga það víst, að náttúran grípur þar fram í, og þá verður oss friðunin hvorki til gagns nje ánægju. Er það ekki óhugsanlegt, eins og tilhagar hjer á landi um veðráttu, að ef rjúpan verður friðuð til 1926–27, þá komi harðindavetur á þeim tíma, og er þá hætt við, að friðunarráðstöfunin komi að litlu haldi. — Eins og jeg þegar hefi tekið fram, byggi jeg og hv. meðflm. minn (HSteins) brtt. á því, að við álítum, að rjúpnamergðin sje orðin svo mikil, að óþarfi sje að framlengja friðunartímann lengur en til 1. okt. 1925. Hv. deild verður að gera það upp við sjálfa sig, hvað hún álítur rjett í máli þessu, og jeg get tekið undir með hv. frsm. (EP), að þetta er ekkert stórmál, og því ástæðulaust að fara í kapp út af því.