02.05.1925
Efri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

74. mál, slysatryggingar

Frsm. (Eggert Pálsson):

Það mun vera svo nú orðið, að slysatryggingar eru alment innleiddar eða ákveðnar í flestum menningarlöndum; en hinsvegar hefir þeirra lítið gætt hjá okkur enn sem komið er. Við höfum aðeins haft lítinn vísi af slíku, þar sem eru slysatryggingar sjómanna. En þar sem mál þetta er þannig komið á góðan veg hjá menningarþjóðunum, og vísir sá, sem við höfum haft, hefir gefist vel og ekki orðið ríkissjóði að óhappi, en þó til hagnaðar fyrir hlutaðeigendur, þá er ekki nema eðlilegt, að fram hafi komið kröfur um að láta trygginguna ná yfir meira eða til fleiri en hingað til hefir átt sjer stað. Af þessum ástæðum var það, að á síðasta þingi var borin fram till. til þál. um skipun nefndar til þess að athuga þessi tryggingarmál og semja frv. um almenna slysatryggingu. Varð stjórnin svo við þessum tilmælum og skipaði þriggja manna nefnd til þess að rannsaka þessi mál. Samdi svo sú nefnd frv. um almenna slysatryggingu og afhenti atvinnumálaráðherra. En af því að það kom nokkuð seint í hendur hans, fól hann allshn. neðri deildar að bera það fram, til þess að komast hjá símskeytakostnaði. Gekk frv. svo gegnum neðri deild, en á því voru gerðar þar nokkrar breytingar, sem flestar miðuðu frekar að því að þrengja svið trygginganna.

Þær breytingar, sem allshn. þessarar deildar hefir lagt til, að gerðar væru á frv., ganga því flestar í þá átt að koma því í hið upphaflega form, láta trygginguna ná meira út en nú er í frumvarpinu.

Brtt. nefndarinnar á þskj. 397 eru 7, en tvær þeirra skiftast þó í sundur í fleiri liði. Fyrsta tillagan er við 1. gr. 1. b. Má segja, að það sje orðabreyting. að á eftir orðunum .,1 mánuð“ komi: í senn. Tilætlunin mun ekki hafa verið sú, að undir þetta ákvæði fjellu fiskimenn á róðrarbátum, nema því aðeins, að þeir stunduðu veiðarnar mánuð í einu.

Önnur breytingin er við 1. gr. 2. a. og er fólgin í því að taka upp sama ákvæðið og var í frumvarpinu upphaflega. Eins og frumvarpið er nú, er samkvæmt því ekki tryggingarskylda við fermingu og affermingu skipa og báta, nema þeirra, sem nota vjelavindu og afferming stendur yfir meira en ½ dægur. Standi því þetta ákvæði, er sýnilegt, að menn, sem vinna við uppskipun úti um land, komast ekki undir tryggingarskylduna. En eins og kunnugt er, getur oft verið mikil hætta við slíka vinnu, einkum þar sem hafnir eru ekki sem bestar.

Þá er 3. brtt. nefndarinnar; hún er líka við 1. gr., að orðin ,,meiri háttar“ í tveim stöðum falli niður. Nefndinni sýndist óþarfi að láta þessi orð standa, þar sem skýrt ákvæði er í frumvarpinu, 21. gr., um það, að undanþiggja megi tryggingarskyldu alla smáfelda starfsemi, sjerstaklega utan kaupstaða og kauptúna, eins og t. d. smávegalagningar í hreppum, vinnu við sýsluvegi o. fl., þar sem engin meiri háttar áhöld eru notuð, aðeins kastað upp úr skurðum og borið ofan í. Aftur á móti fanst nefndinni engin ástæða til að undanþiggja alla vegagerð tryggingarskyldu, því að við þá vinnu er eins hætt við slysum og víða annarsstaðar, þar sem nú er farið að nota vjelar til þess að mylja grjót ofan í vegina, eins og víða er gert við vegagerð ríkissjóðs. Nefndinni þótti og sjálfsagt, úr því símalagningar eru taldar tryggingarskyld fyrirtæki, þá ættu sömuleiðis aðgerðir á síma að vera tryggingarskyldar. Því það liggur í augum uppi, að hættan við aðgerðir á þessum tækjum er alls ekki minni heldur en við að leggja línurnar í upphafi.

