05.03.1925
Neðri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

32. mál, varalögregla

Bjarni Jónsson:

Jeg á ekki gott með að skilja, hversvegna hv. þm. eru sífelt að blanda afstöðu þessara stóru þingflokka inn í umræðurnar. Það er hvort sem er á hvers manns vitorði, að núverandi stjórn á tilveru sína Framsóknarflokknum að þakka. Honum var boðin í fyrra samvinna í því skyni, að gamla stjórnin sæti áfram, en tók hinn kostinn, sem kunnugt er. Það er því hans eigin stjórn, sem nú situr við völd, hversu mjög sem hann hamast nú gegn henni.

Annars skil jeg alls ekki í þessum málalengingum um frv. þetta við 1. umr. Hvað er það eiginlega, sem á milli ber? Hjerna sitjum vjer þrír í röð, og höfum allir talað um málið og erum allir sammála um, að auka þurfi lögregluna. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði ennfremur, að auka þyrfti lögregluna í landinu. Hv. þm. Str. (TrÞ) ljet einnig mjög ákveðin ummæli falla í þessa átt. Hæstv. forsætisrh. (JM) sagðist mundi fylgja næstum hverju frv., sem miðaði að því, að auka löggæsluna í landinu. Hvað er þá eðlilegra en að málið fái að ganga til nefndar, þar sem andstæðingamir geta komið sínum brtt. að?

Hjer virðist aðalatriðið vera það, hvort fella eigi frv. einungis af því, að það er stjfrv. Jeg gæti skilið þetta, ef til stæði að fella stjórnina. En nú er ekki því til að dreifa. Jeg fyrir mitt leyti, heiti því, að greiða atkv. á móti frv. við 2. umr., ef það kemur ekki frá nefndinni í þeirri mynd, sem jeg kýs.

Jeg ætla hvorki að skemta mjer nje öðrum hjer, með því að tala um málið í sama tón og sumir aðrir. Jeg vildi aðeins drepa á tvö eða þrjú atriði.

Mig rak, satt að segja, í rogastans, þegar jeg heyrði af munni andstæðinga frv., að hjer væri verið að stofna lið gegn einni stjett manna í landinu. Þetta er svo mikil ósvífni og brot á öllu velsæmi, að slíkt má ekki vera óátalið. Hversvegna er þá verið að ræða þetta mál dögum saman, í stað þess að drepa það þegjandi, eins og slíkt frv. hefði átt skilið? Um það hefðu allir flokkar átt að vera samtaka, hefði verið um slíkt hneyksli að ræða. Annars held jeg, að andstæðingar frv. trúi ekki þessu sjálfir. Jeg fyrir mitt leyti gæti enga sjerstaka stjett nefnt til þessa, fremur annari, en hv. andstæðingar þessa máls hafa nefnt til þess verkamannastjettina, daglaunamennina. Hvenær hafa þeir stofnað þjóð og ríki í hættu með ólöghlýðni? Það hefir að vísu verið vitnað til tveggja slíkra atburða, en bæði var það, að hjer var eigi um nein ósköp að ræða, enda var fyrirstaða hins fámenna lögregluliðs lítil eða engin. Annars eru verkamenn stiltir menn og hógværir, engu síður en vjer hinir. Og þar við bætist sú staðreynd, þótt menn vilji máske ekki viðurkenna hana, síðan menn fóru að vera hálfir austur í Rússlandi, að verkamenn eru feður, bræður og frændur embættismanna, kaupmanna og útgerðarmanna. Hver stjettin gripur hjer svo inn í aðra, að þær verða stundum vart aðgreindar. Auðvitað eru til óróaseggir innan daglaunamannanna, eins og í öllum öðrum stjettum, einkum þegar menn eru hálfdruknir. Við aldrukna menn hefir lögreglan oftast nær ráðið.

Verkamenn eru ekki ólöghlýðnari en aðrir menn, nema síður sje. Það er því bein móðgun og ósvífni við þá, að segja, að þeir muni koma upp varnarliði gegn varalögreglu, ef hún verður sett á fót, og þá kastar tólfunum, ef fulltrúar verkamanna sjálfra verða til þess, að halda þessum óhróðri á lofti. Jeg man nú að vísu ekki, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafi látið sjer þetta um munn fara, enda þótt það hafi óspart verið gefið í skyn af ýmsum öðrum. Ef verkamenn koma hjer upp varnarliði, þá yrði það til að hjálpa öðrum, en ekki gegn löggæslunni í landinu.

