02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (2995)

143. mál, Landspítalamálið

Einar Árnason:

Það gleður mig, að fyrsti liður þessarar tillögu bendir í þá átt, að mál þetta sje nú að komast niður á jörðina. Því að ekki var trútt um, er menn sáu hinar fyrirferðarmiklu teikningar af landsspítalanum í fyrra, að mörgum fyndist málinu stefnt til skýjanna, og það svo mjög, að margir munu í bili hafa mist áhuga fyrir því, þar sem fyrirsjáanlegt var, að landið myndi aldrei geta risið undir rekstrarkostnaðinum, þó aldrei nema það hefði haft tök á að byggja þetta stórhýsi, sem áætlað var að mundi kosta 3–4 miljónir.

En nú er gert ráð fyrir að draga saman seglin að miklum mun, og fyrir það býst jeg við að geta greitt tillögunni atkvæði. En ekki mun jeg áfella hæstv. stjórn, þó að 2. liður tillögunnar komi ekki til framkvæmda fyr en fjárhagur ríkissjóðs batnar svo, að það geti talist forsvaranlegt að leggja fram fje í þessu skyni.

Mjer heyrðist á hv. 6. landsk. (IHB), að útlitið væri nú mjög gott um alla afkomu manna hjer á landi. En jeg lít alt öðrum augum á það. Því að sje litið yfir horfur og kjör þjóðarinnar nú, eru þau alt annað en glæsileg, þar sem t. d. á Vesturlandi hefir verið mjög aflalítið í allan vetur, ef ekki aflalaust með öllu, eins og 2 undanfarin ár, og afkoma manna þar því mjög bágborin. Og nú í 2. viku sumars er alt Norður- og Austurland þakið fönn og gaddi og heyleysi víða farið að kreppa að. Eru afleiðingarnar því óvissar ennþá. En ef þetta sama tíðarfar helst lengi, er útlitið alvarlega ískyggilegt, og mjög óvíst, hvernig úr rætist.

Jeg hefi gert þessar athugasemdir til þess að undirstrika það, að þó að jeg telji mál þetta, sem hjer er um að ræða, í sjálfu sjer mjög gott, þá álít jeg hinsvegar óþarft að gylla það um of með því, hve ástandið sje gott meðal þjóðarinnar.