25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

74. mál, slysatryggingar

Magnús Torfason:

Við 2. umr. þessa máls hreyfðu ýmsir hv. þm. talsverðum aths. og aðfinslum við frv., og eins og sjálfsagt var hefir allshn. tekið þær til yfirvegunar síðan og að miklu leyti tekið þær óskir til greina, sem þá komu fram.

Jeg skal fúslega játa, að það er engin furða, þó menn geti greint á um þessi efni. Tryggingar eru alveg í bernsku hjer á landi og löggjöfin um þær litlu slysatryggingar, sem enn eru þektar hjer, slysatryggingar sjómanna, hefir reynst það vandaverk, að nú er verið að semja þau lög um í 4. skifti á 16 árum.

Í þessu frv. eru tryggingarnar færðar út að stórum mun, og því vandara um að fást. Er því engin furða, þó að missmíði kunni að verða á lögum þessum í fyrstu. Jeg er í engum vafa um það, að hvernig sem frá þessu frv. verður gengið í þetta sinn, þá líður ekki á löngu, áður en lögunum verður breytt aftur. Það er á einskis manns færi að semja nú þegar fullkomið frv. um slysatryggingar hjer á landi. Til þess vantar okkur reynslu í þessum efnum, vantar alla útreikninga, slíka, sem aðrar þjóðir fara eftir hjá sjer, en sem eru mismunandi í hverju landi, eins og eðlilegt er, þar sem allir staðhættir eru ólíkir.

Ein aðalbreytingin, sem farið er fram á í þessu frv., er sú, að verkþegar greiði slysatryggingariðgjöldin. Í þessu efni er frv. sniðið eftir því, sem alsiða er í öllum nálægum löndum, þar sem tryggingar eru lengst á veg komnar. Jeg lít svo á, að þetta ákvæði sje mjög sanngjarnt og eðlilegt. Því er nú svo varið, að tryggingariðgjaldið hlýtur að koma fram í auknu verðmæti þess, sem unnið er að. Verkþegar kunna líka oftast einhver ráð til að ná aftur inn útgjöldum þeim, sem þeir verða að inna af hendi. Þetta liggur yfirleitt í samkepnislögmálinu.

Þó er ein atvinnugrein, sem í þessu efni stendur ver að vígi, en það er framleiðslan. Þessi iðgjöld geta í fyrstu orðið framleiðslunni til byrðarauka, en það lagast er til lengdar lætur, því allur framleiðslukostnaður hlýtur að hækka verð vörunnar, sem framleidd er, svo með tímanum kemur þetta í sama stað niður. Að mínu viti er því engin sjerstök principástæða til þess að vera á móti því að flytja greiðslu iðgjaldanna yfir á verkþega.

Þá hefir verið um það deilt, hversu slysatryggingar þessar eigi að vera víðtækar til að byrja með. Jeg lít svo á, að þær eigi að ná eins langt og mögulegt er, þó þannig, að þær sjeu jafnframt framkvæmanlegar eins og nú hagar til hjer á landi. En að því er þetta atriði snertir, að slysatryggingar samkv. þessu frv. verði framkvæmanlegar, þá hefir nefndin borið fram brtt. við 21. gr. frv., sem hún ætlar að sje nægileg til þess að koma í veg fyrir, að framkvæmd laganna verði ósanngjörn eða of fyrirferðarmikil.

Að því er snertir einstök ákvæði frv., leggur nefndin yfirleitt ekki afarmikla áherslu á þau, hvert um sig, einkum ef brtt. hennar við 21. gr. nær fram að ganga, sem á að gera það að verkum, að ráðuneytinu verði heimilt að bæta við nýjum tryggingarskyldum atvinnuflokkum, en undanþiggja aðra, ef allar ástæður mæla með því. Á þennan hátt fæst meira jafnvægi í framkvæmd laganna, ef ráðuneytið og sjóðstjórnin beita þessari heimild skynsamlega, sem maður verður að vona og treysta.

