05.03.1925
Neðri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

32. mál, varalögregla

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) gerði aths. við ræðu mína, sem að vísu er lítil þörf að fara að mótmæla. Hann hjelt því fram, að jeg hefði sagt, að mjer væri erfitt að tala í þessu máli. Jeg sagði aldrei neitt í þá átt, að mig mætti skilja svo. En jeg sagði, að jeg ætti erfitt með að rökræða við hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Str., því að þeir töluðu um alt annað en frv. það, sem hjer er til umr., ætti við.

Það er ekki vert, að orðlengja mikið um málið nú. Það hefir ekki neitt nýtt komið fram hjá andmælendum, ekkert annað en það, sem margbúið er að hrekja.

Það á ekki, eftir frv., að stofna ríkislögreglu, heldur aðeins varalögreglu, til viðbótar þeirri bæjarlögreglu, sem fyrir er. Ríkisstjórnin á ekki að ráða yfir varalögreglunni, heldur ræður lögreglustjóri því, hvenær til hennar er tekið.

Hv. þm. (JBald) gaf það í skyn, að jeg mundi ekki geta fylgt frv. hans um næturvinnu, af því að það hafi komið frá sjer, jafnaðarmanninum. Jeg held jeg hafi sýnt þessum háttv. þm. það áður, að þetta er röng getsök í minn garð, og nægir mjer að benda honum á lög um vinnu á togurum, vökulögin, sem jeg var meðmæltur þegar í byrjun. Jeg hefi ávalt tekið afstöðu til mála, án tillits til, hvaðan þau kæmu inn í þingið. Hvað snertir þetta frv. um næturvinnu, tel jeg athugunarvert, hversu langt skal gengið í takmörkunum á vinnutíma, en að því er sunnudagavinnu snertir, þá væri æskilegt, að hún væri takmörkuð meir en nú er.

Hv. þm. fjelst á, að það mundi geta orðið örðugt að koma fram lögmæltum gerðardómi, ef annarhvor aðilja væri ófús að hlíta dóminum. Annars get jeg látið þá háttv. 2. þm. Reykv. og þm. Str. eigast við um þetta atriði, því vel getur verið, að þetta komi samt að einhverju gagni. En einnig þetta kemur lítt við því máli, sem hjer er til umræðu. Þá taldi háttv. þm. (JBald), að bannlagabrotin hefðu þróast, síðan íhaldsstjórnin tók við völdum. Tilraunir hv. þm. (JBald) til að ráðast á stjórnina fara nú að verða broslegar. Það er satt, að síðan hefir verið hegnt fyrir miklu fleiri brot en áður, en það er engin sönnun fyrir, að brotin hafi í sjálfu sjer verið fleiri á þessu tímabili. Þá sagði háttv. þm. (JBald), að jeg hefði skýrt rangt frá samtali við mig af hálfu manna úr bæjarstjórn Reykjavíkur um fje úr ríkissjóði til lögreglu í bænum. Háttv. þm. hlýtur að eiga bágt með að segja um þetta, því hann var alls ekki meðal þeirra manna, sem komu til mín frá bæjarstjórninni. Jeg hefi aldrei látið ósanngjarnt, að ríkið legði fje til lögregluhalds í bænum.

Háttv. þm. (JBald) var að tala um, að jeg hefði látið pínast til sagna, um tilgang frv. Jeg veit ekki, hví háttv. þm. segir þetta. Jeg tók það þegar fram, í framsöguræðu minni, hvað jeg meinti með því, og hefi ávalt staðið á sama grundvelli síðan. Jeg sagði, að ef hv. þm. (JBald) ætti við það, sem jeg hefði sagt í annari ræðu minni, þá vissi jeg ekki til, að jeg hefði nokkuð talað af mjer í þeirri ræðu. Yfirleitt held jeg, að jeg hafi ekkert sagt óvart í þessum umr. Hv. þm. (JBald) ræddi málið að nokkru leyti á þeim grundvelli, sem jeg hafði lagt í framsöguræðu minni. Sagði hann, að enda þótt ekki yrði stofnsett nema 100 manna lögreglusveit hjer í Reykjavík, þá væri henni eigi að síður stefnt gegn samtökum verkamanna. Jeg hefði þegar í upphafi getað sagt, að varalögreglu þyrfti aðeins að stofna gagnvart uppvöðslusömum útlendingum og uppþotum, sem einstakir óeirðarfíknir menn stofnuðu til. En það er ekki til neins að loka augunum fyrir þeim sannleika, að eins og málum er nú komið, þá geta svo alvarlegar óeirðir sprottið upp í sambandi við kaupdeilur á einhvern hátt, að hið venjulega lögreglulið reynist ekki nógu öflugt til þess að skakka leikinn.

