15.05.1925
Sameinað þing: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3256)

134. mál, póstmál í Vestur-Skaftafellssýslu

Jón Kjartansson:

Eins og vænta mátti, hefir hv. 5. landsk. (JJ) reynt að byggja þáltill. sína á umkvörtunum mínum yfir vanskilum hjá brjefhirðingarstofunni á Kirkjubæjarklaustri. Hann sagði, að grundvöllinn vantaði undir kæru mína. Það er rangt, og verð jeg því að lýsa nokkru nánar, hvernig málinu er varið og hvernig það horfir nú við. Kom í ljós mikill ókunnugleiki hjá hv. flm. (JJ), og er því nauðsynlegt að gefa nánari upplýsingar.

Það var fyrst á ferð minni um Vestur-SkaftafellssýsIu síðastliðið sumar, að jeg varð verulega var við vanskil á blaðasendingum, sem sendar vora í gegnum brjefhirðinguna á Kirkjubæjarklaustri. Að vísu hafði jeg heyrt um þau áður að því er blaðið „Vörð“ snertir, en það var fyrst eftir að jeg þurfti að senda blöð, að jeg varð fullviss um, að hjer var um alvarleg vanskil að ræða. Jeg varð var við, að bæði „Vörður“ og „Ísafold“ komu endursend úr umdæmi þessarar brjefhirðingar og það í allstórum stíl, svo að ekki gat alt verið með feldu, einkum þó af því, að blöðin komu endursend af mönnum, sem höfðu beðið um þau og óskað eftir að kaupa þau.

það er ekki rjett hjá hv. flm. (JJ), að kvörtun Ólafs Halldórssonar komi frá póstafgreiðslunni í Vík. Ólafur er ekki póstafgreiðslumaður, en jeg skal skýra, hvers vegna kvörtunin kom frá honum. Það stendur svo á, að Ólafur Halldórsson hefir tekið að sjer að innheimta fyrir afgreiðsluna hjer blaðið „Ísafold“ í allri Vestur-Skaftafellssýslu. Kemur það til af því, að ýmsir menn eystra óskuðu eftir að fá að borga blaðið þar, en ekki hjer í Reykjavík. Þótti þeim þetta þægilegra, og fór jeg því fram á það við Ólaf, að hann tæki að sjer innheimtuna, og var hann fús til þess. Þegar jeg kom til Víkur síðastl. sumar, varð jeg var við, að þar lágu allmiklar endursendar blaðasendingar. Hafði jeg beðið um, að þær væru ekki sendar til Reykjavíkur. Tók jeg eftir, að þar voru blöð til manna, sem óskað höfðu eftir að kaupa þau. Þegar svo aðalpóstmeistari var á ferð fyrir austan, var kvartað yfir þessu við hann. Bjóst jeg við, að aðalpóstmeistari hefði talað um það við brjefhirðingarmanninn og hann mundi þegar lagfæra þetta. En eftir að jeg kom hingað aftur frjetti jeg frá umboðsmanni mínum, Ó. H., að þessi vanskil færu stórum í vöxt, og þess var jafnframt getið, að eftir veru mína fyrir austan hefði sjest, að klúr og ósæmileg orð hefðu verið skrifuð á blaðaströnglana, sem endursendir voru frá Klaustri. Eru þeir strönglar geymdir í Vík og þar til sýnis. Sjálfur hefi jeg sjeð slík ósæmileg orð á blaðaströnglum af „Verði“, sem sendir hafa verið hingað til Reykjavíkur að austan. Ó. H. skrifar mjer svo brjef, dags. 6. okt., sem hv. flm. (JJ) las kafla úr, og kvartar yfir þessum sífeldu vanskilum. Brjef Ólafs sendi jeg síðan til póstsstjórnarinnar og óskaði eftir, að málið yrði rannsakað.

