05.03.1925
Neðri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

32. mál, varalögregla

Sveinn Ólafsson:

Það hafa nú þegar allmargir hv. þm. gert grein fyrir atkv. sínu, og þessvegna hygg jeg, að það verði ekki talin goðgá, þótt jeg geri hið sama, og það því síður sem jeg verð að greiða atkv. á móti þessu frv.

Hæstv. forsrh. (JM) ögraði andstæðingum sínum í þessu máli með því, að þeir bæru ábyrgð á þeirri óreglu og lögbrotum, sem framin kynnu að verða framvegis vegna vanmættis og mannfæðar lögreglunnar, ef frv. yrði felt. Jeg skal ekkert um það segja, hver áhrif þessi ögrun hæstv. forsrh. hefir haft á aðra þingdeildarmenn, en hjá mjer vakti þessi ögrun ákveðna mótstöðu gegn þessu frv., og var í raun og veru ákvarðandi. Eftir hliðstæðri ályktun liggur næst að segja, að stjórnin beri þá einnig persónulega ábyrgð á öllu því misferli, sem leiddi eða leiða kynni af því, ef þetta frv. yrði samþ. Það er sem sje ekki neitt launungarmál lengur, að frv. stefnir að því einu að koma hjer á fót „pólitískri“ lögreglu, lögreglu, sem myndi vekja beiskustu andúð hjá öllum almenningi, jafnvel hinna allra löghlýðnustu borgara. Með þessu frv. hefir hæstv. stjórn lagt inn á hættulega leið, bæði fyrir sig og almannafriðinn, og hefði þessi leið betur ófarin verið.

Eftir frv. er lagt tortryggilega mikið vald í hendur stjórninni, sem alt getur ákvarðað með konunglegri tilskipun, eftir geðþótta sínum, og á að vera óbundin af lögunum, því að frv. þetta afmarkar nær ekkert verksvið stjórnarinnar. Það er að vísu eigi sjálfsagt, að ætla stjórninni misbrúkun þessa valds, en möguleikinn til þess blasir við.

Kostnaðarhliðin á þessu máli er að mínu áliti ekki sú þýðingarmesta, en þó mjög varhugaverð, og um hana gefur frv. engar bendingar. Stjórnin virðist því um þetta eins og annað að vera óbundin, og getur lagt fram úr ríkissjóði hvaða upphæð sem vera skal til styrkingar lögreglu, þar sem henni þóknast.

Eins og kunnugt er, hefir allur kostnaður við lögreglueftirlit í bæjum hingað til eingöngu hvílt á viðkomandi bæjarfjelagi, að því frátöldu, að ríkið hefir greitt laun lögreglustjóra, samkvæmt lögum um það efni frá 1890, lögum, sem að vísu eru aðeins heimildarlög, en að rjettu lagi ættu að vera alment skipandi um þessa hluti. Er í sjálfu sjer ekkert óeðlilegt að hugsa sjer, að ríkið tæki einhvern frekari þátt í kostnaði við slíka löggæslu, þar sem hann reyndist mjög þungbær, og þá eftir ákveðnum hlutföllum. En með varalögreglu þeirri, sem hjer er að stefnt, mundi verða dregið úr hvöt bæjanna til að annast þetta lögreglustarf, er ríkið stæði að baki og hægt væri þannig að koma af sjer kostnaðinum og skjóta ábyrgðinni yfir á herðar þess. Má jafnvel búast við því, að löggæslan í landinu yrði lakari, eftir að ríkið þannig væri búið að taka hana að sjer. Mjer virðist leið sú, sem samþyktarlögin 1890 benda á, sú eðlilegasta, og ef auka þarf lögreglustyrk einhversstaðar, þá sje eftir þeim einsætt að gera það.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) benti rjettilega á það, að t. d. hjer í Reykjavík og jafnvel víðar mætti nota brunaliðið til aðstoðar lögreglunni; auk þess eru ýms fjelög vel til þess fallin að skyldast til slíkrar lögregluaðstoðar, svo sem fjelög fimleikamanna, skátafjelög o. s. frv. Jeg sje ekki neitt því til fyrirstöðu, að bæjarfjelögin legðu slíka kvöð á þessa menn, og þó svo væri, að þetta hefði einhvern aukinn kostnað í för með sjer, þá ætti hann ekki að verða meiri en af föstu lögregluliði, enda eftir framansögðu ætti þá að vera gerlegt að fá einhvern tilstyrk af ríkisfje, er kostnaður yrði ofvaxinn bæjarfjelagi. Um þetta eru líka fordæmi til, og er skemst að minnast fjárframlaga úr ríkissjóði 1921 til kostnaðar við lögregluframkvæmdir hjer í bænum.