Jeg skal þó þegar taka það fram, að það er sjerstaklega einn flokkur verkafólks, sem um hefir verið deilt, en sem jeg tel ekki rjett að undanskilja slysatryggingum. Það er fólk, sem vinnur að fiskverkun. Það er öllum vitanlegt, að slys við fiskverkun og fiskþurkun eru mjög tíð. Vitaskuld koma sjaldan fyrir slys í þessari atvinnugrein, sem valda örorku eða líftjóni, en engu að síður vilja þó næstum daglega til slys við slíka vinnu og oft ærið mikil. Meðan jeg var á Ísafirði, man jeg eftir því, að fiskverkunarfólk gekk oft vikum saman iðjulaust, vegna smáslysa og meiðsla. Eins og kunnugt er, fer fiskverkun illa með hendurnar, sjerstaklega um ormatímann á vorin. Þar vestra var altítt, að menn gengu með langvarandi fingurmein af þessum sökum, og var oft skotið saman fje handa þessu fólki, sökum þess, að það misti atvinnu sína um hásumarið. Við fiskverkun vinnur oftast afarmargt kvenfólk, og vænti jeg þess, að hv. þdm. sjeu svo riddaralega vaxnir, að þeir striki þennan flokk verkafólks ekki út þess vegna. Annars er þessi flokkur svo stór, að ef hann verður feldur úr frv., þá er þar með höggið afarstórt skarð í þessar atvinnuslysatryggingar.

Jeg skal ekki fara fleiri orðum um einstaka liði frv., enda trúi jeg háttv. frsm. fullkomlega til að reifa það mál. En eitt vil jeg benda á í þessu sambandi. Tryggingarmálin eru eitthvert hið stærsta framtíðarmál, sem þingið hefir nú með höndum. Jeg efast um, að þau sjeu fleiri en eitt eða tvö málin, sem hafa aðra eins þýðingu. Ef tryggingarmál þjóðarinnar komast í gott horf, þá verða þau með tíð og tíma lyftistöng vors fátæka lands. Þessi lög eru örlítið spor í áttina. En við eigum þó að taka skrefið eins stórt og hægt er. Það, sem einkum þarf að gera, er að vekja þjóðina til umhugsunar um tryggingar og venja hana við þær smám saman. Jeg veit af eigin reynslu, að þetta er erfitt. Fyrstu árin, sem lögin um sjóslysatryggingu vora í gildi, þurfti jeg oft að innheimta styrkinn með lögtaki, og sumir skutu jafnvel lögtaksúrskurðinum til landsyfirdómsins. Menn geta verið þess vissir, að verulegt skrið kemst ekki á þessi mál, fyr en fólkið fer að sjá fyrir alvöru þá blessun, sem tryggingarnar veita þjóðinni.

Takmarkið hlýtur að vera að koma á almennum innlendum tryggingum á sem flestum sviðum. En það mun seint sækjast, vegna fátæktar landsmanna, nema allir leggist á eitt að greiða fyrir þessum málum.

Í allshn. varð jeg var við sjerstaklega hlýjan hug til þessa máls. Jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg fjekst aldrei svo við málið, að mjer rynni ekki í hug slysin miklu, sem hjer hafa orðið í vetur. Við vitum allir, að þar brugðust útgerðarmenn drengilega við til hjálpar, langt fram yfir það, sem þeim bar skylda til. Við vitum einnig, að skrifstofustjóri Fjelags ísl. botnvörpuskipaeigenda var í nefndinni, sem samdi þetta frv. upphaflega, og vann hann þar í fullu samræmi og samvinnu við útgerðarmenn. Þegar nú þessir menn, sem mest eiga að greiða af mörkum samkv. frv., hafa tekið svo í málið, þá finst mjer við eigum ekki að verða eftirbátar þeirra.

Jeg fæ ekki sjeð, hvernig hv. þm. geta betur sýnt samhug sinn með tryggingarmálum þjóðarinnar en einmitt með því að greiða sem best fyrir þessu frv. Og það verð jeg að segja, að ef frv. nær ekki fram að ganga, þá er það leitt vegna orðstírs þessa þings.

Að því er snertir verkþega, sem greiða eiga iðgjöldin, sjerstaklega, þá verðum við að muna eftir því, að það eru sjaldnast ekkjur þeirra nje foreldrar og börn, sem gráta þá, er fyrir slysunum verða. Jeg vona, að menn vilji einnig athuga málið í þessu ljósi og hengi sig ekki of mikið við smámuni í svo þýðingarmiklu máli.