25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2563 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

74. mál, slysatryggingar

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Hv. fyrri þm. S.-M. (SvÓ) hefir misskilið mig, er hann álítur, að jeg leggi áherslu á, að ekki sje feldur niður a.-liður 2. töluliðs 1. gr. vegna gjaldanna, sem sjóðurinn megi ekki við að missa. Jeg drap aðeins á þetta sem aukaatriði, en tók það sjerstaklega fram, að ferming og afferming skipa, bæði í Reykjavík og úti um land, væri hættulegt starf, sem ýmsum slysum gæti valdið, og þess vegna sjálfsagt að láta þá vinnu falla undir tryggingarskylduna. Jeg benti líka á, að uppskipun væri ekki eins hættuleg vinna nú orðið hjer í Reykjavík, síðan höfnin kom, eins og víða úti um land. Þar yrðu oft slys, enda skýrði hv. þm. V.-Sk. (JK) frá einu slíku, er hann var sjónarvottur að austur í Vík, þar sem sumir mennirnir fórust og aðrir meiddust, þó þeir annars björguðust, en allir voru vitanlega ótrygðir. Jeg tók það líka fram, að það væri ávalt lagt á ofurlítið meira gjald fram yfir það, sem borga ætti út, til þess að safna fje í sjóðinn, enda þótt hver áhættuflokkur haldist út af fyrir sig.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) dró það mjög í efa, að utan af landi bærust óskir um almennar slysatryggingar. Jeg er nú þessu líklega engu síður kunnugur en hann, og get líka fullvissað hann um, að þessar óskir eru mjög almennar, eins og jeg skal víkja að í öðru sambandi. Hann mintist á ísvinnuna, og af því að jeg hafði ekki minst á hana sjerstaklega nú, þá dró hann þá ályktun, að jeg væri því samþykkur að fella hana undan. En svo er alls ekki, og jeg get bent honum a, að það er fleira ísvinna en að höggva ís af vatni og flytja í hús. Það þarf t. d. að flytja ís í togarana, og það er alls ekki hættulaust, fremur en annað, sem unnið er við skip. Mjer finst ástæðulaust að fella þennan flokk undan, enda vilji flestra þeirra manna, sem um mál þessi hugsa, að tryggingarnar geti orðið sem almennastar og víðtækastar þegar í byrjun.

Þá kom mjer það undarlega fyrir, að hann vildi undanþiggja tollverði og lögregluþjóna því að vera trygðir, og tók það t. d. fram, að lögregluþjónum væri engin hætta búin vegna stöðu sinnar. Jeg vil þó benda honum á það, að jeg hefi verið úti á landi, t. d. í Vestmannaeyjum og sjeð lögregluþjón fara út í skip, og það í vondum sjó, einmitt vegna embættisskyldu sinnar. Og hjer verða þeir oft að fara út í skip, og það út á ytri höfn, og sjaldnast spurt um, hvernig veðrið sje, enda verða þeir oft bæði fyrir meiðingum og margskonar hrakningum stöðu sinnar vegna. (PO: Þetta hefir fallið niður óviljandi og verður leiðrjett). Mjer skildist þó á orðum háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að það hefði ekki fallið niður í ógáti, en þar sem hv. þm. Borgf. (PO) segir það, tek jeg orð hans trúanleg, og læt því útrætt inn þetta atriði.

Þá varð hv. 1. þm. S.-M. skrafdrjúgt um það, að við vildum draga valdið frá Alþingi, en fá það stjórninni, sem skipað gæti svo málum þessum með reglugerð. Um þetta hefir mikið verið rætt, og sje jeg ekki, hver hættan er í þessu efni. Við höfum lýst því yfir, að við treystumst ekki til, að svo stöddu, að gera lögin svo úr garði, að einungis dugi, og alt tekið með, sem vera á í þeim. En þegar þingið hefir markað línurnar, virðist ekki óforsvaranlegt að fela stjórninni að fara með málið og setja nákvæmari reglur um tryggingarnar. Að minsta kosti skil jeg ekki, hvað það getur komið við trausti eða vantrausti manna á stjórninni, og heldur ekki get jeg skilið, að reglugerðarfyrirkomulagið rýri á neinn hátt vald Alþingis.

Þá hverf jeg aftur að þessum óskum manna um almennar tryggingar. — Jeg held ekki, að jeg hafi heyrt meira talað um nokkurt mál, síðan hljóðbært varð, að frv. þetta mundi verða lagt fyrir þingið, nema efa vera skyldi þá um ríkislögregluna, en talsvert er það á annan veg, sem um hana er talað.

Jeg er spurður um þetta mál — slysatryggingarnar — af fjölda manna á hverjum degi. Og jeg er hringdur upp daglega af mönnum víðsvegar úti um land, sem fylgja með miklum áhuga öllu því, sem gerist í málinu. Öll verkalýðsfjelög — og þau eru mörg orðin um land alt — hafa þráfaldlega látið þá ósk í ljós, að sem flestir í flokki þeirra yrðu trygðir fyrir slysahættum og almennum slysatryggingum komið á. Og jeg er viss um að ef hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vildi spyrjast fyrir um þetta, t. d. í þorpunum í Suður-Múlasýslu, þá mundi hann komast að sömu niðurstöðu, og það er grunur minn, að ekki allfáir af hans eigin kjósendum sjeu þessarar skoðunar.

Og margir þeir atvinnurekendur, sem hafa menn í þjónustu sinni, eru áhugasamir um þetta mál og óska, að almennar slysatryggingar komist sem fyrst á. Góðir atvinnurekendur hafa líka alloft bætt þeim mönnum að nokkru, sem fyrir slysum hafa orðið í þjónustu þeirra; en þegar almennar slysatryggingar eru komnar á, sleppa þeir við það, því þá greiðir tryggingarsjóðurinn bæturnar. Frv. þetta er borið fram í fullri þágu beggja aðilja: atvinnurekenda og verkamanna. Og til þess hefir verið vandað eins og föng eru á, eins og jeg hefi líka margtekið fram, og er því ástæðulaust að sýna því slíka andúð, sem raun hefir orðið á.

En hitt vil jeg segja að lokum, að nái brtt. á þskj. 220 fram að ganga, þá tel jeg rjettara, að frv. verði felt að þessu sinni heldur en að láta það verða að lögum með þeim breytingum.

Fundartíminn er nú liðinn, og skal jeg því láta máli mínu lokið að þessu sinni.