03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

74. mál, slysatryggingar

Jón Auðunn Jónsson:

Það er satt, að á erlendum skipum er sú tilhögun, að atvinnurekendur borga nær öll iðgjöld til slysatrygginga. Það er einnig sjálfsagt hjer þar sem líkt stendur á. En hjer horfir öðruvísi við, þar sem um smábátaútgerð er að ræða. Þar eiga sjómennirnir hlut í afla og taka ágóða eftir því, hvernig gengur. Á smábátum er veltan lítil, og ef iðgjöld yrðu svipuð iðgjöldum til slysatryggingar sjómanna, þeim er nú gilda, þá munaði mjög mikið um þetta. Ef bátur stundaði róðra 36 vikur með 6 mönnum, eins og víða á sjer stað, þá yrðu þetta um 200 kr. á bát, og dálítið hærra á smávjelbátum. Jeg held. að þetta yrði talsvert þungur skattur á smáútgerðinni, margfalt hærri en þegar hásetar greiddu 1/5 útgerð 1/5, og ríkissjóður 3/5.

Jeg drap á það við 2. umr., að æskilegt væri að nefndin tæki til athugunar, hvort slysatrygging sjómanna ætti ekki að verða sjerstök deild í þessari stofnun. Jeg hefi ekkert heyrt frá nefndinni um það. Hefði þó verið full ástæða til þess. sjóðurinn er til og sjómenn hafa lagt drjúgan skerf til hans. En þegar nú allir eiga að vera iðgjaldsfríir, þá er sanngjarnt að sjómenn njóti þess, er þeir hafa áður lagt fram, og fái hærri skaðabætur.

Það hefir verið talað um, að fulltrúar verkamanna og atvinnurekenda hafi fjallað saman um þetta frv. Jeg held, að þeir hafi ekki í nefndarstörfunum skoðað sig sem fulltrúa vissra stjetta, heldur heildarinnar. og var það líka sjálfsagt. En jeg lít svo á, sem hv. nefnd hafi yfirsjest í því, því þótt sanngjarnt sje, að tryggingarskyldan hvíli á atvinnurekendum í stórfyrirtækjum, þá er það þveröfugt um smáútgerðina.