Hv. flm. (JJ) var að gefa í skyn, að póstsstjórnin hefði verið í vitorði með mjer og Ó. H. um kæruna. Benti hann á, að Ó. H. hefði verið kunnugt um, að aukapóstarnir ættu að flytjast frá Klaustri á næsta ári. Þetta er ekkert undarlegt, því það var öllum kunnugt, þar sem áætlun póstanna var þá þegar prentuð og allir vissu, að á næsta ári áttu aukapóstarnir að ganga frá Prestsbakka. Þessi breyting stafaði því ekki af kærum mínum og Ó. H.

Umkvörtun mína sendi póstsstjórnin, svo sem venja er, til brjefhirðingarmannsins á Klaustri, til þess að fá umsögn hans. Brjefhirðingarmaðurinn svaraði aftur með skýrslu, sem dags. er 2. des. f. á., og ljet fylgja skýrslunni vottorð frá flestum búendum á brjefhirðingarsvæðinu. Þóttist hann þar með hafa þvegið hendur sínar í málinu og kastar fram sömu órökstuddu staðhæfingunni sem hv. flm. (JJ) endurtekur hjer, að pólitískar og persónulegar hvatir hafi ráðið kæru okkar Ó. H. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um vottorðin, aðeins benda á, að það er síður en svo, að þau sanni sakleysi brjefhirðingarmannsins. Þvert á móti sanna þau ótvírætt það gagnstæða. Því þrátt fyrir ítarlegar tilraunir brjefhirðingarmannsins að safna vottorðum sjer í vil, hafa mennirnir verið of samviskusamir til að gefa vottorð gegn betri vitund, og er það upplýst af ummælum þeirra í vottorðunum, að vanrækslurnar hafi verið miklu meiri en mjer datt nokkru sinni í hug Jeg skal benda á viðvíkjandi vottorði nr. 1, sem undirritað er af 30 búendum á brjefhirðingarsvæðinu, að þar er skýlaust sannað, að brjefhirðingin hefir herfilega misbrúkað aðstöðu sína. Þar segir (með leyfi hæstv. forseta):

„Í þessu sambandi skal þess getið, að vjer höfum beðið brjefhirðinguna að senda ekki heim til vor önnur blöð en þau, er vjer höfum gerst kaupendur að, og höfum vjer um leið skýrt henni frá, hver þau eru. Þau blöð, sem endursend hafa verið með vorum nöfnum frá greindri brjefhirðingu, hafa því verið endursend eftir beiðni vorri“.

Ennfremur skal jeg lesa vottorð frá Júlíönu Magnúsdóttur, sem kemur næst á eftir. Sjest þar glögt, hvað það er, sem við er átt í vottorðinu, en brjefhirðingarmaðurinn hefir síðar í blaðaskrifum viljað snúa sig út úr, þegar honum var bent á fjarstæðurnar. Hún segir:

„Mjer er kunnugt um, að faðir minn heitinn, Magnús þórarinsson í Hátúnum, bað brjefhirðinguna að endursenda öll önnur blöð en þau, sem hann hafði beðið um“.

Hvað verður nú dregið af þessu? Jeg sje ekki betur en að af því verði dregin sú eina ályktun, að brjefhirðingarmaðurinn endursendi öll blöð, sem ekki hafði verið beðið um. Allir sjá, að þetta nær engri átt. Brjefhirðingarmaðurinn hefir hjer misbrúkað stöðu sína, enda hefir af hlotist herfilegur misskilningur, svo að sá, sem upphaflega ætlaði sjer ekki að kaupa ákveðið blað, en hugkvæmdist síðar að kaupa það, gat ekki fengið það, af því að brjefhirðingarmaðurinn endursendi það í sífellu.

