26.02.1925
Neðri deild: 17. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (2656)

32. mál, varalögregla

Tryggvi Þórhallsson:

Undir þinglokin í fyrra munu ýmsir þingmenn hafa orðið varir við frv. áþekt þessu, sem nú er borið fram af hæstv. stjórn. Það voru þá ungir íhaldsmenn, sem þessa hugmynd báru fram. þeir áttu meðal annars tal við mig um hana, en jeg tók lítt mark á og gaf lítinn gaum. Jeg skoðaði þetta sem ungs manns gaman, sem engin alvara yrði úr. Reyndist og svo í það skiftið. Jeg bjóst við, að aldrei skyti því upp aftur.

Jeg heyrði svo ekki af um hríð. En aftur fóru að berast sögur um mál þetta, og nú var sjálf landsstjórnin orðuð við. Mjer datt ekki í hug að trúa því. Það hefir legið það orð á hæstv. forsrh. (JM), að hann sje varfær maður. Jeg vildi ekki trúa því að hann — eins og nafnkendur þingmaður orðaði það einu sinni — færi í þá veiðistöð á gamals aldri.

Fregnirnar urðu enn ákveðnari. Utan af landi bárust mjer brjef, og einnig hjeðan úr bænum bárust mjer áskoranir um að fara að skrifa á móti málinu í blað mitt. En mjer datt ekki í hug enn að festa trúnað á þennan orðróm. Jeg neitaði alveg að ræða þetta mál í blaði því, sem jeg stjórna. Jeg vildi ekki gefa þeim ungu og óvarfærnu mönnum byr í seglin, um óskynsamlegt mál, með því að ræða við þá opinberlega og taka þá alvarlega. Jeg vildi ekki taka þátt í því, að auka æsingar að óþörfu. Jeg ályktaði sem svo, að því fyr fjelli mál þetta og umtal alveg niður og ynni því minna tjón, því minni gaumur sem því yrði gefinn.

Fullyrt var í eyru mín rjett fyrir þing, að sjálf landsstjórnin bæri slíkt frv. fram. Enn trúði jeg ekki og vildi ekki trúa. Jeg trúði því ekki fyr en jeg sá það svart á hvítu, er frv. var útbýtt hjer í deildinni. Þá varð jeg að játa, gagnvart þeim, sem jeg hafði þangað til mælt í gegn, að jeg hafði haft oftraust á varfærni hæstv. forsrh. Hann hafði látið leiðast til þess að fara í þessa veiðistöð á gamals aldri.

Þeir munu aðrir, flestir eða allir, sem blöðum eiga að stjórna á landi hjer, hafa beitt annari aðferð en jeg. Flestöll önnur blöð landsins hafa þegar rætt þetta mál, og dagblöðin mjög mikið. Og það er þegar komið í ljós, sem fyrirsjáanlegt var. Málið er þegar orðið mikið æsingamál, og þó er aðeins um byrjun að ræða. Af henni verður það þegar ráðið, að úr getur orðið eitthvert mesta æsingamál, sem hafist hefir á landi hjer. Það getur orðið upphaf nýrrar Sturlungaaldar á Íslandi. Og það er sjálf landsstjórnin, sem viðinn ber á bálköstinn.

Æsingaeldurinn logar þegar dátt í kaupstöðunum. Fundarsamþyktir um málið drífur að úr öllum áttum. Fyrir eru í kaupstöðunum harðandstæðir, pólitískir flokkar. Er síst bætandi á þann eld, sem er í milli.

Mjer virðist ljóst, bæði af blöðum og viðtali við marga menn, að auk allra annara muni undantekningalítið allir sjómenn og verkamenn snúast einhuga gegn þessu frv. Þeir telja, að þessu liði sje sjerstaklega stefnt gegn sjer, og gegn fjelagsskap þeirra — en þó að sá stjettafjelagsskapur hafi sína galla, er hann þó alviðurkendur um öll lönd. Þeir telja, að þetta lið eigi að verða einskonar pólitískur lífvörður íhaldsins. Þykir mjer ekki ólíklegt, að þeir geti hengt hatt sinn á einhver ógætileg ummæli af íhaldsmanna hálfu í þá átt, því að slík ummæli hefi jeg einnig heyrt úr þeirri átt. Er ekki að undra, þótt blóðið hitni, er menn gera sjer slíkar hugmyndir.

