01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

5. mál, vegalög

Einar Árnason:

Jeg hefi ekki lagt steina í götu þessa frv. fram að þessu, en jeg vil þó láta þá skoðun mína í ljós áður en frv. er afgreitt frá þinginu, að jeg er mjög óánægður með það. Jeg ljet í ljós við fyrri umr. frv. í þessari hv. deild, að það væri ekki öllum hjeruðum sýnd full sanngirni með þessu frv., og jeg gerði þá tilraun til að færa það í það horf, sem ætlast var til á þinginu í fyrra. Með frv. þessu er hlaðið undir sumar sýslur, en aðrar látnar sitja á hakanum, en það sjá allir, að í slíku er engin sanngirni.

Jeg tók það fram áður, að á þinginu í fyrra hefði verið ætlast til, að viðhald allra flutningabrauta yrði lagt á ríkissjóðinn, en nú eru 2 skildar eftir. Það hefir verið reynt í báðum deildum að laga þetta misrjetti með brtt., en það hefir engin leiðrjetting á því fengist. Jeg mundi því horfa á það með mestu rósemi, þó að einhverjum af þeim brautum, sem með frv. eru færðar yfir á ríkissjóðinn, yrði slept úr því. Þar til skal jeg nefna Skagafjarðarbraut, Hvammstangabraut, Keflavíkurbraut, Eyrarbakkabraut og Biskupstungnabraut. Engin þessara brauta á meiri rjett á sjer en Eyjafjarðarbrautin. Jeg skal líka geta þess, að úr því að hv. deild vildi ekki sinna kröfu minni um að taka Eyjafjarðarbrautina með, þá harma jeg það alls ekki neitt, þó að frv. verði tekið af dagskrá og komi aldrei fram aftur.