03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

74. mál, slysatryggingar

Pjetur Ottesen:

Mjer líst þannig á, að ekki muni verða samkomulag um það að ganga þegar til atkvæða um frv. þetta.

Jeg á brtt. á þskj. 237, en um hana þarf jeg ekki margt að segja. Þeir menn, sem þar um ræðir, fjellu niður af vangá er brtt. við frv. voru samdar. Um þetta vil jeg aðeins segja það, að það veldur engum örðugleikum í framkvæmdinni, þó að þessir menn sjeu trygðir, því að þeir hafa fastar stöður.

Annars þarf jeg lítið að minnast á brtt. á þskj. 226, sem við 7 þdm. erum flm. að, því að aðalflm. þeirra, háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), hefir gert grein fyrir þeim og svarað þeim andmælum, sem fram hafa komið gegn þeim. Þær ganga í aðalatriðunum út á það að gera frv. svo úr garði, að slysatryggingarnar verði framkvæmanlegar, að ekki sje vitandi vits svo frá þessu máli gengið, að það sje alveg fyrirsjáanlegt, að það drukni í skriffinsku og lítið verði úr framkvæmdum, og lögin þar af leiðandi að miklu leyti ekki nema pappírslög. Fyrir þessu hefir hv. 1. þm. S.-M. gert góða grein. Og það er mikilsvert atriði við hver lög, sem sett eru, að gera sjer grein fyrir því, hvernig þau muni reynast í framkvæmdinni.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) talaði um. að mestu annmarkarnir væru sniðnir af frv. með brtt. á þskj. 214. En eins og hv. 1. þm. S.-M. benti á, ganga þær till. skamt. og skemur en jeg álít frambærilegt, að minsta kosti að því leyti, sem þær snerta sveitirnar. Hjer er gengið langt út fyrir þá braut, sem venjuleg er í löggjöf þannig, að með reglugerðarákvæði megi bæta við nýjum tryggingarskyldum flokkum, þannig, að hægt sje á þann hátt að gera þessa slysatryggingu almenna. Við það er að vísu ekki svo mikið að athuga í sjálfu sjer, en með þessu er gengið framar í því en til þessa hefir viðgengist að ákveða, að með reglugerð megi gera svo víðtæka lagabreytingu, og tel jeg það mjög varhugavert. En með þessum brtt. hefir nefndin gefið viðurkenningu um það, að frv. sje varhugavert, en það er og viðurkenningarvert. að hv. allshn. skuli fallast á skoðun okkar um það, að breyta þurfi frv.

Háttv. 1. þm. Árn. sagði, að það væri ljóst, að bráðlega þyrfti að breyta lögunum, enda þótt brtt. næði fram að ganga og sagði, að þetta væri siður á þingi, og mintist í því sambandi á slysatryggingu sjómanna. En þar vil jeg benda honum á, að þær einar breytingar hafa verið gerðar á þeim lögum, að hækka dánarbæturnar og sömuleiðis iðgjöldin nokkuð, eftir því sem sjóðnum óx fiskur um hrygg. Til þess máls var þannig stofnað í byrjun, að ekki þurfti að breyta neinu um framkvæmdaratriði í því, og það er sá stóri skilsmunur og á þessu máli eins og það er komið frá hv. allshn.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði í sambandi við viðauka við 21. gr., að skilningur hv. allshn. á því atriði væri rjettur og ekki þyrfti annað en að bera fram einfalda þál. til þess að fá breytingar á lögunum hvað þetta snerti. Þá vil jeg benda honum á, og árjetta þar með það, sem jeg sagði um þetta út af ummælum hv. 1. þm. Árn., að athugavert er að innleiða þá reglu að breyta lögum með þál. Þess vegna er og svo fyrir mælt, að hafa skuli 6 umr. um hvert lagafrumvarp í þinginu, og er það gert til þess að tryggja það, að frv. sjeu vel athuguð áður en þau eru gerð að lögum. En um þál. þarf í flestum tilfellum ekki nema eina umr. Hljóta allir að sjá, hver munur er á þessu.

Sami hv. þm. (JBald) sagði ennfremur, að með þeim undanfellingum er við flm.brtt. á þskj. 226 gerðum ráð fyrir, væri sjóðnum gert mjög örðugt fyrir, og þess vegna yrðu iðgjöldin að verða hærri en ella mundi. Mjer skilst, að ákvæðin í 6. gr. frv. sýni það, að þetta er á misskilningi bygt. Þar er gert ráð fyrir mismunandi iðgjöldum, miðað við slysahættu, og með leyfi hæstv. forseta vil jeg leyfa mjer að lesa upp kafla úr þeirri grein:

„Iðgjaldaupphæðina ber að miða við slysahættuna. Eftir slysahættunni skal skifta þeim atvinnufyrirtækjum, sem falla undir trygginguna, í flokka, og fyrir hvern flokk skal ákveðin sjerstök iðgjaldsupphæð fyrir hvern trygðan mann í þeim flokki .....“ o. s. frv.