Á þessum grundvelli er málið rætt, og verður. Áfram mun stefna eins og nú horfir. Getur engum dulist, hvað er fram undan. Og það er landsstjórnin sjálf, sem viðinn ber á bálköstinn.

Jeg mun nú víkja að kjarna málsins, fyrra meginatriði þess og langsamlega aðalatriðinu, sem því veldur, að jeg mun einhuga leggjast á móti því. En jeg tek það þegar fram, að þetta mál er svo yfirgripsmikið og getur orðið svo afleiðingaríkt, að í þetta sinn get jeg ekki víkið nema að fáu.

Vil jeg þá fyrst að því víkja, hversu stórkostlegur eðlismunur er á almennri herskyldu, eins og hún er í flestum nágrannalöndum okkar, og á þessari varalögreglu eða ríkislögreglu, sem stofna á á landi hjer með þessu frv.

Þar sem almenn herskylda er, verður herinn, og hlýtur að verða, spegilmynd sjálfrar þjóðarinnar. Sú pólitíska stjórn, sem með völdin fer í hvert skifti, hefir enga íhlutun um það, hverjir þangað veljast. Allir heilbrigðir menn á vissum aldri eru í herinn kvaddir, úr öllum stjettum og flokkum. Í vel upplýstum löndum verður slíkur her til hins mesta öryggis. Hann getur aldrei orðið handhægt verkfæri ákveðinnar stjórnar eða stjórnmálaflokks, til misbeitingar gegn borgurunum eða stjórnarskipun landsins.

Alt öðru máli er að gegna um varalögreglu, eins og þá, sem gert er ráð fyrir með frv. þessu. Hjer er pólitískri stjórn gefið alveg ótakmarkað vald til að velja svo háa eða lága tölu manna sem henni gott þykir í þetta lið, og vopna það með þeim tækjum, sem henni gott þykir. Það liggur í augum uppi, að ekkert er því til fyrirstöðu, að slíku pólitísku, vopnuðu úrvalsliði getur hin pólitíska stjórn beitt eftir því sem henni gott þykir og öldungis eins og henni býður við að horfa. Allar dyr eru opnar fyrir landsstjórnina að misbeita þessu liði gegn borgurum og stjórnarskipun landsins.

Þetta atriði hefir komið fram í umræðum þeim, sem þegar eru orðnar um málið. Þetta er sannleikurinn í mótmælum sjómanna og verkamanna, er þeir mótmæla þessu liði, sem til er stofnað af stjórn, sem þeim er andstæð í pólitískum efnum, að þetta getur orðið, að ekkert er því til fyrirstöðu, og að sumu leyti liggur beint við að ætla, að þessu liði eigi að stefna gegn þeim.

Jeg geri nú ráð fyrir, að íhaldsmenn gefi þessum orðum lítinn gaum, er þau koma frá íslenskum andstæðingum þeirra í stjórnmálum — eins og þeir munu vera flestir sjómennirnir og verkamennirnir, sem varalögreglunni hafa mótmælt. Jeg vil benda á, að fleiri mæla hið sama um þetta höfuðatriði þessa máls, og það sá aðili, sem jeg hygg, að íslenskir íhaldsmenn muni taka fult tillit til, því að sumir þeirra a. m. k. eru vanir að taka allmikið tillit til þess aðila. En það dæmi er frá sambandsþjóð okkar, Dönum.

Þar fara nú með stjórn jafnaðarmenn, studdir af verkamönnum. Meðal margra annara nýmæla ber sú stjórn fram frumvarp um það, að afnema almenna herskyldu í Danmörku og leggja niður herinn. Í stað hersins á að koma ríkislögregla, alveg samskonar og á að stofna hjer á landi með frv. þessu, en þar er talan ákveðin, að í henni eigi að vera 7000 menn.

