22.03.1924
Efri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

5. mál, vegalög

Einar Árnason:

Jeg skal fyrst minnast á síðari brtt. mína á þskj. 190. Mjer þykir leitt, hve fast háttv. meiri hluti samgmn. heldur í þetta atriði, sem brtt. mín á að færa, að því er jeg tel, til betri vegar, enda hefir engin frambærileg ástæða af hans hálfu komið fram gegn þessu.

Samkvæmt 18. gr. frv. er hreppsnefndum heimilað án íhlutunar hreppsbúa að leggja 5 kr. nefskatt á hvern verkfæran karlmann. Jeg lít nú svo á, að með þessu sje hreppsnefndum fengið fullmikið vald í hendur. En þó er það sök sjer, ef þessi nefskattsgrundvöllur væri rjettlátur. En það er langt frá, að svo sje. Með þessu myndi í mörgum tilfellum leggjast mjög þung byrði á mörg fátæk heimili, en efnafólk og peningamenn margir sleppa að miklu eða öllu leyti. Meðan nefskattar eru lágir, ber minna á ranglæti þeirra, en þegar þeir eru gerðir svo háir, sem frv. ætlast til, þá keyrir rangsleitnin úr hófi.

Nú fer brtt. mín ekki fram á annað en að orðalagi 20. gr. sje breytt á þá lund, að hreppsbúum sje heimilt að ákveða sjálfum, með hverjum hætti þeir vilji jafna niður þeim hluta hreppsvegagjaldsins, sem fer yfir það lágmark, sem sett er í 18. gr. Þau hreppsfjelög, sem vilja nota nefskattsaðferðina eingöngu, geta því gert það, þó að önnur vilji fara hina leiðina. Jeg sje heldur ekki neina skynsamlega ástæðu fyrir því, að hreppsvegagjaldinu sje jafnað niður á hreppsbúa eftir annari reglu en öðrum lögmæltum útgjöldum sveitarfjelaganna, einkum þar sem niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum er að mínu áliti ólíkt rjettlátari en nefskattur, hvað sem hv. 1. þm. Rang. (EP) segir. Og jeg verð að segja það, að mig furðar á því kappi, sem háttv. meiri hluti nefndarinnar leggur á það að rýra þann sjálfsagða rjett, sem sveitarfjelögin eiga að hafa um það að ráða sínum eigin málum.

Jeg stend við það, sem jeg sagði áðan, að jeg hafi gert tillögu þessa í samráði við vegamálastjóra. Sagðist hann við samning frv. ekki hafa tekið eftir, að þennan skilning mætti leggja í greinina, og taldi því rjett, að orðalaginu væri breytt á þennan hátt.

Þá skal jeg minnast á fyrri brtt. mína á þskj. 190. Háttv. frsm. (JJós) talaði mjög hóflega um brtt. þessa. Get jeg þó ekki gert honum til geðs að taka hana aftur. Háttv. andmælendur hafa ekki minst einu orði á, hvað sanngjarnt væri í þessu máli, samanborið við gerðir þingsins í fyrra, heldur reynt að hræða háttv. deild með því, að verði brtt. þessi samþykt, þá eigi eitthvað óttalegt að ske.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) varaði við að samþykkja brtt. þessa, því að þá myndu fleiri svipaðar koma á eftir, og slíkt gæti orðið frv. að falli. En þetta er ekkert annað en grýla. Frv. er ekki á neinni hættu, þó að einstök atriði þess sjeu færð til meira samræmis. Þó nú að leitað sje með logandi ljósi, finst engin flutningabraut á landinu, sem hefir verið undantekin, nema flutningabrautirnar inn Eyjafjörðinn og upp Borgarfjörðinn. Húsavíkurbrautin er það ekki, því að hún er tekin í þjóðvegatölu með þessum ákvæðum í frv.: „Fljótsheiði, Aðalreykjadal til Húsavíkur.“ Þetta hefði hv. 1. þm. Rang. átt að vera vorkunnarlaust að vita.

Þá var háttv. 1. þm. Rang. einnig að tala um legu þjóðvegarins í Rangárvallasýslu. Það kom málinu vitanlega ekkert við, því að hvaða samband getur verið á milli legu flutningabrautar austur í Árnessýslu og viðhalds flutningabrautar norður í Eyjafirði? Ef það er nauðsynlegt að breyta legu þessarar brautar, því kom hv. 1. þm. Rang. þá ekki með brtt. í þá átt, því að nefndin hefði eflaust tekið hana til greina, þar sem hún hefir gert till. um, að breytt verði legu þjóðvega bæði í Árnessýslu og Húnavatnssýslu.

Þá skal jeg snúa mjer að hv. 2. þm. G.-K. (BK). Satt sagt skyldi jeg ekkert í ræðu hans. Hann taldi upp ýmsa vegi í Gullbringu- og Kjósarsýslu, jeg held flest hreppa- og sýsluvegi, sem hann kvaðst neyddur til að koma með brtt. um að fá tekna inn í tölu þjóðvega, ef brtt. mín yrði samþykt. Ef þessi hv. þm. heldur, að jeg sje með tillögu minni að gera tilraun til að koma öllum vegum í Eyjafjarðarsýslu í þjóðvegatölu, þá er það mesti misskilningur, því að í sýslunni er fyrir utan þennan veg fjöldi bæði hreppa- og sýsluvega. Annars má minna hv. þm. á, að með frv. þessu er Keflavíkurveginum ljett af sýslunni og jafnframt ákveðið, að nýr þjóðvegur skuli koma um Mosfellssveit. Er þetta því miklu meira en Eyjafjarðarsýsla fær.

Háttv. frsm. sagði, að komið gæti til mála að breyta legu þjóðvegarins um Þelamörk, Kræklingahlíð til Akureyrar. En þetta stafar af ókunnugleika hans, því að nú þegar er búið að leggja töluvert af þessum vegi, og því ekki hægt hjeðan af að breyta legu hans, auk þess sem landslag og staðhættir skapa það, að ómögulegt er að fara aðra leið en gert hefir verið. Það, sem því haft hefir verið á móti brtt. minni, hefir ekkert komið málinu við, því að ekkert dæmi er til hliðstætt þessu, nema Borgarfjarðarbrautin. Sje jeg því ekki, að neitt óttalegt geti skeð, þó að fylgt sje þeirri reglu, sem þingið í fyrra ætlaðist til og fylgt hefir verið í frv., nema hvað snertir Eyjafjarðar- og Borgarfjarðarbrautirnar.