Samkvæmt ákvæðum þessarar greinar gerir það — frá þessu sjónarmiði — hvorki til nje frá, hvort fleiri eða færri atvinnuflokkar falla undir trygginguna, sje tryggilega gengið frá ákvörðuninni um það, hvert iðgjaldið skuli vera.

Þá þótti háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) óákveðið hjá okkur orðalagið „meiriháttar brúargerð .... “ o. s. frv., og sagði hann, að það gæti valdið ágreiningi. En jeg segi fyrir mig, að jeg sje ekki mikinn mun á, að það sje óákveðnara en orðalag háttv. allshn., þar sem hún talar um „smáfelda starfsemi“. Hvorttveggja er að vísu óákveðið, en þar er enginn munur á.

Þá kem jeg að því atriði í brtt. á þskj. 226, sem er stefnuatriði. Það er um það, hverjir eigi að greiða iðgjöldin. Okkur flm. brtt. finst rjettast og eðlilegast, að fylgt sje þeirri reglu, sem komin er á um þetta, að iðgjöld skiftist milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda. Þannig er þetta í öllum tryggingum hjer á landi, og má þar benda á lífeyrissjóði, slysatryggingu sjómanna, ellistyrktarsjóð og fleira. Þetta er ósköp eðlilegt, enda vaxið upp úr þeim hugsunarhætti, sem hjer hefir verið ríkjandi og er ríkjandi, þar sem jeg þekki til, að menn vilja sjálfir sjá sjer farborða og standa á sínum eigin fótum. Jeg segi fyrir mig, að jeg þekki ekki þennan ölmusuhugsunarhátt, sem talað er um, nje að menn vilji smeygja sjer undan þeim gjöldum eða skyldum, sem þeim ber að inna af hendi, sjer og sínum til tryggingar og hagsbóta.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði í ræðulok, að margir verkamenn vildu heldur, að frv. strandaði heldur en ef þeir ættu að taka þátt í iðgjaldagreiðslu. Þetta kemur illa heim við þann mikla áhuga fyrir þessu máli, sem hv. þm. (JBald) hefir verið að tala um. Hjer hlýtur eitthvað að fara milli mála, og jeg hygg, að í þessum orð um háttv. þm. (JBald) komi ekki fram hugsunarháttur sjómanna og verkamanna yfirleitt, heldur aðeins skoðun hv. þm. (J Bald) sjálfs, og hún á ekkert skylt við hugsunarhátt alþýðu manna hjer í landi. Það er hugsunarháttur hv. þm. sjálfs, sem hann er sýnilega að reyna að rækta, og hefir kannske orðið eitthvað ágengt með. Annars gefa ummæli hans ástæðu til þess að draga í efa þann óskapaáhuga, er hv. þm. þykist hafa fyrir þessu máli, er hann talar svo fagurlega um. Fyrst og fremst andstaða hans gegn því að gera þetta frv. svo úr garði, að það sje framkvæmanlegt, en án þess nær það vitanlega ekki tilgangi sínum.

Í öðru lagi er framkoma hans í sambandi við frv. um sjúkratryggingar, er hv. allshn. hafði til meðferðar, en vísað var frá með rökstuddri dagskrá hjer á dögunum. Með því frv. var gert ráð fyrir almennri iðgjaldagreiðslu í sjúkratryggingarsjóðinn, en hinsvegar áttu þeir einir sem illa eru staddir fjárhagslega, að njóta styrks úr sjóðnum.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) var á móti þessu frv. og vildi vísa því frá, og ein ástæðan, sem hann færði fyrir því, var sú, að málið væri ekki nógu vel undirbúið og þyrfti að athugast betur.

En þegar litið er á undirbúning beggja þessara tryggingarfrv., munar miklu, hvað sjúkratryggingarnar eru betur úr garði gerðar en þetta frv., sem hjer liggur fyrir. Og ætli landsmönnum, sem kynnu að bera saman. Öll hans mörgu og fögru orð um áhuga hans á þessum tryggingarmálum, og svo framkomu hans í sjúkratryggingarmálinu, komi það ekki dálítið kynlega fyrir, að hann skyldi ekki geta tekið höndum saman við þá, sem bera vildu sjúkratryggingarfrv. fram til sigurs?

Það verður áreiðanlega heilladrýgst í þessu máli að fara heldur hægt af stað en smáauka við, eftir því sem reynslan sýnir, að heppilegt og hagkvæmt er. Á þann hátt verður best náð þeim góða tilgangi, sem liggur á bak við þetta mál.