04.03.1925
Neðri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í C-deild Alþingistíðinda. (2679)

32. mál, varalögregla

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af fjárhagsatriði þessa máls vil jeg benda á það, að hv. þm. Str. (TrÞ) endurtók í ræðu sinni nú fjarstæður þær, er hann hafði haldið fram áður, þar sem hann segir, að með frv. þessu sje farið fram á það, að verja mörgum hundruðum þúsunda króna á ári úr ríkissjóði, utan fjárlaga. Þessi hv. þm. hefir þó, sem aðrir þingmenn, unnið eið að stjórnarskránni, en hann hefir áreiðanlega ekki kynt sjer vel þann eiðstaf, sem hann er bundinn við.

Jeg vil benda hv. þm. Str. á það, að lesa 37. gr. stjórnarskrárinnar, og þótt ákvæðum hennar hafi ef til vill ekki verið eins vel framfylgt og skyldi á undanförnum árum, þá hefi jeg ekki látið neitt tækifæri ónotað til að brýna fyrir mönnum, að þeim beri að fylgja. Þetta hlýtur hv. þm. Str. að muna frá síðasta þingi.

Um lög þau, er samþykt eru á hverju einstöku þingi og hafa útgjöld í för með sjer, er tekin upp sjerstök grein í fjárlögum, er heimilar þau gjöld það ár, en samkvæmt stjórnarskránni ber svo skylda til þess að taka útgjaldaliðina inn í fjárlögin fyrir eftirfarandi ár. Hitt er ekki gert, að taka inn í fjárlög fjárveitingar, er óstaðfest lög kunna að hafa í för með sjer. Og þegar hv. þm. Str. hefir lært þetta, mun hann hætta að hræðast það, að samþykkja einföld lög, af þeirri ástæðu, að þau hafi í för með sjer fjáreyðslu utan fjárlaga. (TrÞ.: Jeg efast ekki um, að það sje hægt á fjáraukalögum.)

Mjer finst, að það hefði hæft þessum hv. þm. betur að tala siðsamlegar en hann gerði um þau atriði, er ekki snerta þetta mál. Jeg verð að segja það, að mjer finst virðingu þessarar samkomu freklega misboðið, er maður, sem hefir hlotnast sá heiður, að ná þingkosningu, leyfir sjer að kalla á hlátur tilheyrenda með öðrum eins ummælum og þeim, að forsætisráðherra ríkisins hafi ekki fengið að sigla með frumvörpin á konungsfund. Jeg verð að segja, að mig iðrar þess, að hafa gefið atkvæði mitt þeim forseta, er lætur slíkt orðbragð óátalið. En jeg skal ekki ræða frekar um það mál; það er ekki mitt, að dæma um gerðir forseta.

Eins get jeg verið fáorður um það, er háttv. þm. Str. sagði um gamanyrði mín í gær um forlög andstæðinga þessa máls. Þótt jeg hefði þau orð þar um, er jeg hafði þá, er það alls ekki víst, að meðferð þessa frv., er það er orðið að lögum, lendi á Framsóknarflokknum. En færi svo, að hann tæki við stjórn, þætti mjer ekki ólíklegt, að það ætti fyrir honum að liggja að koma á slíku valdi í ríkinu (TrÞ: Ekki með ofbeldi.) — til þess að halda ofbeldi niðri.

Hv. þm. Str. fór mörgum orðum um það, að þessu ætti að beita í kaupdeilumálum. En eins og þegar hefir verið tekið fram, er það alls ekki hlutverk lögreglustjórna að taka hlutdeild í kaupdeilumálum, en sjeu einhverjir menn, er þykjast órjetti beittir — og það kemur í sama stað, af hverju slíkt stafar — þá verður lögreglustjórn að hindra það, að nokkur maður geti tekið það, sem hann telur rjett sinn, sjálfur með ofbeldi. Þetta er alt annað en að blanda sjer í kaupdeilur.

Mjer er kunnugt um það, að í hvert sinn, er fregn berst um það hjeðan út um land, að lögreglan hafi verið borin ofurliði, hafa bændur staðið höggdofa af undrun út af því, að þetta skuli geta átt sjer stað. Og það þurfa ekki mörg slík dæmi að gerast til þess, að kröfur bænda um það, að sæmd þjóðfjelagsins sje borgið, verði svo háværar, að þingmenn verði að sinna þeim. (TrÞ: Það hefir enginn talað um annað, en sinna þeim.) Það er gott að fá þessa játningu. En til hvers er þá alt þetta mas? í síðustu ræðu sinni sagði hv. þm. Str.: „Við munum afnema þessi lög, þegar við komumst í meirihluta.“ Hann bjóst við því, að frv. þetta yrði að lögum, áður en „Framsókn“ tæki við völdum. Jeg skal ekki dæma um það, hvað hv. þm. er spámannlega vaxinn, þótt hann hafi gaman af að tala um aðra menn á þann hátt. En jeg tel ekki neina feigðarspá um mig í ummælum hans, og tel stjórnina muni vera fastari í sessi, ef hún kemur frv. þessu fram nú þegar á fyrsta þingi. En jeg hefi aldrei ætlað mjer að verða ellidauður í þeim sessi, er jeg nú skipa, og mig langaði ekki til þess, að taka að mjer fjármálaráðherraembættið. En jeg taldi, að þá hefði verið svo ástatt, að enginn maður mætti draga sig í hlje, en öll mín ílöngun stefnir í alt aðra átt en að sitja yfir stjórnarstörfum og þingþrefi, og vona jeg því, að jeg losni hjeðan með heiðri sem fyrst. (TrÞ: Sömuleiðis!).