18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

74. mál, slysatryggingar

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð að gera grein fyrir atkvæði mínu, af því að jeg mun fylgja frv. þessu til 3. umr., en óvíst að jeg geti fylgt því lengra. Jeg er samþykkur stefnu frv. að því leyti, að jeg tel, að tryggja beri þá menn, sem áhættusöm störf stunda, einkum fyrir hið opinbera, en form þess fellur mjer ekki. En þar sem frv. þetta miðast ekki við það, og leggur tryggingarskylduna á af handahófi, þá get jeg ekki fylgt því lengra en til 3. umr., nema því aðeins, að sundurliðun þess verði breytt í þá átt milli umræðnanna, að framkvæmdin verði óbrotnari.

Jeg get vel tekið undir það með háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) og hæstv. atvrh. (MG), að tryggingar þessar, eins og þær liggja fyrir í frv., yrðu bæði flóknar og fyrirhafnarsamar í framkvæmdinni. Á jeg þar við það, að tryggingin nær til ýmsra flokka manna, sem jeg tel nær ógerning að draga inn undir skyldutryggingu, svo sem menn, er stunda margbreytileg störf, jafnvel á hverjum degi, eða þá, sem stunda jafnáhættulítil og hverful störf eins og fiskverkun; sömuleiðis menn, sem vinna að því að lagfæra hús í sveit, eða menn, sem ganga með símalínu til þess að líta eftir, hvort þræðir hafa slegist saman o. s. frv. Yfir höfuð er fjöldi af slíkum verkum, sem komast inn undir tryggingarskylduna, ef frv. verður ekki breytt, og ógerningur er að hafa eftirlit með. Hinsvegar er slept fólki, sem verður að teljast vinna miklu áhættumeiri störf. Má þar til nefna fjallferðamenn og jafnvel eldabuskurnar. Störf þeirra eru miklu áhættumeiri en t. d. fiskþurkun. Jeg þekki að minsta kosti þrjú tilfelli, sem sýna það ljóslega, að hættan af íkveikju við eldamensku er meiri en af slysum við fiskvinnu. Af tveimur tilfellunum hlaust líftjón, en einu örkuml.

Ennfremur er hjer slept gæslu beitarhúsa í sveit, sem er stórum áhættumeira starf en mörg þau, sem talin eru. Enda hefir margur beitarhúsasmalinn úti orðið, en aðrir beðið limatjón af kali. Þannig mætti lengi telja, og er öll greining frv. í áhættuflokka tómt handahóf.

Jeg hygg því, að það sje rjett hjá hv. 1. þm. G.K., að trygginguna verði að miða við miklu færri flokka og sneiða hjá þeim mönnum, sem hlaupa úr einu í annað af hinum áhættuminni störfum.

Þetta vildi jeg sagt hafa nefndinni til athugunar, því ef frv. kemur til 3. umr. óbreytt, mun jeg ekki geta fylgt því lengra.