18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

74. mál, slysatryggingar

Pjetur Ottesen:

Jeg vildi gera dálitla fyrirspurn til hv. frsm. (JBald) út af 2. lið í 1. gr. frv. Eftir bókstaf þessa frv. skilst mjer, að allir menn, sem eitthvað fást við fermingu og affermingu skipa og báta, sjeu í öllum kringumstæðum tryggingarskyldir, og hið sama virtist mjer koma fram í ræðu hv. framsögumanns. Um þennan og fleiri stafliði í 2. lið vil jeg taka fram, að menn verða að taka tillit til þess, þegar slík lög eru samin, hvernig þetta verður í framkvæmdinni. Mjer skilst, að það hljóti að verða ákaflega mikil skriffinska og vinna við að koma þessu fyrir, þar sem svo stendur á, að margir menn vinna að slíkri vinnu og mjög stutt í einu, 1–2 klst. og þar um bil. Nú verður í hvert skifti að semja skrá yfir þá, sem vinna lengur eða skemur, og senda áleiðis til lögreglustjóra eins og frv. mælir fyrir. Getur það orðið, að mjer skilst, óskaplegt verk.

Svo er ekkert talað um í sambandi við 2. lið, til hve langs tíma eigi að tryggja. Um fyrri liðinn, viðvíkjandi sjómönnum, er það til tekið, að þeir, sem stunda fiskiveiðar minna en einn mánuð, sjeu ekki tryggingarskyldir, en hafi heimild til að komast undir ákvæði laganna. Þetta er að mestu leyti eins og ákveðið er í lögum um slysatryggingu sjómanna, aðeins bundið við einn mánuð hjer, en ekki vertíðina, og verður það að teljast rjettara, þar sem vertíðir eru misjafnlega langar á ýmsum stöðum.

Jeg vildi þá fá að sjá skýrari línur um það, hvort tryggingarskyldan eigi að ná til allra, sem snerta á fermingu og affermingu skipa, og í öllum tilfellum, eða til þeirra einungis, sem að staðaldri fást við það starf.

Í b-lið er m. a. talað um þá, sem vinna við fiskverkun. Eins og kunnugt er, kemur þar til greina vinna mjög margra manna. Við fiskbreiðslu t. d. er komið að svo mörgum mönnum sem mögulegt er og orðið geta að liði, jafnvel börnum og gamalmennum, — einn er í dag og annar á morgun, fáar klukkustundir í senn. Ef nú alt þetta fólk á að, vera tryggingarskylt fyrir örfárra klukkustunda vinnu, þá er það ærið verk að skrásetja alt á hverjum tíma. Því það kemur vitanlega ekki til mála að ákveða vissan tíma, t. d. vorið og part af sumrinu, og gera alla tryggingarskylda, sem væri hugsanlegt að myndu stunda vinnuna einungis örlítinn tíma á þessu tímabili.

Þá er minst á húsagerð í sveitum, ekki einungis smíði nýrra húsa, en einnig endurbætur. Eftir þessu er hver maður tryggingarskyldur, sem leggur hönd að þó ekki sje meira en að dytta að torfhúskofa.

Þá er nefnd brúargerð, hafnargerð, vitabyggingar, símalagningar, símaviðgerðir o. s. frv. Við brúargerðir munu þessi lög máske vera framkvæmanleg, því þar vinna menn yfir ákveðinn tíma. Um vegavinnu er öðru máli að gegna. Í sveitum eru menn skyldaðir til að leggja eitt dagsverk í vegagerð árlega, þótt ekki sje meira unnið að því verki. Eftir frv. eiga þeir að vera tryggingarskyldir fyrir sitt eina dagsverk. Ef taka á þessi atriði bókstaflega eins og stendur í frv., finst mjer, að það muni verða mjög svo erfitt að framkvæma þau. Þó það geti vitanlega viljað til að slys beri að höndum, þótt ekki sje unnið nema stuttan tíma, þá verður dálítið að líta á það, hvað er í rauninni framkvæmanlegt í þessu efni. Ákvæði frumvarpsins virðast frekar vera miðuð við það, þegar um er að ræða fasta vinnu um lengri tíma, en hlaupavinnu.

Jeg skal ekki fara út í þetta frv. að öðru leyti. Slysatryggingar eru yfirleitt mjög mikils verðar; og sá vísir, sem þegar er orðinn hjer í landi til þeirra, hefir sýnt fullkomlega, að þeirra er ekki síður þörf hjer en annarsstaðar, þar sem skipulag þeirra er komið lengra áleiðis. En þar sem hjer á landi er að ræða um töluvert aðra staðhætti og vinnubrögð, þá er ekki hægt að byggja á erlendri fyrirmynd eingöngu, heldur verðum við að byggja á okkar eigin grundvelli og prófa okkur áfram.

Hjer er gert ráð fyrir að leggja til grundvallar slysatryggingarsjóð sjómanna. Fyrir mitt leyti tel jeg æskilegra að láta hann vera eins og nú er, en byggja þetta fyrirkomulag á nýjum og alveg sjálfstæðum grundvelli. Auðvitað er slysatryggingarsjóður sjómanna orðinn nokkuð stór, um 200 þús. kr., er þessi stjett út af fyrir sig hefir bygt upp þennan sjóð af sínu eigin fje, með einhverjum lágum styrk úr ríkissjóði. Þótt sjóðunum yrði haldið aðgreindum, gætu þeir engu að síður verið undir einni og sömu stjórn. Þetta er vitanlega atriði, sem þarf að athuga sjerstaklega.

Þá er breyting gerð á 6. gr. frá því, sem nú er, hvernig iðgjöldin skuli greidd. Nú skiftast þau milli útgerðarmanna og skipverja. Og sje jeg ekki annað en að það sje mjög rjettlátt og eðlilegt, að sá maður, sem trygður er fyrir slysum og meiðslum, hann borgi dálítinn hluta af þeim iðgjöldum, sem slík trygging fyrir hann útheimtir. Útgerðarmenn myndu auðvitað reyna að ná þessu á einhvern hátt, þó þeir megi ekki beinlínis taka gjaldið af hásetum. Skilst mjer þá, að þetta myndi frekar geta orðið deilumál milli útgerðarmanna og skipverja heldur en ef ákveðið er, hvað hver legði fram.

Það var aðallega viðvíkjandi þessum 2. lið í 1. gr., sem mig langar til að vita hjá hv. frsm., hvernig framkvæma eigi, ef fara skal eftir bókstaf frv. Vitanlega er ferming og afferming skipa út af fyrir sig ekki bein atvinnugrein, en hluti úr starfsemi, sem einstakir menn reka, og ekki nema örfáir menn úr fjöldanum stunda hana alt árið.

Að svo mæltu skal jeg ekki fjölyrða frekar um þetta. Jeg er máli þessu að sjálfsögðu fylgjandi í meginatriðum, en hinsvegar er um þetta mál sem öll önnur mál, að það er nauðsynlegt að hugsa það vel og undirbúa, svo ekki þurfi strax að fara að grauta í lögunum aftur. Vitaskuld er hjer talað um að gefa út reglugerð. En mjer finst það ætti að koma í frv. nákvæmari ákvæði um 2. lið 1. gr., eins skýr og um fyrri liðinn.

Jeg geri ráð fyrir að koma með brtt. um, hvernig iðgjöldum skuli jafnað niður, og ef til vill fleira, og þá er nægur tími til að gera þessa breytingu við 3. umr. þessa máls.