Mikið hefir verið rætt um stofnun þessarar varalögreglu dönsku, og vitanlega af öllum flokkum. Mun jeg aðeins eitt af því nefna, og með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa hjer upp þýðingu á grein, sem um þetta mál birtist í merkasta blaði íhaldsmannanna dönsku, Berlingske Tidende, 18. ágúst síðastl. Greinin er rituð af háttstandandi manni í danska hernum (oberstlöjtnant O. Bölck). Farast honum svo orð, þeim mikilsvirta danska íhaldsmanni:

„Þá er Danmörk leggur niður vopnin, eiga 7000 lögregluhermenn, sem til þess eru kvaddir, að koma í stað hersins. Þeir eiga að taka að sjer þann hluta af verkefnum hersins, sem við kemur friði inn á við. Það á að kveðja þá til aðstoðar, er svo stóð á áður, að herinn var kvaddur til aðstoðar, til hjálpar, er óeirðir voru innanlands. Nánar er ókunnugt um nám þeirra, skipulag o. fl., en það mun mega telja vist, að þeir eigi að fá nokkra æfingu um vopnaburð, að nokkur hluti þeirra eigi að vera ávalt að starfi, en nokkur heimsendur, en reiðubúinn að bregða skjótt við til athafna. Sjeu þeir bornir saman við herinn, sem við höfum nú, er munurinn annnarsvegar sá, að nám þeirra er lítilfjörlegra og óbrotnara, og hinsvegar — og einkum — sá, hvernig þeir eru kvaddir í herinn.

Þá er her hvílir á grundvelli almennrar herskyldu, er hann hluti þjóðarinnar. Hinar ýmsu stjettir og stjórnmálaflokkar eiga hlutfallslega rjetta tölu fulltrúa. Hin jafna skifting innan hersins er því óháð, hvaða stjórnmálaflokkur er við völdin í hvert sinn. Slíkur her er því trygging fyrir því, að skipulag þjóðfjelagsins haldist, hann veitir öryggi gegn byltingahneigð, en það mun reynast erfitt að hafa hann að verkfæri um að fremja stjórnarbyltingu.

Gerum nú ráð fyrir, að Danmörk leggi niður vopnin, en jafnframt verði að því ráði horfið, að koma upp þessum 7000 lögregluhermönnum. Liggur nærri að ætla, að nálega eingöngu yrðu þeir fengnir úr hóp hinna miður vel stæðu í þjóðfjelaginu, einkum úr hópi hinna atvinnulausu. Naumast mun tjá að gera miklar kröfur til þekkingar fram yfir þá, er fæst í almennum barnaskólum. Eins og ástæður eru nú, er vart hægt að efa, að þessi her myndi að langsamlega mestu leyti fá „social-demokratiskan“ lit, verða „rauður“ lífvörður. Stofnun hans myndi verða upphaf einveldis „socialdemokrata“, eftir rússneskri fyrirmynd. Þessir rauðu „Prætorianar“, í höndum rauðrar stjórnar, er starfa í þjóðfjelagi, sem hefir lagt niður vopnin, munu geta troðið undir fótum sjerhverja tilraun til andstöðu og komið á því ástandi í landi, sem óþekt er og kviðvænlegt. Og væri einhver þröskuldur á framsóknarvegi flokksins (t. d. landsþing, konungur eða því um líkt), munu „Prætorianarnir“ vera hið hentugasta verkfæri um að ryðja úr vegi. Því að þessi „her“ er ágætlega fallinn til stjórnarbyltingar.

Beri nú svo við, samkvæmt eðli stjórnskipulagsins, að stjórn „socialdemokrata“ færi frá völdum, og við tæki íhaldssamari stjórn, hvernig myndi þá fara um „Prætorianana“ Væri nú „socialdemokratar“ í andstöðu og stofnuðu til nýs fundar á Grænatorgi, með æsingaræðum og götuóeirðum á eftir, sem lögreglan rjeði ekki við — gæti það þá ekki dottið honum í hug, lífverðinum rauða, að fara sínar eigin leiðir með hinum æsta skríl, og stofna til aðgerða, sem okkur hinum væru óþægilegar?

