16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög 1925

Einar Árnason:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með eina brtt., á þskj. 394, þess efnis, að ríkisstjórninni heimilist að taka ábyrgð á láni, alt að 350 þús. kr., til Siglufjarðarkaupstaðar, til byggingar raforkustöðvar og rafmagnsveitu. Það er ekki nýtt, að slíkar málaleitanir komi fram hjer á Alþingi, og hefir þingið heimilað slíkar ábyrgðir, bæði fyrir kaupstaði, kauptún og sveitarfjelög, og nægir þar til að nefna Reykjavík, Akureyri og Seyðisfjörð, sem ríkið hefir gengið í allstórar ábyrgðir fyrir. Vænti jeg því, að það sjái sjer fært að hjálpa Siglufirði sömuleiðis um líka ábyrgð.

Þannig er ástatt þar, að bærinn hefir nú eina litla rafmagnsstöð, sem er alt of lítil fyrir kaupstaðinn og ekki hægt að stækka hana vegna þess, að í nágrenninu er ekkert vatnsafl til, sem getur framleitt svo mikið rafmagn, að það fullnægi þörf kaupstaðarins. Hefir bærinn því ráðist í að kaupa vatnsafl vestur í Fljótum, og verður að leiða það langan veg yfir fjöll til Siglufjarðar. Mun sú leiðsla kosta um 100 þús. krónur, fyrir utan byggingu rafstöðvarinnar og ýmsan annan kostnað.

Jeg hefi sett þá athugasemd sem skilyrði fyrir ábyrgðinni, að stjórnin telji, að fyrirtækið muni borga sig og að bæjarfjelagið sje fært um að standa straum af því. Ætti því engin hætta að þurfa að vera fyrir ríkið að ganga á ábyrgð þessa.

Þess skal getið, að á Siglufirði eru fleiri verksmiðjur en í nokkrum öðrum kaupstað landsins. Eru þær einmitt líklegar til að nota mikið raforkuna sem vinnuafl. Getur því vel farið svo, að fyrirtæki þetta gefi góðar tekjur. Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta atriði frekar. Jeg tel það svo auðskilið, að það þurfi lítilla skýringa með.

Þá vil jeg minnast á eitt atriði í ræðu hv. 1. landsk. þm. (SE). Ekki af því, að jeg ætli að fara að ganga fram fyrir skjöldu fjvn., því að hv. frsm. (JóhJóh) mun fyllilega halda þar sínum hlut. Hv. 1. landsk. þm. vildi halda því fram, að ekki væri rjett með farið í nefndarálitinu, þar sem minst er á Kristin Ármannsson. Jeg minnist á þetta af því, að jeg hefi sjálfur skrifað um þetta atriði í nál., og er það, sem þar er sagt, bygt á þeim skjölum, sem fyrir nefndinni lágu um þetta mál, er voru frá Kr. Ármannssyni sjálfum og rektor mentaskólans. Vildi jeg, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa upp kafla úr brjefi K. Á. (SE: Jeg vona, að mjer sje trúað eins og öðrum). Jeg ber engar brigður á það, sem hv. þm. sagði, en jeg vil aðeins lesa upp kafla úr brjefinu, til þess að það liggi skýrt fyrir, að nefndin hefir ekki farið rangt með það, sem fyrir henni lá. Brjefkaflinn hljóðar þá svo:

„Síðastliðið sumar lauk jeg kennaraprófi við háskólann í Kaupmannahöfn með 1. einkunn í námsgreinunum: latínu, grísku og ensku. Meðan á prófinu stóð fjekk jeg tilboð frá mentaskóla í Danmörku, Ribe Kathedralskole, um fasta kennarastöðu (adjunktsstöðu) í námsgreinum mínum. En með því mjer áður hafði skilist svo á stjórn mentaskólans hjer, að skólinn vildi gjarnan festa mig, þá vildi jeg ekki sinna þessu boði fyr en jeg talaði við íslensk stjórnarvöld. Hittist þá einmitt svo á, að forsrh. Íslands, hr. Eggerz, var staddur í Kaupmannahöfn, og lagði jeg málið fyrir hann. En hann kvaðst ekki geta gert neitt í málinu fyr en hann talaði við skólastjórnina hjer, og varð þá loks úr, að eftirlitsmaður dönsku skólanna leyfði mjer að fresta að gefa ákveðið svar um stöðuna í Ribe, þangað til jeg væri kominn heim. Þegar hingað var komið, átti jeg aftur tal við forsætisráðherra. Með því, að þá í svip var engin föst kennarastaða í mínum námsgreinum laus við skólann, en útlit fyrir, að svo yrði síðar, þá gerði jeg stjórninni það boð, að jeg færi aftur til Danmerkur, gengi á kennaranámskeið í Kaupmannahöfn, sem Ribeskóli ætlaði að kosta mig á, og sæti svo í embættinu í Ribe eitt eða fleiri ár, þangað til jeg yrði kallaður hingað heim; hafði jeg getið þessa möguleika við málsaðilja í Danmörku og þeir tekið því líklega. Þessu tilboði hafnaði stjórnin. Kvað óvíst, að jeg vildi koma hingað aftur, þegar jeg einu sinni væri farinn, enda ómögulegt að gefa mjer loforð um stöðu seinna meir við skólann, ef jeg tæki hana ekki þegar í stað.“

Það er aðeins á þessum ununælum, sem bygt er í nefndarálitinu. En nefndin segir ekkert um, hvort þær forsendur eru rjettar, en á öðru hafði hún ekki að byggja. Og eins og jeg tók fram áðan, dettur mjer ekki í hug að bera brigður á orð hv. 1. landsk. þm. (SE).