05.05.1925
Neðri deild: 72. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í C-deild Alþingistíðinda. (2707)

32. mál, varalögregla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg geri ráð fyrir, að jeg tali lítið um framsöguræðu hv. frsm. meirihl. (BSt). Hann talaði alment um málið, beint á móti þingsköpunum, þar sem meiningin er sú, að tala hjer um sjerstök atriði þess. Og eiginlega sagði hann ekki annað en það, sem sagt var við 1. umr., og þá rætt ítarlega. Því er óþarft að víkja að ræðu hans, þótt jeg kunni að drepa á einstök atriði hennar síðar. Við hv. minnihl. vil jeg segja það, að jeg get yfirleitt fallist á þær brtt., sem hann ber fram, enda er það eðlilegt, því að þær eru flestar ekki annað en það, sem jeg sagði við 1. umr., að verða myndi í framkvæmd.

Hitt sagði jeg þegar í upphafi og segi enn, að jeg ætlaðist ekki til, að æfðir yrðu nema tiltölulega fáir menn, t. d. 100 hjer í Reykjavík. Því er sú brtt. hv. minnihl. aðeins skjalfesting á orðum mínum. Jeg er heldur ekki á móti því, að heimilt sje aðeins að hafa slíkt lögreglulið í Reykjavík, og ef til vill líka á Siglufirði. Jeg er heldur ekki á móti 2. brtt. hv. minnihl., þeirri, að þessi skylda sje aðeins lögð á karlmenn frá 20–10 ára. Jafnvel þótt farið hefði verið enn lengra, og þetta hefði verið bundið við 25 ára aldur sem lágmark, hefði jeg ekki haft neitt við það að athuga. Þannig er það, ef jeg man rjett, að því er snertir ríkislögregluna í Danmörku. Og þar eru víst ekki aðrir teknir í liðið en á aldrinum frá 25–35 ára. Um skylduna í 5 ár má vel vera rjett, en auðvitað líklegt, að þeir hjeldu áfram lengur.

Það er eðlilegt, að jeg sje ekki á móti 3. brtt., því að jeg tók hið sama fram við 1. umr. málsins, að það væri nokkuð hart, að leggja þessa skyldu á fáa menn, endurgjaldslaust. En þessa skyldu, er hjer um ræðir, álít jeg þó ekki þungbærari en margar aðrar borgaralegar skyldur, er menn verða að gangast undir endurgjaldslaust, t. d. hreppsnefndarstörf og oddvitastörf, sem hafa í för með sjer miklu meiri tímaspjöll fyrir þá, sem kosnir eru til þeirra. Og nýlega komu kröfur úr þeirri átt, sem skyld er hv. frsm. meirihl. (BSt), um það, að skylda menn til þess að gegna ýmsum opinberum störfum endurgjaldslaust. En treysti menn nú ríkissjóði til þess að greiða kaup fyrir varalögreglustörfin, þá er rjett, að það komi frá þinginu sjálfu. Stjórnin þorði ekki að fara fram á það, en jeg er ekki á móti því, að greiða þóknun.

Það er lítið annað en formbreyting, að setja reglugerð í stað konunglegrar tilskipunar, en því minna þarf að taka upp í reglugerð sem lögin eru ítarlegri. Brtt. þessar, að undantekinni 3. brtt., segja ekki annað en það, sem jeg sagði í byrjun, að ætti að vera tilgangurinn með frv.

Það, sem hv. frsm. meirihl. (BSt) tíndi upp úr fyrri umræðu málsins, skiftir mig engu. Því hefir öllu verið svarað. En jeg hefi aldrei sagt, að þetta væri harðræði, sem farið er fram á með frv. Æfingar geta aldrei orðið mjög tíðar, máske 1–2 í mánuði. Og á skólum fyrir lögreglumenn er það ekki einusinni svo, að æfingatíminn sje langur. Það er diktað um þetta á alla kanta, að frv. sje skerðing á persónulegu frelsi manna. En skerðingin er ekki meiri heldur en gerist í svo mörgum efnum.

Þá sagði hv. frsm. meirihl. (BSt), að atvinnurekendur mundu verða ófúsir á að taka menn í þjónustu sína, er væru í varalögreglunni. En það nær ekki neinni átt. Það getur vel verið, að svo líði mörg ár, að ekki þurfi að grípa til varalögreglunnar. Hv. frsm. meirihl. (BSt) — sem talaði stilt, það skal jeg játa — vildi ekki viðurkenna, að neitt væri víst um það, hvað átt væri við með orðinu „tæki“, enda þótt jeg hafi margsinnis tekið það fram, að þar er eingöngu átt við venjuleg lögreglutæki. Hann sagði og, að lögregluliðið mundi verða aukið. Hversvegna? Jú, það getur hugsast. En jeg tel 100 manna sveit nú alveg nóg.

Þá kvaðst hv. frsm. meirihl. (BSt) ekki vilja hóta því, að þetta mál vekti ófrið. Ónei, jeg er ekki mjög hræddur um það.

Jeg ætla ekki að ræða málið frá almennu sjónarmiði nú, heldur vildi jeg aðeins drepa á þessi örfáu atriði. Ef málið kemur til 3. umr., verður hægt að ræða það á þann hátt, þótt það verði ekki annað en upptugga frá 1. umr. En við 2. umr. er það brot á þingsköpum að fara út í málið alment, eins og hv. frsm. meirihl. (BSt) gerði.