18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

74. mál, slysatryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer finst það glögt hafa komið í ljós við umræðurnar, að frv. þetta sje frekar sniðið eftir þörf sjávarútvegsins en eftir þörf sveitanna. Jeg vil nú spyrja háttv. nefnd, án þess þó, að jeg ætlist til, að hún svari því nú þegar, hver takmörk hún ætlast til, að sett sjeu í reglugerð um tryggingarskyldu manna, er vinna í sveitum. Því að mjer finst, að ekki svari kostnaði að fara að halda vinnuskrá, þó t. d. maður í sveit byggi fjárhús, sem hann vinnur ef til vill 2–3 stundir að fyrsta daginn, ekkert annan daginn, og svo stund og stund úr dögum, án þess að vinna samfelt að byggingunni.

Eigi nú að taka slík sveitastörf með sem þessi, sje jeg ekki annað en sjálfsagt sje að taka sláttinn með líka, því að jeg finn engan mun á áhættunni við þau störf. Út af þessu vildi jeg því spyrja háttv. nefnd ennfremur, hvort hún sæi sjer ekki fært að koma með brtt. til 3. umr, sem takmörkuðu þetta, eða þá að öðrum kosti að gefa stjórninni heimild til þess að setja í reglugerð þær takmarkanir, sem nauðsynlegar væru til þess að koma í veg fyrir, að of mikil skriffinska eða fyrirhöfn blytist af þessu. Að ákvæða sem þessara sje sjerstaklega vant í frv. er ekki nema eðlilegt, þegar þess er gætt, að enginn höfundanna er kunnugur í sveit, og því halda þeir að vinnubrögðum sje hagað þar öðruvísi en er.

Jeg hjó eftir því hjá háttv. þm. Mýra. (PÞ), að hann taldi ekki rjett, að foreldrar fengju altaf jafnar bætur fyrir börn sín. Þarna er jeg hv. þm. alveg samdóma, því að jeg þekki dæmi þess, að það hefir komið mjög ranglátlega niður, þannig, að faðir fjekk bætur fyrir son, sem hann hafði aldrei skift sjer neitt af. Er því rjett að setja ákvæði inn í frv. um, að frá þessari reglu megi víkja, þegar sjerstaklega stendur á, eins og t. d. þegar uppkominn sonur druknar, sem móðirin hefir altaf orðið að ala önn fyrir ein síns liðs, eins og mörg dæmi eru til, En eftir frumvarpinu fær faðirinn helming tryggingarfjárins, þó að hann hafi aldrei neitt fyrir honum haft. Í svona tilfellum þarf því stjórnin að hafa heimild til þess að veita undanþágu. Aðaltilgangur slíkrar löggjafar sem þessarar verður að vera sá, að sjá um, að tryggingin komi sem sanngjarnast niður.