04.03.1925
Neðri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (2678)

32. mál, varalögregla

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg stend ekki upp til þess að dást að dirfsku hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) eða til þess að leiðrjetta misskilning. Heldur stend jeg upp til þess eins, að sýna hæstv. forsrh. (JM) tilhlýðilega kurteisi, því að hann eyddi 3/4 úr klukkustund til þess að tala við mig um daginn, og er því ofureðlilegt, að eitthvað af þeirri ræðu hafi gefið tilefni til andsvara. En það er að bera í bakkafullan lækinn að bæta á fyrir hæstv. stjórn í þessu máli, því að sá mælir, er henni hefir þar mældur verið, er þegar orðinn „troðinn, skekinn og fleytifullur“.

Með ræðu hæstv. forsrh. (JM) var fyrst fyllilega upplýst, hver tilgangurinn er með frv., og mun jeg víkja að því nokkru nánar síðar.

Tvent mjög merkilegt hefir nú sýnt sig. Hæstv. forsrh. (JM) hefir látlaust hröklast lengra og lengra undan, og af því reginundanhaldi gaf hv. 1. þm. Árn. (MT) góða mynd í gær, er hann talaði um fílinn og mýfluguna. Jeg get lýst því enn frekar. Hæstv. forsrh. er nú kominn svo langt frá þeim stað, er hann upprunalega flutti frv. frá, að hann sjest þaðan ekki einu sinni í góðum stjörnukíki. Hitt er það, að aldrei hefir nokkur ráðherra átt erfiðari aðstöðu til að verja mál en hæstv. forsrh. í þessu máli. Jeg hefi að sönnu ekki setið lengi á þingi, en jeg hefi langa stund fylgst vel með því, sem þar hefir gerst, og jeg tel, að mjer sje óhætt að fullyrða, að aldrei hafi jeg orðið heyrnarvottur að meiri hrakför en þeirri, sem hæstv. forsrh. hefir nú farið. Þessu til staðfestingar skal jeg aðeins minna á það, að hæstv. forsrh. hefir í örvæntingu sinni gripið til þess varnarráðs, sem mjög er tvísýnt og hættulegt. Er hann fann, hversu illa hann var settur, greip hann til þess óyndisúrræðis, að hafa í hótunum við þá embættismenn, sem undir hann eru settir og hjer eiga sæti. Öðruvísi gat hvorki jeg nje aðrir skilið orð hans til hv. 1. þm. Árn. (MT) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Að æðsti maður landsleyfir sjer þetta, er alveg ófyrirgefanlegt, og greinilegri þrotayfirlýsingu um varnir er ekki hægt að gefa.

Út af þessu, hve auðsjeð er, hversu hæstv. forsrh. stendur hjer völtum fæti, verð jeg að játa, að jeg hefi annað veifið sárkent í brjósti um hann, og haft hálfgert samviskubit út af að verða að kasta fleiri steinum í þá vörðu. En enginn þingmaður má leyfa sjer að hugsa á þann hátt þegar æðsti maður landsins ber fram jafn-óhæfilegt mál og hjer um ræðir, og gera má ráð fyrir, að allstór flokkur fylgi, þá er það bein skylda þingmanna að taka hart á slíku og ráðast á það eins grimmilega og kostur er á. Þessvegna verður, þó að vesæl sje vörnin af stjórnarinnar hálfu, þar sem flokkur hennar stendur að einhverju leyti að baki, að taka alvarlega á þessu máli og berjast gegn því með fullri alvöru og festu.

Jeg vík þá fyrst að því aðalatriði, sem upplýst er, og það er það, hvert er tilefni til þess, að málið er flutt, og hvert stefnt er með því. Það er nú endanlega upplýst, af ræðu hæstv. forsrh., þeirri, er hann hjelt á eftir minni, að beint er stefnt gegn samtökum verkamanna. Þegar hæstv. forsrh. í annari ræðu sinni taldi upp dæmi um það, sem undanfarið hefði farið aflaga í lögreglumálum, og lögreglan ekki náð að rækja svo starf sitt sem skyldi, þá voru það eingöngu dæmi, sem snerta beint eða óbeint stympingar út af kaupgjaldsmálum. Með öðrum orðum: hæstv. forsrh. hefir greinilega játað, að þessi lögregla eigi að bæla niður kaupgjaldsþræturnar. Þarna er komið að kjarna málsins, og verður ljóst í því sambandi, hvernig leiðir skilja.

