06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

74. mál, slysatryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg er sammála hv. flm. (JBald), að þetta er ekki smámál. Hann nefndi það nauðsynjamál. Svo má vera, en þau eru fleiri, og með mínum fyrri orðum átti jeg við það eitt, að jeg hjeldi, að hv. flm. (JBald) kynni að líta svo á, að þetta mál væri meira nauðsynjamál en nokkurt annað, sem lægi fyrir háttv. allshn. Jeg er nefnilega ekki fullviss um, að svo sje. Jeg held líka, að hv. flm. kunni að hafa notað aðstöðu sína til að flýta fyrir þessu máli. Við það er ekkert að athuga í sjálfu sjer, ef hann bara gætir þess, að öðrum málum sjeu gerð sömu skil, þótt hann kunni að líta á þau öðrum augum. Hann verður að játa, að rjettmætt er, að önnur mál komi á undan þessu til umræðu, ef þeim var vísað til nefndarinnar á undan þessu máli, þótt hann kunni að vera þeim andvígur, alveg eins og jeg ljet þetta frv. þegar ganga til hv. allshn., af því jeg vissi, að hv. flm. (JBald) átti sæti í henni, án þess að jeg hefði tekið fasta afstöðu til þess.