Jeg hefi altaf tekið það skýrt fram, að ekki geti náð nokkurri átt að stofnun varalögreglu sje beint gegn kaupkröfum verkamanna, eða yfirleitt gegn nokkurri ákveðinni stjett í landinu. Slíkt er vitanlega hin mesta fjarstæða. En ýmiskonar óeirðir geta á margan hátt brotist út í sambandi við kaupdeilur og undir öðrum svipuðum kringumstæðum. Hv. þm. (JBald) gat þess rjettilega, að aðrar þjóðir gættu hinnar mestu varfærni í því, að blanda lögreglunni í slíkar deilur, en viðurkendi hinsvegar, að þau tilfelli gætu komið fyrir, að nauðsyn bæri til að vernda líf og eignir manna, þegar svo stæði á. Ennfremur viðurkendi hann, að svo gæti borið til, að almenningsþörf krefðist þess, að lögreglan yrði látin vernda menn, sem vildu vinna, t. d. að járnbrautarflutningum eða öðru, sem alþjóð manna væri jafnnauðsynlegt, enda þótt annars stæði yfir verkfall.

Við skulum t. d. hugsa okkur, að bakaraverkfall bæri að höndum, og öll þau vandræði, sem af því hlytist, að almenningur gæti ekki fengið brauð. Jeg býst við því, að þá myndi ekki þykja rangt að veita þeim mönnum lögregluvernd, ef með þyrfti, sem vildu vinna að allra nauðsynlegustu brauðagerð handa almenningi. Jeg tek þetta ekki fram vegna ummæla hv. 2. þm. Reykv. (JBald), því að hann virtist skilja þessi mál fullkomlega, heldur vegna ummæla ýmissa annara hv. þm., sem hafa æst sig upp á móti frv., án þess að athuga, hvað fyrir getur komið, bæði í sambandi við kaupdeilumál og í fjöldamörgum öðrum tilfellum. Og mjer þótti vænt um, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald), gagnstætt ýmsum öðrum hv. þm., hafði ekki í hótunum um gagnsamtök verkamanna, ef varalögregla yrði sett á stofn. Viðvíkjandi spurningu hans í því sambandi, hvort stjórnin gæti ekki hugsað sjer, að til mótsamtaka yrði stofnað, ef varalögregluliði yrði beitt gegn sjerstökum stjettum, þá er því að svara, að jeg gæti hugsað mjer, að svo færi, ef grunnhygni fær að ráða á báða bóga. En því má ekki gera ráð fyrir.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði mikið um, hversu dýrar þessar umr. væru orðnar. Jeg verð nú að segja, að ef hann hefir fundið sárt til þessa, þá hefði hann getað látið vera að tala í málinu. Honum hefði sjálfsagt eins fyrir því gefist tækifæri til að láta vilja sinn koma í ljós við atkvgr.

Hv. þm. (SvÓ) sagði það vera mjer að kenna, eða framkomu minni hjer í hv. deild, að hann hefði snúist öndverður gegn frv. þessu. Sagði hann, að jeg hefði ögrað þeim hv. þm., sem á móti því eru, með því að segja, að þeir yrðu að bera ábyrgð á því, sem aflaga færi, ef frv. næði ekki fram að ganga. Þá ákvað hann að vera á móti frv. Ætli þeir verði nú margir, sem leggja trúnað á þessa játningu hv. þm.?

Annars sagði jeg, að hv. þm. yrðu að bera ábyrgð gerða sinna í þessu máli sem öðrum, gagnvart kjósendum sínum. Þeir skulu varlega treysta því, að kjósendur, sjerstaklega til sveita, þakki þingmönnum sínum eða virði það við þá, þó að þeir bregði þegar í stað fæti fyrir þessa tilraun til að bæta löggæslu í landinu. Jeg hefi ekki ögrað hv. þm. með afleiðingunum, en trúað gæti jeg því, að þeim, sem greiða atkv. á móti því, að þessu máli verði sint, komi sú atkvgr. að litlu liði á kosningabálinu, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) talaði um. Að öðru leyti sagði þessi hv. þm. (SvÓ) fátt, sem ekki var margbúið að segja áður. Það var búið að slá því fram áður, að nota mætti brunaliðið í Reykjavík til varalöggæslu. Þessi till. hefir komið til umr. í bæjarstjórninni, og að því er jeg best veit, voru menn þar á einu máli um, að ekki gæti komið til mála, að nota slökkviliðið til slíks, einkum vegna þess, hve hætt væri við að tæki þessi eyðilegðust, ef þau væru notuð til að bæla niður óeirðir og uppþot, svo sem varalögregla ætti að gera. Þar að auki er ekki sem best hægt að treysta á slíka aðstoð brunaliðsins, því að hvernig sem á stæði, yrði það að hverfa frá, ef eldsvoða bæri að höndum.