Vandaspurningin, sem til grundvallar liggur, er sú, hvernig ráða eigi fram úr verkamannamálunum, svo að ekki hljótist vandræði af, En hjer skilja leiðirnar. Hæstv. forsrh. segir: Það á að stofna varalögreglu, sem með valdi bælir niður deilurnar. Það á að stofna til liðsdráttar, flokks, sem valinn er af pólitískri stjórn, koma á fót stjettaher, jafnvel þó að þjóðfjelaginu geti stafað hætta af slíkum flokki — til þess að berja verkamannaóeirðirnar niður með valdi. Þetta er stefna hæstv. forsrh. (JM). Og jeg skal ekki neita, að hægt væri að ná takmarkinu með þessum hætti. Ef liðið er nógu öflugt, getur það barið niður andstæðingana. En til þess að það geti tekist, þá kostar það áreiðanlega stórfje, og ekki aðeins það, heldur og ógurlegan ófrið, nýja Sturlungaöld. Og afleiðingar þess eru algerlega ófyrirsjáanlegar. Jeg sagði, að þetta gæti tekist, að bæla niður mótspyrnu verkamanna á þennan hátt, en það getur líka álveg eins mistekist. Hvað verður þá? — Jeg segi: Jeg vil ekki þessa leið hæstv. forsrh. (JM), heldur vil jeg aðra leið, þá, að í fyrsta lagi sje hin opinbera lögregla efld. Jeg hefi fyrir löngu viðurkent, að þess þyrfti með, og það var rangt hjá hæstv. forsrh., er hann sagði, að jeg hefði ekki viðurkent það í fyrri ræðu minni. Eins og jeg hefi áður sagt, það segi jeg nú aftur, að þeir viðburðir, sem komið hafa fyrir og sýna ólöghlýðni manna ljóslega, mega ekki endurtaka sig. Í öðru lagi verðum við að fá ötul yfirvöld, sem geta veitt lögreglunni öfluga stjórn. Í þriðja lagi verðum við að feta í fótspor annara þjóða og læra af þeirra reynslu, hvernig með skynsamlegri verkamannalöggjöf má leysa þessa hnúta. Þetta má skoða nánar. Tvent hefir síðar komið fram hjer á þingi, sem fer í þessa átt. Fyrst það, að hv. þm. Dala. (BJ) ber fram frv. um gerðardóm í kaupgjaldsþrætum. Jeg ætla ekki að drepa á einstaka liði þess. En í höfuðatriðunum mun það rjett. Og milli þess frv. og aðferðar stjórnarinnar er regindjúp. Því að það, sem hæstv. stjórn vill bæla niður með ofbeldi, vill háttv. þm. Dala. (BJ) jafna með lögum og rjettdæmi. Og þetta höfuðatriði er rjett. Það á að reyna að koma í veg fyrir ógæfuna með lögum og rjettdæmi, en ekki með ofbeldi. Annað spor, sem stigið hefir verið af þessu tæi, er frv., sem jeg og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) höfum samið, um sáttasemjara í þessum deilum. Slíkt hefir gefist prýðilega utanlands, og það er alveg sjálfsagt að reyna það hjer.

Nú hefi jeg að nokkru lýst leiðunum og því, sem á milli ber. Báðir vilja frið og löghlýðni, því jeg neita því ekki, að það sje ósk hæstv. stjórnar, að svo megi verða. En leiðirnar eru svo gersamlega ólíkar. Og jeg er jafnsannfærður um, að leið hæstv. forsrh. leiðir til ófriðar, eins og jeg er fullviss um það, og reynsla annara þjóða sannar það, að sú leið, sem við hv. þm. Dala. (BJ) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) viljum fara, er sú eina rjetta. Annars verð jeg að segja það, að það er æðihart, að einstakir þm. og þingnefndir skuli þurfa að standa í því, að semja slíka löggjöf, því slíkt er sjálfsagt verk landsstjórnarinnar. Og vilji hún ekki læra af svo merkilegum dæmum og reynslu annara þjóða, og hafa það sjer til fyrirmyndar, þá gef jeg ekki mikið fyrir málaundirbúning hennar.