Jeg skal lesa nokkuð úr vottorði Bjarna Ásgr. Eyjólfssonar á Steinsmýri. Lýsir það vel, á hvaða villigötur hjer er komið. Hann segir m. a.:

„Þegar póstur kom frá Rvík að Kirkjubæjarklaustri í vor, fyrst eftir að Ísafold kom út og var send út undir ritstjórn Jóns Kjartanssonar og Valtýs Stefánssonar, var jeg þar staddur. Fæ jeg þar m. a. „Ísafold“. Jeg segi þá við brjefhirðinguna: „Hjer fæ jeg senda Ísafold. Í þetta sinn veiti jeg henni móttöku“. Af þessu gat brjefhirðingin ekki annað skilið en sjálfsagt væri að endursenda blaðið, síðar datt mjer til hugar að kaupa blaðið og ljet verslun Halldórs Jónssonar í Vík vita um það, því hún ætlaði að innheimta andvirði þess. Nú fæ jeg ekki blaðið nokkrar póstferðir, tel víst út af fyrnefndum ummælum, að það sje endursent. Hafði jeg því hugsað mjer að láta brjefhirðinguna á Kirkjubæjarklaustri vita um þetta, en dregist. Fæ þá brjef frá Ólafi J. Halldórssyni í Vík, þar sem hann tjáir mjer m. fl., að Ísafold komi endursend frá Klaustri, og spyr mig, hvort jeg ætli ekki að halda áfram að kaupa hana. Jeg svara honum, að jeg ætli mjer það, en brjefhirðingunni á Kbkl. hafi verið það ókunnugt“.

Jeg verð að segja, að það getur verið nokkuð erfitt með póstsamgöngur, ef ríða þarf fram og aftur langar leiðir til þess að segja til, hvort senda megi blöðin heim eða ekki. Póstgöngur fara þá að verða til lítils. Ennfremur skal jeg lesa vottorð nr. 7 hjer í Tímanum:

„Að gefnu tilefni lýsi jeg undirritaður því hjer með yfir, að jeg bað brjefhirðinguna á Kirkjubæjarklaustri síðastliðið vor að endursenda blaðið „Ísafold“, og einnig skal það tekið hjer fram, að jeg ljet mjer alveg standa á sama, hvort blaðið „Vörður“ kom til mín, hafði aldrei beðið um það og ætlaði ekki að gerast kaupandi þess, en hvort jeg hefi beðið brjefhirðinguna á Kirkjubæjarklaustri að endursenda það, eða sent henni orð um það, man jeg ekki með vissu. En það er víst, að jeg hefi aldrei kvartað undan vanskilum eða öðru frá brjefhirðingunni, og hefi enga ástæðu til þess“.

Það kemur fram, að þessum vottorðsgefanda stendur á sama, hvort Vörður er sendur heim til hans, en það lítur út fyrir, að brjefhirðingunni á Kirkjubæjarklaustri sje ekki sama, hvort blaðið er sent heim til þessa bónda, því að hún endursendir blaðið um hæl.

Jeg tel nú sýnt, að það sje síður en svo, að brjefhirðingarmaðurinn á Klaustri eða hv. 5. landsk. (JJ) hafi sannað, að kæra mín væri röng. Þvert á móti er hún svo rökstudd, að jeg tel fylstu ástæðu til þess, að málið sje rannsakað ítarlega. (JJ: Því er það ekki gert?). Það er ekki mín sök. Jeg hefi sent kæruna. Annars virðist hv. 5. landsk. (JJ) ekki skilja, að þetta kemur við fleiri aðiljum en þeim, sem á brjefhirðingarsvæðinu búa. Þar sem póstmálin eru rekin hjer fyrir almannafje og miklu til kostað, getur það ekki leyst brjefhirðinguna undan ábyrgð sinni, þó að annar aðili, sendandi eða viðtakandi, lýsi sig ánægðan. Sendandi hefir greitt fje fyrir það, að sendingu hans verði komið til ákveðins móttakanda, og hann á heimting á því, að henni verði þangað komið. Vanræksla brjefhirðingarmannsins lýsir sjer hjer svo greinilega, að ekki verður um deilt, og ómögulegt að láta óátalið, og að sjálft Alþingi fari að ýta undir, að slík vanskil aukist, er alveg ósæmilegt í mínum augum.