En hv. þm. (SvÓ) sagði annað, sem nýstárlegt var að heyra. Hann vildi láta nota skátasveitirnar hjer til varalöggæslu. Nú er það svo, að í skátasveitunum eru nær eingöngu drengir á aldrinum 12–16 ára og svo stúlkur á svipuðu reki. Jeg veit ekki, hvort hann heldur, að stúlkur á þessum aldri sjeu vel fallnar til lögreglustarfa. (ÁÁ: Ætli þær sjeu ekki einmitt best til þess fallnar?) Hv. þm. V.-Ísf. heldur að svo sje, en alvarlega er varla hægt að ræða slíkar till. lengi. Þá nefndi hv. þm. (SvÓ) fimleikaflokkana. Það er að vísu ofurlítið nær sanni, en þó hygg jeg, að slíkt geti tæplega komið til mála.

Jeg ætla ekki að deila við hv. þm. um framkomu stjórnmálaflokkanna að sinni. Til þess gefst sennilega betra tækifæri síðar. Þó sje jeg ekki ástæðu til að draga nokkuð úr því, sem jeg sagði áður um það atriði. Hv. þm. (SvÓ) sagði, að tímanum væri illa varið með umr. þessum, og má þá segja, að brögð eru að, þá börnin finna.

Jeg verð að vera ofurstuttorður við hv. 1. þm. Árn. (MT), enda veit jeg varla, hvort jeg á að svara ræðu þeirri, sem hann hjelt hjer í dag. Hann vildi halda því fram, að jeg hefði sagt, að till. annara væru vitleysa. Jeg var svo varkár að skrifa hjá mjer, það sem jeg ætlaði að segja við hann í síðustu ræðu minni, og leyfi jeg mjer að vísa til þess. Jeg ætla yfirleitt óhræddur að láta hv. þdm. og aðra dæma um árás hans og svar mitt, dæma um það, hvor okkar eigi sök á því, að nokkur orð hafa fallið millum okkar, sem ekki komu máli þessu við. Jeg sagði ekki, að till. hv. þm. (MT) væru vitleysa, en hitt sagði jeg, að það, sem hann lagði til þessa máls, hefði verið hringlandi, hefði verið hvað á móti öðru, og ekki gott að henda reiður á því.

Hv. þm. (MT) talaði um, að jeg hefði gert ósæmilega árás á sig og þóttist hafa skilið orð mín svo, að jeg hefði ráðist á sýslumannsstarfsemi hans. Jeg sagði, að ræða hans hefði sýnt nokkuð, hver rök væru fyrir tveim atriðum, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) drap á í ræðu sinni hjer á dögunum, sem sje, hversu óyggjandi væri að treysta innræti manna og svo hinu, að nokkur skríll væri í öllum stjettum. En hvað ljet hv. þm. sjer sæma að segja um mig í gær? Og hvernig heldur hann, að menn hafi tekið þau ummæli upp fyrir honum? Ef hann nú þorir að láta þau standa óhögguð í þingtíðindunum, þá skal jeg ósmeikur bíða dóms almennings um framkomu okkar í máli þessu. Og svo talar þessi virðulegi þm. um brot á þinghelginni! Það er vist brot á þinghelginni, að svara svæsnum árásum, sem honum þóknast að hefja gegn mönnum, gersamlega að ástæðulausu? Nei, það vill oft brenna við, að þeir tala mest um Ólaf konung, sem hvorki hafa heyrt hann nje sjeð. þeir geta talað hæst um þinghelgina, sem minst virða hana.

Þá bar hv. þm. (MT) mjer á brýn, að jeg hefði talað mikið um barnaskap þingmanna og heimsku, og jafnvel látið þau orð falla, að þeir væru trúníðingar, sumir hverjir. Auðvitað hefi jeg aldrei sagt eitt orð, sem skilja mætti á þennan hátt. Jeg er alveg viss um, að jeg hefi aldrei sagt, að hv. þm. væru heimskir. Jeg álít það svo ósiðlegt, að viðhafa slíkt orðbragð hjer í þingsalnum, að jeg veit, að jeg hefi ekki gert mig sekan í því, enda er það gömul venja, að þess sje krafist af þingmönnum, að þeir noti ekki svo óþingleg orð í umr. Jeg minnist þess heldur ekki, að hafa talað með lítilsvirðingu um hæfileika hv. þm., en hitt má vel vera, að jeg hafi fundið að framkomu sumra þeirra í þessu máli, og fæ jeg ekki sjeð neitt athugavert við það.

