02.05.1925
Efri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

74. mál, slysatryggingar

Frsm. (Eggert Pálsson):

Það var aðallega ein brtt., sem hæstv. atvrh. (MG) mælti á móti, sem sje brtt. við 5. gr. Jeg hefi ekki getað komið því við að bera mig saman við nema annan meðnefndarmann minn, þar sem hinn er ekki viðstaddur. En okkur hefir komið saman um það að leggja ekki áherslu á þessa brtt., ef hæstv. atvrh. sýnist það rjettara, að hún verði ekki samþykt. Jeg er sammála hæstv. atvrh. um það, að ekki sje nema sjálfsagt að nota heimild 21. gr. um að veita undanþágur frá tryggingarskyldunni. Það er skynsamlegt að láta tryggingarskylduna ekki grípa mjög vítt út í fyrstu, en færa hana fremur út síðar. Það mun reynast heppilegra fyrir framkvæmd málsins. En einmitt þessi öryggisráðstöfun í 21. gr. gerði það, að okkur þótti ekki óvarlegt að taka upp símaviðgerðir og fella niður orðin „meiri háttar“ í 1. gr. 2. d. Um símaviðgerðir er það að segja, að þar getur oft verið um nokkuð stórt að ræða, þegar sími slitnar og staurar brotna á stóru svæði, og þar af leiðandi eins hætt við slysum við slíkar viðgerðir eins og við símalagningu í byrjun. Að öðru leyti hefi jeg ekkert að athuga við það sem hæstv. atvrh. sagði, frekar en jeg hefi nú greint frá.