Þá er 4. brtt., sem nefndin leggur til að verði gerð. Það er viðbót við 2. gr. þess efnis, að borgun til nefndar þeirrar eða fulltrúa, sem ræðir um í 18. gr., skuli ekki telja til stjórnarkostnaðar. Í 18. gr. er talað um skipun nefndar og fulltrúa, en hinsvegar engin grein gerð fyrir því, hverjir eigi að borga þessum mönnum. En hætt er við, að þeir fari fram á borgun einhversstaðar frá, og er þá viðbúið, að svo verði litið á, að þeim skuli borga úr sama sjóði og stjórnarmeðlimum. En það fanst nefndinni ekki geta komið til mála, heldur yrðu þeir, sem stæðu fyrir skipun nefndarinnar eða fulltrúanna, að sjá sjálfir fyrir borgun til þeirra.

5. brtt. nefndarinnar er við 5. gr., að niður falli 2. málsgr. 4. liðar, sem sje þessi orð: „Heimilt er þó stjórn sjóðsins að víkja frá þessum reglum“ o. s. frv. Þessa málsgrein vill nefndin láta fella, vegna þess að hún hyggur, að það verði til ónæðis og umsvifa fyrir stjórnina að mega víkja frá þeim reglum, sem settar eru.

6. brtt. er í reyndinni ekki annað en orðabreyting, þannig að í stað „atvinnurekendur í þeim .... og sveitarfjelög“ komi: þeir, er tryggingarskylda menn hafa í þjónustu sinni. Þessi orð grípa að vísu yfir sama svið sem hin orðin, en geta og tekið til annara jafnframt, sem kynnu að vera skyldir til þess að tryggja verkamenn sína, þó þeir sjeu ekki beint atvinnurekendur.

7. brtt. a.-liður þarf engra skýringa við. En b.-liðurinn þarf þess frekar. Nefndinni fanst ekki rjett, að stjórnarráðið hefði eftir till. slysatryggingarnefndar heimild til þess að bæta við nýjum tryggingarskyldum atvinnuflokkum, því ef stjórnin hefði heimild til slíks, þá væri þýðingarlaust að telja þessa flokka upp hjer, heldur væri þá rjettast að setja um það einfalda reglugerð. Því vill nefndin fella burt heimild fyrir stjórnina til að bæta við tryggingarskyldum atvinnuflokkum, en að hún hinsvegar hafi heimild til að undanþiggja tryggingarskyldunni ýmsa smástarfsemi. Þetta er nauðsynlegt, því það er ekki hægt að setja í lög ákveðnar reglur um það, hvað skuli undanþegið. Slíkt verður að fela landsstjórninni og stjórn sjóðsins.

Viðvíkjandi málinu í heild, þá er sjerstaklega ein aðalhugsun, sem skoðanir manna eru nokkuð skiftar um, sem sje hverjir eigi að greiða iðgjöldin, hvort heldur atvinnurekendur eða vinnuþiggjendur. Hvað þetta snertir, þá mun það vera almenn regla að hafa þetta svona annarsstaðar, að atvinnurekendurnir borgi þessi gjöld. Og hinsvegar verður ekki sjeð, að sá maður í þeirri nefnd, er frv. samdi, er sjerstaklega var skipaður fyrir atvinnurekendur, hafi gert neinn ágreining út af þessu atriði, heldur hafi nefndin öll verið hjer sammála. Þess er líka að vænta að þó hin reglan væri tekin, að skylda vinnuþiggjendur til þess að greiða iðgjaldið að nokkru eða öllu leyti, þá yrði útkoman í reyndinni sú sama. því við samninga mundi það jafnan vera haft á bak við eyrað að heimta það, að vinnuveitendur greiddu gjaldið aukreitis. Jeg veit þess dæmi um önnur slík persónugjöld, svo sem ellistyrktarsjóðsgjald og prestlaunasjóðsgjald og kirkjugjald, að þó einstaklingarnir eigi að greiða þetta sjálfir, þá hafa samt húsbændurnir tekið það að sjer þegjandi að greiða það í flestum tilfellum. Það er því ekki mikið upp úr þessu að leggja þó því verði hagað svona að því er snertir iðgjaldsgreiðsluna eins og frv. gerir ráð fyrir.

Jeg hefi ekki eins mikla þekkingu á þessum efnum eins og skyldi, svo að jeg sje fær um að tala um það fremur öðrum. En það hefir fallið í minn hlut að vera framsögumaður málsins, og hefi jeg tekið það að mjer sem hverja aðra skyldu. Jeg bið svo hv. deild að afsaka það, að framsagan er ekki flutt af neinni sjerþekkingu.