Í sambandi við þetta kjarnaatriði málsins, er jeg nú ræði um, kom hæstv. forsrh. að háðulegum orðum um mig sem bændaþingmann. Það lá í orðum hans, að af því að jeg væri fulltrúi fyrir bændakjördæmi, þá varðaði mig lítt um þetta, og ætti ekki að vera „æstur“ út af þessu máli. Öðru máli væri að gegna um hv. 2. þm. Reykv. (JBald). En jeg verð nú að segja það, að bændur landsins varðar næsta mikið um það, hvernig þeim málum er skipað, sem snerta ástandið í bæjunum. Því að frá bændunum á að koma sú skynsemi og það pólitíska vald, sem setur niður deilur bæjarbúa. Þeir vilja enga kúgun þola, hvorki af bæjarvaldi íhaldsins nje af bæjarvaldi verkamanna í kaupstöðunum. Þessvegna risu dönsku bændurnir, eða vinstrimenn, jafneinbeittir og dönsku íhaldsmennirnir, sem jeg áður lýsti, gegn þeirri viðleitni „sosíalista“-stjórnarinnar, að koma á pólitískri ríkislögreglu þar í landi. Og jeg er líka viss um, að íslensku bændurnir eru jafnandvígir því, að fá hjer pólitíska ríkislögreglu Íhaldsins í Reykjavík. Þeir vilja enga pólitíska kúgun bæjarvaldsins, hvaðan sem hún kemur, heldur bæði öfluga opinbera lögreglu og heilbrigða löggjöf um að setja niður deilurnar. Því er eins farið í okkar þjóðfjelagi sem öðrum á þessum tímum, að því stendur mest hætta af bæjarlífinu, stjettabaráttunni þar, að tveir harðsnúnir flokkar borgaranna standa hver gegn öðrum. Og það tel jeg eitt af stærstu verkefnum bændanna, sem einnig hefir stórkostlega þýðingu fyrir landbúnaðinn, að þeir kosti kapps um að koma þar skipulagi á, að þeir með skynsemi og sínu pólitíska valdi verndi stjórnarfyrirkomulagið fyrir hættunni beggja öfgastefnanna. Þessvegna var það, að I. C. Christensen, hinn kunni, danski bændaforingi, hótaði því gegn yfirgangi „socialista“ í Kaupmannahöfn, að flytja þing og stjórn til Jótlands. Og jeg er ekki í vafa um, að íslenskir bændur myndu ekki fremur þola, að stjórn og þing væri háð pólitískum herflokki í Reykjavík, en kjósa heldur að flytja það burt, t. d. á Þingvöll.

Í sambandi við umtalið um atburð þann, sem hjer hefir oft verið nefndur í umr. dró hæstv. forsrh. upp umslag, tók úr því eitt blað af Tímanum og fór mjög mjúkum höndum um það. Las hann úr því nokkuð, en því miður ekki alt, sem jeg hefði óskað. En hann fór mjög vinsamlegum orðum um vit mitt og skynsamleg ummæli, sem þar kæmu í ljós. Jeg er honum einkar þakklátur fyrir það. En jeg vil skjóta því að hæstv. forsrh., að það er miklu oftar, sem skynsamleg ráð koma frá mjer í Tímanum, og ætti hann að athuga það betur en hann gerir og reyna að bera gæfu til að fara oftar eftir þeim. Hann gerir það því miður alt of sjaldan; annars farnaðist honum betur. En hæstv. forsrh. fór dálítið rangt með. Hann sagði sem sje, að í umræddri grein heimtaði jeg öflugri og meiri lögreglu, en að nú væri jeg horfinn frá því ráði. Þetta var rangt. Jeg sagði afdráttarlaust, að jeg vildi fá betri og meiri opinbera lögreglu. Jeg ber enn fram sömu skynsamlegu till. í málinu, og því ætti hæstv. forsrh. (JM) að gæta þess, að fara eftir þeim.

Jeg ætla svo að víkja að öðru höfuðatriði þessa máls, sem jeg einnig talaði um í fyrri ræðu minni — kostnaðarhliðinni. Þar get jeg látið mjer nægja færri orð, en jeg vil strax benda á, að þar er líka margt upplýst nú eftir umr. Hæstv. forsrh. (JM) dró mjög dár að þeim tölum, sem jeg nefndi, sagði það „alt út í loftið“. Hann mátti gera það; jeg gat þess sjálfur, að það væri afarerfitt að áætla þetta, og tölurnar væru reistar á lausum grundvelli. Jeg tók fram, að þær gætu verið of háar, og þær gætu verið of lágar. Skal jeg koma að því síðar.