Hv. þm. (MT) talaði um það með fjálgleik miklum, að landshöfðinginn sálugi, Magnús Stephensen, hafi aldrei talað kuldalegt orð til nokkurs manns. En hvernig var tónninn í ræðum manna, þegar þeir töluðu til hans? Hann var a. m. k. ekki líkur þeim tón, sem hv. þm. (MT), og enda ýmsir aðrir hv. þm., hafa leyft sjer að tala í til mín.

Hvernig gat hv. þm. (MT) annars dottið í hug, að jeg haldi, að jeg sje ræðuskörungur? Jeg get sagt mönnum það hreinskilnislega, að það er ættgengt í minni ætt, að eiga fremur örðugt með að koma fyrir sig orði. Og jeg hefi alla tíð orðið að berjast við þennan erfiðleika, enda hefir mjer aldrei dottið í hug, að jeg væri mikill ræðumaður. En þó lítur út fyrir, að mjer hafi, í þetta sinn, tekist fullsæmilega að skýra frá því, sem mjer bjó í brjósti, því að annars hefði hv. þm. (MT) varla dottið ræðusnild í hug.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefi jeg engu að svara, því að hann sagði fátt eða ekkert, sem bæði hann og aðrir hv. þm. höfðu ekki margsagt áður. Hann var að vísu dálítið rólegri nú en í gær, og er síst ástæða til að svara honum fremur þessvegna. Jeg nenni ekki að endurtaka enn, hvað stjórnin ætlast fyrir með frv. þessu. Það er jeg margbúinn að taka skýrt fram. Hv. þm. (JakM) talaði mikið um vitleysu í sambandi við mál þetta. Jeg vildi mælast til, að slík orð væru sem minst notuð, því að það er leiðinlegt, að þurfa að hlusta á þau hjer á þessum stað. (JakM: Jeg hafði þau eftir flokksmanni hæstv. ráðherra.) Já, hv. þm. (JakM) ljet þess getið, að hann hefði þetta orðbragð eftir „ónefndum“.

Eftir alt, sem hv. þm. (JakM) hafði sagt um þetta mál, verð jeg að segja, að þá fyrst varð jeg hissa, þegar jeg sá dagskrártill. hans. Mjer hefir skilist á honum, að lífsnauðsyn væri að ráða niðurlögum frv. gersamlega þegar í stað, en það væri ekki meining hans, að sama stjórnin, sem hefir borið frv. fram, ætti að taka málið til íhugunar á ný og bera það fram á næsta þingi.

Í rauninni er það mjög svo vingjarnlegt af hv. þm. (JakM), að treysta stjórninni svo vel, og að því leyti get jeg verið ánægður með till. hans. Hún þýðir þá ekki annað en að málið verður ekki afgreitt á þessu þingi, og í sjálfu sjer er það ekki svo mjög hættulegt. Það hefir hvort eð er þolað lengri bið hingað til. En það er athugandi, að enda þótt frv. verði hreinlega felt nú, þá getur stjórnin eigi að síður athugað málið til næsta þings og þá tekið tillit til þeirra aths., sem komið hafa fram við þessar umr. og mark er takandi á. Það getur stjórnin, hver svo sem afdrif frv. verða nú. En eftir alt, sem á undan er gengið, átti jeg alls ekki von á, að slík tillaga kæmi frá þessum hv. þm. (JakM).

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefi jeg litlu að svara. Hann talaði um, að lögfræðingar hefðu orð á því, að allri löggæslu hjer á landi hafi hrakað síðan amtmannsembættin voru lögð niður. Það getur vel verið, að eitthvað sje til í þessu, og skal jeg ekki deila um það. Jeg hefi oft haft orð á því, hversu örðugt sje, fyrir hvaða stjórn sem er, að gæta laganna eins vel og nauðsynlegt væri. Og í síðustu launamálanefnd var talsvert um það rætt, hvað gera ætti til að auka löggæslu í landinu, þó að engar ákveðnar till. kæmu frá nefndinni í þá átt.

Öðru hefi jeg ekki að svara, og læt hjer staðar numið, í þeirri von, að þurfa ekki að taka oftar til máls við þessa umr.