En sleppum nú alveg hinum pólitíska lit á þeim, sem og er á núverandi stjórn — ávalt mun vera ástæða til að vænta hættu og óróa frá „Prætoriönunum“. Áður langt liði, myndi þeim verða ljóst, hversu mikið vald þeim er í hendur selt. Sjerhver ný stjórn mun um það spyrja, hver sje afstaða „Prætoriananna“ — og leita eftir hylli þeirra, ef á þarf að halda. Þeir munu mynda fastan fjelagsskap, og þar sem þeir einir hafa í hendi sjer að beita valdi, munu þeir geta borið fram kröfur sínar og sett skilyrði með slíkum myndugleika, að erfitt verður að komast fram hjá. Verði kröfum þeirra hafnað, er ástæða til að óttast, að þeir stofni til hermenskueinveldis og lifi og láti eins og þeim býður við að horfa, á landsins kostnað, á meðan á einhverju er að lifa. Því að: hver getur komið í veg fyrir það? — „Prætorianamir“ í Róm afsettu (myrtu) keisara, og nefndu til nýja keisara. Og þar voru þó „legíónirnar“, sein beita mátti gegn þeim. Við höfum ekkert.“ —

Þessi ummæli hins danska íhaldsmanns þykja mjer öll merkileg. Að meiningunni til heimfærast þau algerlega hjer hjá okkur.

Aðstaðan er að vísu ólík að því leyti, að í Danmörku situr jafnaðarmannastjórn og hjer situr íhaldsstjórn, en báðar vilja þær koma upp samskonar varalögreglu. Og svo ber svo einkennilega við, að íhaldsmennirnir dönsku og verkamennirnir hjer eru sammála um að snúast á móti — en bændaflokkarnir í báðum löndunum munu samhuga um andstöðuna.

Meginatriðið, sem öllum þessum andstæðu aðilum kemur saman um, er þetta:

Það er stórhættulegt fyrir stjórnskipulag landsins að gefa pólitískri stjórn vald til (takmarkað í Danmörku, en ótakmarkað á Íslandi) að velja lið og vopna það. Ekkert er því til fyrirstöðu, að þessu liði verði beitt gegn borgurunum og stjórnarskipun landsins.

Í Danmörku segja íhaldsmennirnir: Jafnaðarmannastjórnin velur í það atvinnulausa jafnaðarmenn.

Hjer er ekkert því til fyrirstöðu, að í liðið verði valdir atvinnulausir eða litlir íhaldsmenn — því að nóg er af þeim — og að pólitískir kosningasmalar verði gerðir að launuðum yfirmönnum.

Tryggingin er engin, á hvorugum staðnum, að ekki verið þannig að farið.

Hvað getur af hlotist?

Það er með öllu ófyrirsjáanlegt. En íhaldsmaðurinn danski lýsir því alveg rjettilega, hvað getur af hlotist. Alveg óþolandi ástand getur af hlotist. Lýðfrelsi, sjálfsákvörðunarrjetti þjóðarinnar er stofnað í hættu. Það getur blasað við annað tveggja: Ítalskur fascismi eða rússneskur bolsivismi! (BL: Er hann ekki góður?) Það má vel vera, að hv. þingmanni Akureyrar þyki það, en mjer þykir hvortveggja kosturinn jafnafleitur.

Þetta á alment við um öll lönd, og þetta á einnig við hjá okkur.

Og þegar annar hinna harðandstæðu pólitísku flokka í bæjunum — hvor sem er — vill skapa sjer sjerstaka aðstöðu gagnvart hinum, með því að koma sjer upp slíku liði, þá er það alveg fyrirsjáanlegt, hversu miklar æsingarnar verða. Þá er beinlínis kallað á mótstöðuna frá hinum flokknum.

Hvað blasir þá við í þjóðfjelaginu? Því verður ekki lýst, og það verður ekki sjeð fyrir. En æsingarnar, sem þegar eru hafnar hjer, benda í áttina, hvað getur orðið.

Það er jafnófyrirsjáanlegt, hvað úr þessu getur orðið, eins og hvað kann úr að verða, ef snjór losnar efst í hárri, snarbrattri, snjóþungri fjallshlíð. Það getur orðið úr því ægilegt snjóflóð, sem eyðir bygðina. — Í þessu tilfelli er það ekki lítið, sem um er losað.

það er sjerstaklega alvarlegt spor á allar lundir, þetta, sem nú á að stíga hjer. Við höfum verið vopnlaus þjóð, Íslendingar, öldum saman. Nú á að leggja það á landsstjórnarinnar vald, hversu hún vopnar útvalinn flokk. Ef nú verður vopnast á móti? Hvernig mun það reynast? Við kunnum ekki með vopn að fara, Íslendingar. Hún er nógu heit, barátta flokkanna í kaupstöðunum, þó að landsstjórnin fái þeim ekki vopn í hendur.

