11.04.1924
Efri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

132. mál, Leyningur

Flm. (Einar Árnason):

Frv. þetta er flutt eftir tilmælum bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar. Ástæðan til þess, að frv. kemur svo seint fram, er sú, að mjer bárust ekki tilmælin fyr en nú fyrir 3 dögum. Um frv. er það að segja, að það er partur úr frv., sem flutt var í hv. Nd. 1921. Fór Siglufjörður þess á leit þó að fá keypt Hvanneyri og Leyning. Eins og kunnugt er, þá er Siglufjörður mestmegnis bygður í landi Hvanneyrar. Var nefndin í Nd. sammála um að selja Siglufirði jarðirnar Hvanneyri og Leyning, að undantekinni eyrinni, sem bærinn stendur á. Siglufjörður vildi ekki ganga að kaupunum, þar eð hann fjekk ekki keypt eyrina líka. Bæjarstjórnin ljet því óútrætt um málið. Nú fer hún aðeins fram á það að fá keyptan Leyning, sem er sjerstök jörð skamt frá bænum. Ástæðan til þess, að bæjarbúar óska eftir að fá jörðina keypta, er sú, að það er mjög erfitt um hagagöngu í nánd við bæinn, því að jarðir þær, sem að honum liggja, eru allar í einstakra manna ábúð. Hinsvegar er jörð þessi mjög hentug, því að hagar eru þar góðir. Annars er jörðin ekki mikils virði, því að tún og engi eru þar lítil. Má vænta þess, ef Siglufjörður eignast jörðina, að hann leggi við hana góða rækt. Í landi jarðarinnar er gott mótak, og er bænum meðal annars af þeim ástæðum nauðsynlegt að eignast jörðina. Jeg skal geta þess, að öll þau stjórnarvöld, sem hlut eiga að máli, hafa samþykt söluna, og auk þess liggur fyrir umsögn hjeraðsfundarins í Eyjafjarðarprófastsdæmi, þar sem hann mælir með sölunni. Jeg hefi einnig átt tal við biskupinn um þetta, og er hann sölunni fylgjandi. Jeg tel þessa leið, sem nú er farin, aðeins formsatriði, því jeg lít svo á, að hæstv. stjórn hafi heimild frá 1921 til þess að selja jörðina. Jeg kysi, að frv. yrði hraðað sem mest og jeg vænti þess, að það sæti ekki neinum mótmælum. Því legg jeg ekki til, að það fari til nefndar, en mun þó sætta mig við það.