03.04.1924
Efri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

74. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Einar Árnason):

Það þarf ekki langa framsögu um þetta mál. Eins og frv. ber með sjer, þá eru útgjöldin rúmar 46 þús. kr. Þó segja megi, að útgjöldin sjeu greidd af stjórninni án beinnar heimildar þingsins, þá má þó segja það um marga liðina, að þeir eru ýmist endurbætur eða viðhald á fasteignum ríkisins, sem óhjákvæmilegt var að gera. Verður að líta svo á, að stjórnin hafi altaf leyfi til þess að verja nokkru fje til þess að vernda eignir ríkisins fyrir skemdum.

Hæsti útgjaldaliðurinn er skrifstofukostnaður húsameistara ríkisins, hátt á 6. þús. kr. Fjvn. vill vekja athygli hæstv. stjórnar á þessum lið, og er hún þar sammála fjvn. hv. Nd. um það, að hún getur ekki fallist á, að það sje nauðsynlegt að greiða þennan kostnað nú, þar sem ríkið hefir nú ekki með höndum neinar byggingar svo teljandi sje. Álítur nefndin því óþarft að kosta svo miklu til þessa. Þó leggur nefndin til, þrátt fyrir þessa athugasemd, að frv. verði samþykt óbreytt.