Jeg vil að síðustu í þessu sambandi beina nokkrum mjög alvarlegum orðum til stuðningsmanna hæstv. stjórnar. — Jeg sje, að þeir brosa sumir, en jeg verð að segja, að mjer er síst hlátur í hug. Jeg vil beina þessari áskorun til ykkar: Hlustið á hin rökstuddu andmæli skoðanabróður ykkar í Danmörku! Því að jeg vil með engu móti trúa því, að þetta varalögreglumál sje orðið flokksmál hjá ykkur.

Jeg er að vísu ekki skoðanabróðir ykkar og get aldrei orðið íhaldsmaður. En jeg viðurkenni, að hjá íhaldinu er oft og á að vera gætni og varfærni. Íhaldsflokkurinn á að slá skjaldborg um það stjórnskipulag, sem ríkir ílandinu. En vilji hann gera það, þá má hann allra síst gefa þeim öflum byr undir báða vængi, sem kunna að vera til í þjóðfjelaginu og að því vilja vinna, að koma öllu í bál og brand og umturna skipulagi þjóðfjelagsins.

Jeg vil mjög alvarlega mælast til þess af ykkur, að þið hjálpið til að fella þetta frumvarp nú þegar, til þess að stemma þegar á að ósi. Því fyr sem þetta mál er kveðið niður, því betra. Því minna tjón hlýst af því, að stofnað var til þessa óviturlega ráðs. Því minni æsingar og beiskja mun af þessu hljótast. En tjónið er þegar orðið nokkuð og það þarf tíma til, að yfir sljettist.

Sú hlið þessa máls, sem jeg nú hefi rætt um, er aðalhlið málsins. En jeg verð og að víkja að annari, því að þó hún sje ekki eins ískyggileg, þá er hún engu að síður svo alvarleg, að fram hjá henni má með engu móti ganga. Það er kostnaðarhliðin. Vjek hæstv. forsætisráðherra nokkuð að þeirri hlið, en mjög lauslega, og þegar litið er á frumv., sem vitanlega fyrst og fremst ber á að líta, þá verður ekki bygt á ummælum hans.

Landsstjórnin hefir haft það við orð, að hún vildi spara fje ríkisins. Það var samhuga vilji flokkanna á síðasta þingi, að láta fjárlögin í hvert sinn sýna sem rjettasta mynd af afkomunni. Og enn hefir landsstjórnin haft við orð, að greiða ætti lausaskuldir ríkisins á fáum árum.

Hinsvegar ber þessi sama landsstjórn fram þetta frv. Og frá þessu frumvarpi er þannig gengið, að jeg hika ekki við að fullyrða, að aldrei fyr hefir nokkur stjórn á Íslandi beðið Alþingi um eins rúmt og alveg ótakmarkað vald til að nota fje ríkisins, án þess að Alþingi geti, a. m. k. í fyrstu, haft um það nokkurt íhlutunarvald. Svo ótakmarkað vald biður stjórnin Alþingi um, bæði til þess að mega nota fje og til þess að mega leggja kvaðir á einstaka borgara, að hvern mann, sem um hugsar með athygli, hlýtur að reka í rogastans.

Í fyrsta lagi biður stjórnin um vald til þess, að mega kalla í þjónustu sína hvern mann, í öllum kaupstöðum landsins, sem hún vill til þess velja, á aldrinum frá 20–50 ára. Engin takmörk setur frumvarpið fyrir því, hversu oft eða hversu lengi hún má halda þeim í þessari þjónustu. Alt er þetta undir geðþótta stjórnarinnar komið.

Í öðru lagi biður hún um vald til að mega stofna 7 ný, launuð embætti, forstöðumanna eða yfirvaralögreglumanna, og engin takmörk eru fyrir hinum öðrum nýju, launuðu embættum, sem hún má stofna, undirforingjanna. Engin ákvæði eru um, hversu hálaunaðir þessir menn eiga að vera. Alt er það komið undir geðþótta stjórnarinnar.

Í þriðja lagi biður hún um ótakmarkaða heimild um allan útbúnað þessa hers, eða liðs: vopn, „tæki“ allskonar, einkennisbúninga, æfingar og æfingaskóla. Kostnaður við þetta alt er algerlega kominn undir geðþótta stjórnarinnar.

