22.03.1924
Efri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

5. mál, vegalög

Einar Árnason:

Hv. andstæðingar mínir hafa nú náð sjer í dálitla snös, sem jeg bjóst við að þeir mundu grípa til fyr, jafnvel þó hún reynist haldlaus. Og snösin var sú, að fylgt væri í frv. þeirri allsherjarreglu, að aðeins væru teknar inn í frv. brautir frá aðalþjóðvegunum til kauptúnanna, en ekki brautir, er lægju frá aðalþjóðvegunum og upp til sveita. En þetta er ekki rjett. Slíkt er engin allsherjarregla í frv. Skal jeg því til sönnunar benda t. d. á Biskupstungnabrautina. (EP: Það er alt öðru máli að gegna; sá vegur liggur til Geysis). Það er ekki rjett hjá hv. þm., því að Geysisbrautin liggur frá Reykjavík um Þingvöll til Geysis. Svo er það annað, að þegar tilviljunin eða landslag hagar því svo til, að þjóðvegur liggur öðrumegin kauptúns, þá þykir það sanngjarnt að taka þar aukabrautirnar með, en ef þjóðvegurinn liggur í gegnum kauptúnið, þá þykir það ekki rjett að taka brautir þaðan upp til hjeraðanna. Reglan í frv. er í sjálfu sjer engin; á það bendir Biskupstungnabrautin, sem eingöngu er hjeraðsbraut frá kauptúni. Það hefir ekkert að segja, þó að hv. 1. þm. Rang. sje að tala um bygging nýrra vega; um það er ekki að ræða hjer, heldur aðeins um viðhald á vegum, sem til eru. Jeg skal ekki deila við hv. þm. um vegabótagjald verkfærra manna. Við erum þar á gagnólíkri skoðun. Hv. þm. sagði, að vegamálastjóri mundi ekki hafa sett þetta ákvæði í frv. nema hann ætlaðist til, að það yrði samþykt. En því er til að svara, að vegamálastjóri hefir ekki fundið þetta upp, því að samkvæmt lögum frá 1907 má hækka gjaldið upp í 3 kr., og þó fylgja megi því, þá tel jeg mjög ósanngjarnt að hækka það upp í 5 krónur.