03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

32. mál, varalögregla

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg stend upp vegna þess, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) var að lýsa eftir afstöðu þm. Reykjavíkur og annara kaupstaðaþingmanna til þessa máls. Jeg held, þar sem jeg er 1. þm. Reykvíkinga, að það standi næst mjer að svara.

Hv. þm. tók sjer leyfi til að segja það, að ef við, kaupstaðaþingmenn, ekki ljetum í ljós hjer í hv. deild fylgi við þetta frv., ætlaði hann að líta svo á, að við værum því ekki sinnandi. Þegar jeg heyrði hv. þm. segja þetta, datt mjer ekkert annað í hug, en að hann hefði gleymt, hvar hann er staddur, og mint, að hann væri suður í kenslustofu í kennaraskólanum. Þar hefir hann máske þennan rjett, að ef einhver ekki svarar, megi hann leggja fyrirfram ákveðinn skilning í þögnina. Hjer í hv. deild hefir hv. þm. ekkert slíkt vald. Við erum fullkomlega einráðir um það, hvort við tökum til máls til þess að mæla með svo sjálfsögðu máli eða ekki. Jeg verð að segja, að við erum ekkert lakari þingmenn, þó við stöndum ekki upp hver á eftir öðrum — eins og sumir úr Framsóknarflokknum hafa gert í þessu máli — og spinnum lopann klukkutímum saman að þarflausu. En hv. þm. (ÁÁ) segi jeg það, að hann hefir engan rjett til að byggja sjer neina skoðun um okkur kaupstaðaþingmenn á því, hvort við tökum til máls við 1. umr. málsins eða ekki:

Úr því jeg er staðinn upp, ætla jeg að minnast ofurlítið á atburð, sem gerðist hjer fyrir 18 árum síðan, sem sýndi það, hvaða álit merkustu og mætustu lögfræðingar í landinu höfðu á þessu málefni. Það var þá verið að skifta bæjarfógetaembættinu hjer í Reykjavík, sem alt fram að þeim tíma hafði í sjer sameinuð 3 núverandi embætti, borgarstjóraembætti, bæjarfógetaembætti og lögreglustjóraembættið. Efnin voru ekki mikil, og þótti ýmsum kostnaðarsamt að ráðast í þetta. Jeg veit, að sá mæti maður, er jeg nú nefni, misvirðir það ekki, þó jeg segi skoðun hans á málinu — maðurinn er núverandi dómstjóri hæstarjettar, Kristján Jónsson, þá bæjarfulltrúi. Álit hans var, að bærinn ætti að fara fram á, að landið tæki að sjer kostnaðinn við lögregluna. Því það væri óeðlilegt, að löggæsla landsins væri sveitarstjórnarmál, eins og reyndar er enn í dag, að öðru leyti en því, að ríkið leggur til einn mann í hverju umdæmi og greiðir honum mjög lítilfjörlega þóknun — einn hreppstjóra í hverja sveit á landinu. Hann sagðist álíta, að fyrsta skylda hvers ríkis væri að sjá um að halda uppi lögum ríkisins og greiða kostnað við það. Bæjarstjórnin gerði samþykt um þetta, að landið tæki að sjer kostnað við lögregluna, en ekki hefir af því orðið. Jeg er ekki að kvarta fyrir mitt kjördæmi, þó það borgi kostnaðinn eins og aðrir kaupstaðir. En jeg verð að segja, að mig stórfurðar á því, eins og hv. þm. Dala. (BJ), að þegar fram kemur meinlaus tillaga um það, að ríkisvaldið auki dálitið við, til að tryggja lögreglulið sveitafjelaga og kaupstaða, þá er risið upp móti því með klukkutímalöngum ræðum, hverri eftir annari, rjett eins og farið sje fram á einhverja óhæfu, sem sje algerlega nýmæli í veröldinni. Jeg get ekki annað sjeð en það sje öldungis eðlilegt og sjálfsagt, að eftir að þetta land er orðið sjálfstætt ríki, verði það að koma upp einhverju því valdi, sem komi í staðinn fyrir það vald, sem áður var, ef í harðbakka sló, meðan við vorum í nánu sambandi við annað ríki. Þá höfðum við vald þess ríkið að að hverfa og til að kalla, ef á þyrfti að halda. Nú er þetta ekki lengur. Nú verðum við að vera sjálfum okkur nógir á þessu sviði eins og öðrum. Undarlegur er hugsunarháttur þeirra manna, sem ekki vilja líta við tillögum um, að skipulag komist á þessi mál á fremur einfaldan og kostnaðarlítinn hátt fyrir ríkissjóð.

Jeg geri ráð fyrir, að óþarft sje að ræða frv. mikið við 1. umr., geng að því alveg vísu, að því verði vísað til 2. umr. og til nefndar. En jeg vil þó minnast örlitið á fjárhagsatriði málsins, ekki til þess að gefa hv. nefnd neinar leiðbeiningar um það, því jeg efast ekki um, að hún sje þess vel fær, að sníða þessu þann stakk, að hvorki sje ríkissjóði ofviða kostnaðurinn eða tillögurnar rýrðar, svo að gagnslausar verði. Við fyrri hluta þessarar umræðu hafa heyrst alveg fáránlegar tölur frá hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Sá fyrnefndi var með 1 milj., en hinn með 2 milj., meira að segja sem árlegan kostnað við að framkvæma þetta frv. Jeg hjelt, að við, sem sæti eigum í þessum sal, væru allir vaxnir upp úr því, að bera fram aðrar eins öfgar. Vildi jeg benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að þýði svona tölur nokkuð, þá hljóta þær að þýða það, hvernig hann og hans flokkur mundi vilja framkvæma slík mál, ef þeir sætu við stjórn og heimildin væri þeim í hendur fengin. Annað getur það ekki þýtt.

Jeg er ekki í nokkrum vafa um, að þetta mál vakir, þangað til á því fæst viðunanleg lausn, hvort sem það verður í tíð þessarar stjórnar eða ekki. Kæmi mjer ekki óvart, þótt forlögin ættu eftir að leika þann kímileik með hv. andstæðinga málsins, að þau legðu þeim á herðar framkvæmd þessa máls. En mjer er ant um fjárhag ríkissjóðs, og vil jeg því biðja þessa flokkaforkólfa — lendi þetta á þeirra herðum — að yfirgefa þessar öfgafullu fyrirætlanir, sem þeir hafa lýst með sínum óskaplegu fölum.