Um alla fjármálahliðina gildir það eitt, sem segir í 5. gr. frumvarpsins: Allan kostnaðinn greiðir ríkissjóður.

Sömu dagana sem við ræðum þetta frumvarp stjórnarinnar sitjum við sumir á fundum í fjárveitinganefndinni.

Ótal erindi og fjárbeiðnir berast til okkar. Atvinnuvegirnir kalla á margháttaðan stuðning. Nú þurfa bændurnir mikinn stuðning um að koma nýju skipulagi á útflutning aðalframleiðsluvörunnar. Sjómennirnir þurfa aukna gæslu hinna dýrmætu fiskimiða. Vegi og brýr er beðið um, lífæðar fyrir hjeruðin. Vita er beðið um, til þess að tryggja líf sjómannanna á hafinu. Óteljandi fjárbeiðnir berast til okkar úr öllum áttum. Með blóðugu hjarta verðum við að neita um margt — alt of margt — vegna hins þrönga hags ríkissjóðs.

Sömu dagana biður landsstjórnin um svona altakmarkalausa heimild til þess að nota fje ríkissjóðsins, — hún vill koma á nýju skipulagi, sem enginn veit, hvort kostar tugi eða hundruð þúsunda króna.

Hversu ógurlega stingur þetta í stúf?

Jeg tel það tvímælalausa skyldu okkar þingmannanna, gagnvart þeim kjósendum landsins, sem hafa trúað okkur fyrir umboði sínu, að reyna að gera okkur grein fyrir, hver kostnaður muni af þessu verða. Og við megum ekki með neinu móti miða við ummæli hæstv. forsætisráðherra um það, því að enginn veit, hver verður forsætisráðherra eða í stjórn, þá er þetta á að framkvæma. Við höfum ekki leyfi til að miða við annað en frumvarpið, eins og það liggur fyrir.

Jeg hefi reynt að gera mjer grein fyrir þessu, en jeg játa afdráttarlaust, að það er ekki hægt að fá neinn fastan grundvöll að standa á.

Það, sem fyrst verður þá að reyna að gera sjer grein fyrir, er það, hversu margir liðsmenn muni verða í þessari varalögreglu. Það er erfitt. Hæstv. forsætisráðherra gerði ráð fyrir 100 mönnum í Reykjavík einni, en jeg verð að segja, að jeg get alls ekki bundið mig við orð hans, eins og áður er sagt, jeg verð að miða við frumvarpið og það ástand, sem þetta skipulag leiðir af sjer. Nú er það vitanlegt, að stofnun varalögreglunnar leiðir af sjer æsingar. Hún kallar á mótstöðuna. Sjómenn og verkamenn telja henni stefnt gegn sjer. Eigi varalögreglan að reynast örugg, verður því að gera ráð fyrir miklu meiri styrkleik hennar en nú þyrfti að gera. Jeg þykist fara lágt út frá þessum forsendum, er jeg áætla tölu liðsmanna alls 1000, 500 í Reykjavík og 500 í öllum hinum kaupstöðunum 6 til samans. Jeg gæti alveg eins gert ráð fyrir hærri tölu eins og lægri — því miður. Því að ef á annað borð er farin þessi leið, þá má þetta lið með engu móti verða yfirbugað.

Þá er um útbúnað mannanna og hann einan, því að ekki dettur mjer í hug að fara út fyrir ramma frumv. og gera ráð fyrir launum handa þessum mönnum. En útbúnaðurinn kostar mikið fje, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði.

Næst liggur að bera saman við útbúnað lögregluþjónanna í Reykjavík. Jeg hefi aflað mjer, að jeg hygg ábyggilegra upplýsinga um, hvað hann kostar:

Lögreglumenn fá þennan fatnað:

Frakka fyrir c ........ 285 kr.

Kápu c .................... 125 —

Einkennisbúning c...... 255 —

Húfu c .......................... 35 —

Samtals c. 700 kr.

Ef slept væri annari yfirhöfninni, kápunni, kostaði fatnaður c. kr. 575, og virðist mega gera ráð fyrir, að slíkan fatnað legði ríkið varalögreglunni til.