Vegna þess, að hv. 5 landsk. (JJ) hefir við flutning þessarar till. komið fram með ósæmilega og algerlega órökstudda aðdróttun til tveggja manna í ábyrgðarmiklum stöðum, sýslumannsins í Vík og aðalpóstmeistarans hjer, þá skora jeg á Alþingi að fella till. umsvifalaust. Að vera með aðdróttanir og dylgjur um það, að sýslumaðurinn hafi beitt ofbeldi. (JJ: Jeg sagði ekki ofbeldi). Nei, jeg skrifaði eftir honum „flekaður“, og er það lítið skárra, en slík aðdróttun er með öllu ósæmileg hjer á Alþingi. (JJ: Hvað segir vottorðið?). Jeg skal upplýsa hv. flm. (JJ), að vottorð Páls Jónssonar kemur ekkert við mína kæru. Brjefhirðingarmaðurinn á Klaustri hefir víst ruglað saman þessu máli og öðru, sem jeg hefi heyrt að nú væri undir rannsókn, og er kannske alvarlegra en þetta. (JJ: Engar dylgjur). Nei, jeg skal segja hv. 5. landsk. (JJ), hvernig því máli er varið, eftir því sem jeg hefi heyrt frá því sagt. Það komu á sama miða 17 uppsagnir á „Verði“, og margar, að því er virtist, með sömu hendi. Þetta þótti grunsamlegt, og mun þessu tvennu hafa verið blandað saman í vottorðinu. En hvernig Lárus á Klaustri gat vitað um þetta mál, þegar hann fór að útvega sjer vottorðin móti minni umkvörtun, er mjer ókunnugt og óskiljanlegt.

Vegna þess, að hv. flm. (JJ) segir í till., að þessi breyting með aukapóstana sje til óþæginda hlutaðeigendum, skal jeg upplýsa, að þetta er ekki rjett. Pósturinn gengur nú frá Prestsbakka, sem er í ca. 5 km. fjarlægð frá Kirkjubæjarklaustri. Að sumu leyti er breytingin til þæginda. Ef fyrir kemur, að blöð eru afgreidd skakt í Vík, þá fara þau að Prestsbakka, eins og Lárus segir í skýrslu sinni. Þegar aukapóstarnir ganga frá Prestsbakka, komast þessar sendingar til baka með sömu póstum. Annars yrðu þær að bíða næstu póstferðar. Einnig er hægt að senda með aukapóstunum brjef þau, sem komið hafa til póstafgreiðslunnar á Prestsbakka meðan póstferðin stendur yfir. Þetta fyrirkomulag er því til hagræðis. Hitt er sjálfsagt, að brjefhirðing sje á Klaustri, eða þar í nágrenninu, en það er engin ástæða til þess, að aukapóstarnir gangi þaðan. Aukapóstarnir koma ekki seinna til ákvörðunarstaðar, þó að þeir gangi frá Prestsbakka, því að það hefir sjaldan eða aldrei komið fyrir, að aukapóstur færi frá Kirkjubæjarklaustri fyr en daginn eftir að aðalpóstur kom. Yfirleitt tel jeg hentugra fyrir póstafgreiðsluna og bygðina, að póstarnir gangi frá Prestsbakka. En aðalatriðið er vitanlega hitt, að regla sje á póstsendingum, og skiftir það mestu, bæði fyrir sendanda og móttakanda og ríkið sem heild.

Jeg þarf ekki að eyða um þetta fleiri orðum. Jeg vona, að hið háa Alþingi verði mjer sammála um það, að hjer sje ósæmileg till. á ferðinni, þar sem því er dróttað að einum besta embættismanni landsins, að hann misbrúki stöðu sína. Jeg óska, að skýrt komi í ljós, hverjir ljá þessari till. atkvæði sitt, og óska því nafnakalls.