07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

74. mál, slysatryggingar

Sveinn Ólafsson:

Jeg gat þess þegar við 1. umr., að jeg mundi ekki geta fylgt þessu frv. nema verulegar breytingar yrðu á því gerðar. Við 2. umr. gerði bæði jeg og nokkrir aðrir hv. þm. tilraun til þess að koma nokkrum þeim breytingum að, sem mest skiftu máli, en tókst ekki nema að nokkru leyti. Nú hefir frv. gengið í gegnum hreinsunareld hv. Ed. og hefir að kalla orði til orðs verið fært í sinn upprunalega og viðsjála búning.

Jeg tel þess naumast þörf að fara að telja það fram á ný, sem bæði jeg og fleiri töldum athugaverðast við frv. í upphaflegri mynd þess. Það er kunnugt frá fyrri umr. En það er sjerstaklega þrent, sem á milli ber og sem veldur því, að jeg treystist ekki til að veita frv. fylgi, þótt mjer væri það miklu kærara, ef það væri bygt á landsháttum og heilbrigðri stefnu, heldur en að verða nú að ganga í gegn því.

Þessir þrír agnúar eru: Í fyrsta lagi, að látnir eru ótrygðir flokkar manna og fjöldi einstaklinga, sem vinna miklu hættulegri störf en margir tryggingarskyldir. Í öðru lagi, að vinnuveitendum er lögð þungbær kvöð á herðar um eftirlit, bókhald og framkvæmd þessara laga, sem ekki eru líkleg til að verða vel rækt, þar sem skyldutrygða vinnan er ígripavinna og skiftist á við aðra vinnu. En að auki á þá lögð þung viðurlög, ef út af ber. Þeim er gert að skyldu að greina sundur þá vinnu, sem tryggingarskyld er, frá annari, og færa vinnuskrár vegna verkafólksins. Í þriðja lagi er iðgjaldagreiðslan öll lögð á vinnuveitendur eina, án alls tillits til þess, hvort þeir eru gjaldfærari en vinnuþiggjendur, en hvorki á ríkissjóð nje þá, sem trygðir eru, þótt svo hafi verið um slysatryggingar sjómanna að þessu.

Allar þessar misfellur væri nú harla auðvelt að lagfæra milli þinga, ef að því væri unnið af þeim mönnum, sem kunnugir væru landsháttum og vinnubrögðum víðsvegar um land. Frv. er bersýnilega um of sniðið eftir útlendum fyrirmyndum, sem ekki eiga hjer við, og miðað við ákveðnar tegundir vinnu hjer og í nágrenninu. Fyrir mjer vakir það, að þegar svona tryggingum verður komið á hjer, þá eiga þær að vera almennari og taka til allra, sem áhættustörf stunda, og ná til fleiri en hjer er gert ráð fyrir. Með slíku fyrirkomulagi hygg jeg, að gera mætti framkvæmdina auðvelda, þar sem hver maður, er hættulegt starf ynni, yrði trygður og gjaldskyldur að einhverju leyti, en vinnuveitandi og ríkið greiddu nokkuð. Þannig mundi umstangið hverfa að mestu, nema innheimta iðgjalda, og öll framkvæmd verða auðveldari.

Jeg tel rjettara að bíða enn, ef hægt væri að fá hagfeldari lög um þetta eftir eitt ár, heldur en flaustra af lögum, sem mörg missmíði eru á og valda hljóta óánægju.

Því hefir verið haldið fram, að breyting sú, sem gerð hefir verið á 21. gr., bæti mikið úr göllum frv., eða afmái þá jafnvel með öllu, sú, að heimila undanþegin tryggingarskyldu ýms smávægileg störf utan kauptúna og kaupstaða. Þetta er ástæðulítil getgáta, og þótt undanþegin verði í sveitunum einhver minni háttar störf, sem lög þessi gera tryggingarskyld, þá er bersýnilegt, að ekki verða trygðir margir þeirra, sem nú eru undanskildir tryggingu og vinna þó hættuleg störf.

Rjettarbætur eftir 21. gr. verða ætíð ófullnægjandi og koma að litlum notum. Þess vegna legg jeg til, að frv. verði í þetta sinn vísað til hæstv. stjórnar, og vænti þess, að næsta þing geti þá afgreitt málið betur samkvæmt landsháttum og þörf landsmanna.