Þá eru „tækin“. Jeg geri ekki ráð fyrir nema tveim. Kylfu, sem mun kosta um 15 kr., og byssu, sem vart getur kostað minna en 300 kr. Þetta eru samtals 890 kr. Þetta er á mann. Og eftir er að jafna launum yfirmanna á mann, æfingakostnaði, skotfærum til æfinga o. fl., o. fl. Mjer þykir það engin fjarstæða að áætla það 110 kr. á mann. Þá er kostnaðurinn orðinn 1000 kr. á mann. Og ef liðsmenn eru 1000, þá verður allur kostnaður fyrsta árið ein miljón króna.

Jeg nefni aðeins þessa tölu. Mjer dettur ekki í hug að halda fram ákveðinni upphæð. Hún getur verið bæði of há og of lág. En jeg legg áherslu á, að þetta er alt á svo ruggandi grunni, að með öllu er ómögulegt að fá fast undir fætur.

En jeg spyr: Er það leyfilegt af landsstjórninni að bera fram slíkt frumvarp — jafnvel fjárhagshliðarinnar einnar vegna? Og vera að tala um að spara í sömu andránni og borga lausaskuldir!

Jeg segi þetta alveg óverjandi. Jeg kalla það ofdirfsku af landsstjórninni að fara fram á það, að Alþingi afhendi henni svo gersamlega valdið til að fara með fje landsins.

Jeg beini aftur orðum mínum mjög alvarlega til stuðningsmanna stjórnarinnar, því að jeg veit, að a. m. k. sumir þeirra vilja sýna fulla gætni í fjármálum: Virðist ykkur ekki blasa við hjer ískyggilegt útsýni um fjárhagsafkomu ríkissjóðsins?

Jeg segi fyrir mig, að verði úr framkvæmd þessara laga, þá virðist mjer blasa við kollvörpun allra vona um fjárhagslega viðreisn þjóðarinnar. Fjárhagshlið þessa máls er ein nægileg til að dæma það til dauða. Og þó er hin hliðin, sem áður getur, enn ægilegri.

Jeg fer nú senn að ljúka máli mínu. En þó vil jeg enn víkja að fáum atriðum.

Það er á allra vitorði, hvert er tilefni þessa frumvarps.

Með stækkun kaupstaðanna og hinum gríðarmikla vexti sjávarútvegarins hefir aðstaða manna hvers til annars, í bæjunum, breyst stórkostlega frá því, sem áður var hjer á landi. Hjer dregur til sömu stjettaskiftingar sem orðin er erlendis. Vinnuveitendur og vinnuþiggjendur standa í tveim harðandstæðum flokkum, sem hafa við næsta ólík kjör að búa og eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta. Aðrar þjóðir eru farnar að læra að finna ráð til að sjá við þeim vandræðum, sem af þessu geta hlotist, en við Íslendingar kunnum ekki að taka á þessum málum enn.

Jeg játa hiklaust, að í beinu og óbeinu sambandi við þetta ástand hafa komið fyrir þeir viðburðir á landi hjer, sem ekki áttu að koma fyrir og með engu móti mega koma fyrir, og það er skylda okkar, þjóðfjelagsins vegna, að finna ráð til að koma í veg fyrir þá.

Mjer þykir sjálfsagt að víkja að því máli, sem sjerstaklega vakti umtal af þessu tæi, málinu rússneska drengsins, sem stendur í sambandi við þetta, af því að þáverandi aðalforingi verkamanna beitti þar aðstöðu sinni. Jeg hef fordæmt það tiltæki áður og fordæm enn, og ilt var til þess að vita, að fleiri flæktust í það mál.

En jeg vil minna á það, sem var á vitorði allra í þessum bæ, að það var ekki skipulagið á lögreglu bæjarins, sem þá brást, heldur voru það mennirnir sem þá brugðust. Slíkt smámál sem þetta í rauninni var, átti fulltrúi lögreglustjóra vitanlega að annast. Ef sá maður hefði haft meðalkarlmanns hjarta, þá hefði ekkert úr orðið og alt gengið eins og í sögu. Það var samhuga álit alls Reykjavíkurbæjar.