Jeg veit annars ekki til þess, að komið hafi frá neinum bæ á landinu nokkur ósk um að auka við lögregluna, eða umsókn um styrk vegna kostnaðar við hana, nema ef telja skyldi hjer úr Reykjavík. Jeg held því ekki, að það þurfi að gera því skóna fyrst um sinn, að önnur bæjarfjelög biðji um þetta, nema ef til vill Siglufjörður. Jeg gæti eins vel búist við því, ef lög yrðu sett hjer um varalögreglu, að niðurstaðan yrði sú, að þau röskuðu einmitt þeim almannafriði, sem þeim er ætlað að tryggja og varðveita.

Það hefir af ýmsum fylgismönnum frv. verið talin ótilhlýðileg frekja af Framsóknarflokknum, að vilja fella frv. þegar frá 2. umr. og girða þannig fyrir, að það nái að komast í nefnd. En jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að jeg lít svo á, að heppilegustu úrslit þessa máls væri þau, að frv. fari ekki lengra en komið er. Jeg sje ekki í þessu frv. annað en reiddan hnefa þess hluta Íhaldsins, sem hefir hina stærri vinnuveitendur að baki sjer, gegn verkalýðnum og öðrum, sem eru í andstöðu við það. Því fer mjög fjarri, að jeg treysti hnefarjetti þess til að skapa frið og löghlýðni. Athugaverðustu viðsjár í voru þjóðfjelagi eru einmitt deilur milli óbilgjarnra vinnuveitenda annars vegar og ofstækisfullra verkamanna á hinn bóginn, og jeg sje eigi betur en að það sje einmitt skylda Framsóknarflokksins að reyna að standa milli þessara elda og draga úr illum afleiðingum þeirra, sem ætið eru viðbúin. Jeg ætla ekki að taka þátt í þeim skattyrðingum, sem hjer hafa staðið um þetta mál, og jeg ætla heldur ekki að ýfast neitt frekar við hæstv. stjórn fyrir það, að hafa borið hjer fram þetta frv. Jeg get að mestu leitt hjá mjer hnjóðsyrðin til vor, andstæðinga frv. En þó var það eitt atriði, sem hæstv. forsrh. (JM) hraut af vörum í gær, sem jeg get ekki alveg leitt hjá mjer, og sem jeg álít, að hæstv. forsrh. hefði fremur átt að láta ósagt. Hann var sem sje að tala um mennilegar framkvæmdir Íhaldsins, og kvað svo að orði, að andstöðuflokkarnir hefðu aðeins lagt til þvaðrið og tafirnar. Þetta álít jeg, að hefði mátt vera ómælt, því jeg tel það muni orka mjög tvímælis, hvort nokkrar sjeu þær framkvæmdir Íhaldsflokksins eða stjórnar hans, sem ástæða sje fyrir hæstv. ráðherra að tala svo drýgindalega um; að minsta kosti er sjálfshólið óviðfeldið. Jeg fór að spyrja sjálfan mig, hvað mundi liggja bak við þessi drýgindalegu orð hæstv. forsrh. (JM). Jeg veit ekki, hvort jeg hefi hitt á það rjetta, en mjer datt í hug, hvort það mundi t. d. geta verið röggsemi stjórnarinnar í Krossanesmálinu fræga, sem hann miklaðist svo mjög af; eða hvort það væri framkvæmd aðflutningsbannsins á óþarfavarningi næstliðið sumar, eða eitthvað þessháttar. Jeg held það sje ekki beinlínis ástæða fyrir hæstv. forsrh. að vera að flagga með þessar röggsamlegu framkvæmdir íhaldsstjórnarinnar. Jeg held, að traustið á henni vaxi lítið við það, og þögnin um þær sje affarasælust.

Í stuttu máli sagt hefi jeg ekki getað felt mig við, að rjett væri að eyða jafnmiklum tíma og gert hefir verið, til að ræða slíkt mál sem þetta, ef hægt væri að breiða yfir það með góðu móti. Eftir þær umræður, sem þegar hafa staðið um málið, mun þetta vera orðið eitt með allra dýrustu málum þessa þings. Jeg skal engu spá um afdrif frv., en jeg hefi þegar látið í ljós, hver jeg óska að þau verði, og jeg mun einksis láta ófreistað til að flýta fyrir þeim afdrifum.