18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

74. mál, slysatryggingar

Pjetur Þórðarson:

Jeg á hjer litla brtt. á þskj. 161 og tel mjer skylt að gera grein fyrir henni. Þessi till. styðst við raunverulegt dæmi fyrir því, að það er ekki með öllu sanngjarnt, að dánarbætur falli að jöfnu til foreldranna. Dæmið er þannig, að hinn látni var elsta barn foreldra sinna. Móðirin varð að hafa yngri börnin á sínu framfæri, og víst er um það, að faðirinn hafði aldrei lagt neitt af mörkum til hins látna eða yngri systkina hans, af þeirri einföldu ástæðu, að hann var óreglumaður og sýndi heldur engan vilja á að sjá fyrir sínum. Slík dæmi geta komið fyrir oftar, og fyrir því álít jeg þess vert að koma með brtt. í þá átt, sem jeg hefi gert. Nefndin, sem málið hafði til meðferðar, hefir fundið rjettmæti í till., þótt ekki hafi hún viljað fallast á hana; en það er aðeins niðurlag þeirra orða, sem jeg hefi ætlast til að væri bætt inn í frv., sem hún finnur henni til foráttu. Þessu mætti breyta þannig, að í staðinn fyrir „enda sje hitt foreldrið ekki styrks þurfi sjer til framfæris“, kæmi: „enda hefir hinn látni ekki verið hinu foreldrinu til fjárhagslegs stuðnings“. Er það til þess að fyrirhyggja það, að því verði órjettur ger, ef hinn látni hefir veitt því einhvern fjárhagslegan stuðning. Þarf jeg ekki að fjölyrða um þetta. En jeg vildi mælast til þess, að till. kæmi ekki til atkv. fyr en við 3. umr., svo mjer gefist kostur á að laga hana eftir því, sem jeg nú hefi gert grein fyrir.

Jeg hefi ekki ætlað mjer að fara út í það að gera grein fyrir einstökum atriðum, sem mjer þætti hlýða, að athuguð væru umfram það, sem nefndin hefir gert. Því það litla, sem jeg kynni að athuga í þá átt, er í fullu samræmi við það, sem hæstv. atvrh. (MG) hefir sagt. Aðeins skal jeg geta þess, að meðal slíkra atriða er það, hvort það væri rjett eða sanngjarnt, að full iðgjöld væru greidd fyrir hvern sjómann, sem aðeins örstuttan tíma væri á skipi. Hvort ekki mætti koma því svo fyrir, að útgerðarmaðurinn, sem greiða ætti iðgjöldin, fengi að greiða þau fyrir ákveðna tölu manna, þótt skift sje um menn. Get jeg þessa í sambandi við það, sem hæstv. atvrh. sagði um slík atvik, og hv. þm. Borgf. (PO).