En jeg vil benda á það, að jeg reisti áætlunina eða tölurnar aðallega á tvennu. Í fyrsta lagi á útbúnaði liðsins, í öðru lagi, hversu fjölment það yrði. Þetta skal athugað nánar. Hvað útbúnað liðsins snertir, þá bygði jeg kostnaðaráætlun mína í því efni á þeim kostnaði, sem er við útbúnað lögregluþjóna hjer í bæ. Það er ekki hægt að finna neinn betri mælikvarða. Það var ekki rengt, sem jeg sagði um það, hvað hann kostaði, enda dró jeg meira að segja úr því, að því er varalögreglu snertir, og verður sá liður áætlunar minnar vart vefengdur.

Hinn liðurinn var byssan. Hæstv. forsrh. hneykslaðist á því, að jeg nefndi byssu. Að vísu játa jeg, að hann mintist ekki á hana, en hún hefir nú dregist inn í umr. Er það að ástæðulausu? Jeg ætla ekki, því að í það eina skifti, sem menn hafa hjer verið saman kvaddir til aðstoðar lögreglunni, og það vildi svo vel til, að það var undir stjórn hæstv. forsrh. (JM), þá var þeim fengin byssa í hönd, og hún hlaðin. Og meira að segja: Það var útbúinn spítali hjer í bænum, í Goodtemplarahúsinu hjer alveg við hliðina, til þess að taka við særðum mönnum, svo síst er hægt að efa, að búist var við, að byssurnar yrðu notaðar. Jeg segi: úr því að þá var farið svo að þá, er þá goðgá að geta þess til, að þessu varalögregluliði verði slík vopn fengin ? Nei — jeg verð að segja, að báðir áætlunarliðir mínir, að því er útbúnaðinn snertir, virðast standa á föstum grundvelli.

Hinn liðurinn er um tölu liðsins. Jeg áætlaði, að það yrði í fyrstu 500 manns hjer í Reykjavík og 500 manns annarsstaðar samtals. Jeg játaði, að þetta væri alveg óvíst, en síðan hefir ýmislegt nýtt komið fram, sem hefir upplýst þetta. Það er nú sannað af ræðu hæstv. forsrh. að varalögreglunni er stefnt gegn verkamönnum, og það sannar aftur það, sem jeg hjelt fram, að með þessu væri kallað á mótstöðuna. Afleiðingin af þessari játningu hæstv. forsrh. hlýtur að verða sú, að ókyrðin og óróinn vex meðal verkamanna, enda er það ekki óeðlilegt. Hvernig verður því mætt? Eftir ráði hæstv. forsrh. er aðeins ein leið fær, sú, að auka liðið. Það verður alveg óumflýjanlegt að fjölga varalögreglunni. Þessvegna segi jeg: Því lengra sem farið er út á þessa braut, því meira hleðst utan um þetta. Hvar lendir síðast? Jeg veit það ekki, en geta má til lauslega, að ekki muni veita af 1000 manns. Í þessu ljósi verð jeg að segja það, að áætlun mín þarf ekki að vera nein firra. Jeg skal viðurkenna, að hún er að nokkru í lausu lofti bygð, nú sem áður. Enginn getur sagt með neinni vissu, hvort hún ætti ekki fremur að vera hærri en lægri.

Þá er þriðja atriðið í sambandi við fjárhagshliðina, sem stendur óhrakið eftir mína fyrri ræðu. Jeg benti á hina takmarkalausu heimild, sem stjórnin fengi með lögunum, til þess að nota fje. Jeg endurtek það, að aldrei hefir nein stjórn beðið um jafntakmarkalausa heimild til að eyða peningum, nje til að skerða persónulegt frelsi manna. Jeg ætla mig minni það rjett, að æfilangt fangelsi geti verið 16 ár í lengsta lagi. En með þessum lögum vill hæstv. stjórn leggja á menn 30 ára herskyldu. Því er ekki hægt að mótmæla, enda hefir hæstv. forsrh. ekki reynt það, að með þessu er farið fram á, að Alþingi veiti stjórninni næstum ótakmarkaða heimild til að ausa út fje utan fjárlaga, 100 þús. kr. á einu ári, eða ef til vill heilli miljón, af ríkisfje, og auk þess nálega takmarkalaust vald yfir persónulegum athöfnum einstaklinganna.