Það er þetta tvent: að stjórnin leggi fyrir þingið frv. þess efnis, að stofna her til höfuðs einni stjett í landinu, og hitt, að verkamenn muni stofna til samtaka gegn lögreglu ríkisins, sem er hvorttveggja svo ósvífið og óviðeigandi, að engum ætti að detta slíkt í hug. Og auk þess, að það er bein móðgun við verkamenn að ætla þeim slíka firru, þá er það ekki síður langt gengið, ef þetta á að vera hótun til vor hinna þm., sem erum, eins og allir vita, fremur ístöðulitlir og verðum fljótt hræddir, svo að það er ekki rjett að nota sjer það.

Jeg ætla þá að víkja að hinu og þessu í ræðum þeirra hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Þeir sögðu, að jeg hefði gert ráð fyrir, að lögreglan væri vopnuð. Þetta er ekki rjett. Jeg sagði aðeins, að lögreglan ætti að vera vopnuð eins og gerðist um lögreglu í öðrum löndum. Annars skil jeg ekki í því, hve hræddur hv. þm. V.-Ísf. er við vopnaða lögreglu. Hann vill líklega heldur, að lögreglan segi við sökudólgana, eins og í vísupartinum stendur:

Bíddu hjerna, maður minn,

meðan jeg sæki handjárnin, eða eitthvað svipað virðist vaka fyrir honum.

Annað eins gæti þó komið fyrir sem það, að drukkin skipshöfn af erlendu skipi ryddist hjer á land og gerði usla. Lögreglan má samt ekki hafa neitt í höndunum. Það er líklega trú hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) á innræti útlendra manna, sem hefir hjer áhrif á skoðun hans.

Eins og önnur þing, leggur þetta þing, er nú situr á rökstólum, ýmsar kvaðir og kröfur á þegnana, bannar þeim og býður, en þess verður að gæta, að þau rjettindi verða að koma á móti, að þegnarnir sjeu óhultir fyrir ofbeldismönnum.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talaði um „arnarvæng Englands“. Ekki skal því neitað, að stór er hann, en hætt er við, að hann verði skjóllítill, ef það væru Bretar sjálfir, sem vjer ættum að verjast. Hv. sami þm. sagði, að margar smáþjóðir yrðu að gera sjer að góðu að lifa í skjóli við her stærri þjóða. Eftir þessu ætti Ísland að verða verndarríki (protektorat) Englands. Endirinn hlyti að verða sá, þótt ekki hefði verið ætlast svo til í upphafi.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, að það væri hin mesta fjarstæða, að varalögreglan kæmi að gagni, ef ræningjar kæmu að landi. Mátti skilja á ræðu hans, að fyrst og fremst væri einurðarleysið gagnvart útlendingum svo rótgróið, að enginn myndi hreyfa hönd nje fót gegn þeim, og í öðru lagi myndu ræningjar þessar koma hjer á „dreadnaughts“ eða öðrum stórdrekum, sem skytu á kauptún og kaupstaði. Hv. þm. ætti þó að vera kunnugt, að Ísland hefir lýst yfir ævarandi hlutleysi sínu. Hann átti auðsjáanlega erfitt með að komast fram hjá þessari ástæðu, og því ljet hann þessa fáránlegu skoðun í ljós. Það, sem jeg átti við, var auðvitað það, að komið gæti fyrir, að ein eða tvær skipshafnir færu á land til rána eða annara óspekta. Lögreglan á fyrst og fremst að verja oss gegn slíkum útlendingum, og þá einkum verkamenn sjálfa. Allar óeirðir koma harðast niður á fátæku mönnunum, sem veitist lífið nógu örðugt, þótt þeir fái að lifa í friði.

Jeg er ekki fróður í Íslandssögu, og skal ekki heldur þreyta neina með tilvitnunum þaðan. En ekki held jeg að lengi þurfi að leita þar, til að finna þar næg dæmi þess, að margt hefði betur farið en gert hefir með þjóð vorri, hefði verið til öflug ríkislögregla, sem háð hefði fjeránsdóma og framið aðrar opinberar athafnir, þar sem þess þurfti við. Þetta gæti verið þeim til athugunar, sem fróðir eru í Sturlungu.

Mig myndi ekki taka sárt, þótt frv. þetta fjelli nú þegar, ef hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) kemur jafnharðan fram með frv. það, sem hann lofaði að koma fram með um þetta efni. En þar sem jeg er ekki viss um efndir á því, mun jeg greiða atkv. með þessu frv. til nefndar og 2. umr.