Lögreglan hefir nú vald til þess að fá aðstoð borgaranna, þá er sjerstakar ástæður ber að höndum. Um þau atvik sem komið hafa fyrir hingað til, og farið hafa miður úr hendi en skyldi, er það að segja, að ef lögreglustjórn hefði verið góð, hefði altaf verið nægilegt að hafi þá baktrygging.

Að koma upp sjerstöku liði, sem pólitísk landsstjórn hefði vald til að velji ótakmarkað, eftir sínu höfði, til þess að hindra, að slíkt komi fyrir aftur, það er áreiðanlega ekki rjetta ráðið. Af því hlýst ekkert annað en það, að kveikja nýtt hatur og hrinda af stað öflugri mót stöðu.

Ráðið er hitt: að efla og styrkja hina opinberu lögreglu landsins. Að setja yfir hana góða og örugga lögreglustjóra. Og ekki síst hitt: að setja viturleg lög, sen að því miða að semja sættir í deilumál unum milli vinnuveitenda og vinnu þiggjenda.

Þá hefði landsstjórnin unnið þarfara verk, ef hún hefði hnigið að þessu ráði Við eigum að læra af reynslu annan mentaþjóða í þessu efni og feta í fót spor þeirra. Við eigum að reyna að finni skipulag um dómstól, sem skeri úr deilumálum verkamanna og vinnuveitenda. Við eigum að eignast opinberan sáttasemjara í slíkum málum, eins og aðrar þjóðir eiga. Við eigum yfirleitt að eignast alhliða löggjöf um þessi mál. Til slíks verks hefði landsstjórnin fengið einhuga stuðning mikils hluta Alþingis.

Jeg hefi það fyrir satt, enda er það allra mál, að sjómennirnir íslensku sjeu bestu sjómenn í heimi. Jeg efa ekki, að þegar á alt er litið, muni verkamennirnir íslensku vera einna best mentaðir verkamanna í heiminum.

Jeg tek ekki þátt í þeim leik, að vopna lið, sem þeir — með rjettu að nokkru leyti a. m. k. — gætu talið, að stefnt væri á sig. Jeg á ekki samleið með öllum þorra þeirra um stjórnmálaskoðanir. En með engu móti vil jeg varpa til þeirra þessum hanska. Jeg vil síst af öllu greiða veg þeirra manna og gefa þeim mönnum vopn í hendur, sem kunna að vera til á þessu landi og vilja leiða verkamannastjett Íslands inn á hinar hættulegustu brautir. En jeg hygg, að þetta frumvarp stefni skemstu leið í þá átt.

Jeg vil ekki efa, að tilgangur hæstv. stjórnar, með því að flytja þetta frumv., sje sá, að vilja gera tilraun til að tryggja friðinn í landinu. En jeg er sannfærður um, að þessi leið stefnir til ófriðar, en ekki friðar, meiri ófriðar en verið hefir á landi hjer síðan á Sturlungaöld.

Mjer er tamt að vitna til fornra rita. Sigurður Nordal prófessor hefir ritað merkilega um kvæði, sem hann hyggur, að hafi verið ort á Íslandi fyrir nálega 1000 árum. Það fer merkasta kvæði, sem ort var í germönskum heimi í fornöld, sem við þekkjum, og eitt hið merkasta kvæði, sem ort hefir verið. Á tímamótum heiðni og kristni er það ort, þá er enginn vissi, hvor yrði yfirsterkari, forn siður eða nýr, og hálfur heimurinn stóð á öndinni af hræðslu við heimsslit. Kringumstæðurnar áttu sinn þátt í að skapa hið stórfelda kvæði í huga skáldsins. Hann sá sýnir: tortíming veraldar og aðra nýja rísa upp.

Jeg vil heimfæra eina vísuna til þessa tækifæris, því að í sambandi við rekstur þessa máls er mikil alvara fram undan. Sambúð Íslendinga á næstu tíð er mjög undir því komin, hvernig úr verður ráðið þessu vandamáli. Jeg ætla að ljúka máli mínu með ósk um, að ekki rætist sýnin Völu-Steins, er hann fór um þessum orðum:

Bræðr munu berjask

ok at bönum verðask,

munu systrungar

sifjum spilla;

hart er í heimi

hórdómur mikill,

skeggöld, skálmöld,

skildir klofnir,

vindöld, vargöld,

áðr veröld steypisk;

— mun engi maðr

öðrum þyrma.