Hæstv. fjrh. (JÞ) kom að þessu, enda varð hann að gera það, úr því að hann stóð upp. Hann hefir undanfarið talað svo mikið um sparnað og hve nauðsynlegt væri að borga lausaskuldirnar. Hann vildi smjúga hjá þessu á mjög undarlegan hátt. Hann sagði, að enginn vissi, nema svo færi, að einmitt við Framsóknarmenn yrðum til þess að framkvæma lögin. Þessi ástæða var satt að segja dálítið hlægileg. Eina afsökun hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir henni er sú, að hann var bersýnilega reiður, og var þessvegna, kanske í þetta eina skifti á liðnum æfiferli, dálitið fljótfær. En út af þessu vil jeg aðeins segja honum tvent. Ef við eigum að framkvæma lögin, þýðir það, að við eigum að komast í meirihluta til þess að geta myndað stjórn. En fari svo, þá getið þið alveg sparað ykkur þetta fje. Því að þá verða lögin aldrei framkvæmd. Nei — við afnemum þau. Við veljum aðrar leiðir að markinu, sem jeg hefi áður lýst.

Annað liggur líka í þessum ummælum hæstv. fjrh. (JÞ). Þessi vissa hans um það, að við Framsóknarmenn eigum að framkvæma lögin, er feigðarspá um sjálfan hann. Í orðum hans liggur það, að hann býst ekki við að verða langær í ráðherrasessi. Jeg er ekki að kvarta undan því, að svo kunni að fara; jeg er einmitt að óska þess, að hæstv. fjrh. væri nú einu sinni spámannlega vaxinn. Það er heldur ekki svo undarlegt, að hæstv. fjrh. sjái eigin feigð, eða gruni hana, eins og öll frammistaða stjórnarinnar hefir verið, og þó einkum eftir að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sjeð frammistöðu hæstv. forsrh. (JM) í þessu máli.

Að lokum vil jeg aðeins segja örfá orð í garð hæstv. forsrh. Hann kvartaði mjög undan mjer í ræðu sinni, og það hvað eftir annað. Jeg verð að játa, að jeg er ekki miskunnsamari en það, að jeg er ekkert sárhryggur yfir því. Jeg tek það sem vott þess, að mjer hafi tekist vel að ráðast á hinn illa málstað. Hæstv. forsrh. kvartaði sjerstaklega undan þeim tíðindum, sem jeg flutti frá Danmörku, hvað verkamannastjórnin þar væri að gera og hvernig íhaldsmenn tæki í það. Hann reyndi ekki að mæla gegn því, hæstv. ráðherra, sem jeg tilfærði eftir hinum danska skoðanabróður hans. En hæstv. forsrh. tók hitt ráðið, það, að hæla verkamannastjórninni dönsku. Hann taldi gott að vera henni sammála, og vildi fúslega fá samvinnu við hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Jeg verð nú að segja, að þetta lof hæstv. forsrh. Íhaldsins á Íslandi (JM), um dönsku jafnaðarmannastjórnina, kom úr hörðustu átt. Hún kemur mjer þó ekki einkennilega fyrir eyru, þessi mikla vinátta höfundar íhaldsins á Íslandi í orði í garð dönsku jafnaðarmannastjórnarinnar. Hann hefir, hæstv. forsrh., stundum fengið orð fyrir að hann „hallaðist“ að jafnaðarmönnum, og hinum og þessum öðrum, og mönnum er enn í fersku minni, er símað var hingað í vor sem leið um hina miklu samúð hans og jafnaðarmanna, og þann „innileikans blæ“ er komið hefði fram í samsæti í Kaupmannahöfn. Íhaldsmönnum hjer hefir eflaust þótt þetta slæmt, en jeg veit þó ekki, hvort það hefir verið þessvegna, að altalað var, að forsætisráðh. hafi ekki fengið að sigla með frumvörp stjórnarinnar á konungsfund. Ekki er það ósennilegt, að ískyggilegt hafi þótt að sleppa höfði Íhaldsins íslenska í þessar vingjarnlegu klær danskra jafnaðarmanna!

Já, svo var það þetta mikla lof um dönsku stjórnina og það, að hún væri íhaldssöm, sjerstaklega kirkjumálaráðherrann. Jeg vil minna menn á það, að ekki er til nema einn pólitískur flokkur, er heldur slíku fram, að jafnaðarmenn sjeu íhaldssamir. Það eru kommúnistar, sem það gera — og svo einn maður að auki: hæstv. forsrh. Íslands, höfuð Íhaldsins íslenska. Annarsvegar hefir hann látið til leiðast að ganga svo langt að bera fram annað eins frv. og þetta, er stefnir að því, að beita hörku við verkamenn landsins, en á hinn bóginn gengur hann langt í að smjaðra fyrir útlendum jafnaðarmönnum. Hafi hann þann sóma af, sem verðugur er.