18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

74. mál, slysatryggingar

Ágúst Flygenring:

Jeg vil aðeins taka það fram, að jeg tel frv. þetta ekki eiga við hjer á landi, finst það of mjög sniðið eftir útlendum fyrirmyndum. Jeg lít nefnilega svo á, að annaðhvort hefði það átt aðeins að ná til örfárra atvinnugreina, eða þá til allra slysa.

Eins og bent hefir verið á, myndi frv. þetta, yrði það að lögum eins og það er nú, auka mjög vafstur og skriffinsku. Auk þess stefnir það nær eingöngu í þá átt að tryggja þá, sem vinna hjá öðrum, en ekki þá, sem vinna hjá sjálfum sjer. Við þetta felli jeg mig mjög illa. Er t. d. hættan ekki jafnnærri, hvort sem báturinn er eign þess, sem rær honum, eða annars ?

Og úr því tryggingin nær til fólks, sem vinnur að fiskverkun í sólskini, hví má hún þá ekki ná sömuleiðis til fólks, sem vinnur að heyvinnu? Máske það sje fyrir þá sök, að það fólk vinnur flest hjá sjálfu sjer? Þessu og fleiru þarf að breyta, ef frv. á að komast í gegn, en helst þyrfti slysatryggingin að verða alveg almenn og ná til allra manna.