15.05.1925
Sameinað þing: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (3258)

134. mál, póstmál í Vestur-Skaftafellssýslu

Flm. (Jónas Jónsson):

Ef einhver af hv. deildarmönnum hefði verið í vafa um, þegar hann las skýrslu Lárusar á Klaustri í „Tímanum“, að hjer væri um pólitíska ofsókn að ræða, þá hlyti sá hinn sami nú að vera viss um það, eftir að hafa heyrt þá tala hæstv. atvrh. (MG) og hv. þm. V.-Sk. (JK). Það, sem jeg sannaði fyrst, og ekki hefir verið hrakið, var það, að komið hafði kvörtun frá einum manni um vanskil. Sú kvörtun var afturkölluð og sagt, að hún væri bygð á misskilningi. En öll sveitin vottaði traust og þakklæti og skýrði frá, að hún hefði beðið brjefhirðinguna að ljetta af sjer þeirri ánauð að fá send óvelkomin blöð úr Reykjavík, sem hún vildi ekki sjá. Þessu hefir hv. þm. V.-Sk. (JK) ekki reynt að mótmæla, enda er það ekki hægt.

Mjer er kunnugt um, að hjer á pósthúsinu hefir legið annað blað, Vörður, í svo stórum haugum, að síðast var því, eftir beiðni afgreiðslumanns, kastað í eldinn. Sum blöð eru send með svo mikilli þrákelkni út um landið, að viðtakandi hættir að líta á þau, en sendir þau til baka. Mjer finst hv. þm. (JK) ekki þurfa að taka það illa upp, þó að menn sjeu leiðir yfir slíkum aðförum og finni upp á að segja, að þeir vilji ekki sjá þetta. Það er almenn trú úti um alt land, að ekki þýði að endursenda Ísafold og Vörð, en eftir 10–20 ár koma svo skuldakröfur í dánarbúið. (JK: Stærri verða skuldirnar fyrir Tímann.). Þær eru borgaðar. Tíminn hefir aldrei þurft að fára í málarekstur út af því.

Fyrst hæstv. atvrh. (MG) dró þetta inn í umræðurnar, get jeg sagt frá því, að við Tímamenn höfum oft orðið varir við, að einkum fyrir kosningar hefir blaðinu ekki verið skilað fyr en hjer um bil 2 mánuðum seinna en það átti að koma. Við vitum, að það eru pólitískir andstæðingar okkar, sem þarna eru að verki, okkur til skaða. Það hefir einu sinni verið talað um þetta við aðalpóstmeistara, en við höfum aldrei kært. Norður á Víðimýri fann póstmeistari sjálfur stóra sendingu af Tímanum í vanskilum, sem sýndi vanrækslu í þessum efnum. Við höfum sem sagt margsinnis orðið fyrir óþægindum af þessu tæi, en okkur hefir ekki þótt taka því að hefja út af því málarekstur.

Þá reyndi hv. þm. (JK) að afsaka Ólaf Halldórsson í Vík með því, að hann væri ekki póstafgreiðslumaður. Hann virðist þó að minsta kosti eiga aðgang að póstinum, enda er hann sonur póstafgreiðslumannsins og vinnur að öllum líkindum að afgreiðslunni. En sá maður er alveg úr sögunni, því að kæra hans hefir reynst ósönn og ekkert á henni að byggja.

Þá talaði hv. þm. (JK) um, að ósómi væri skrifaður á suma strangana. Þetta er ekkert óalgengt, að ýms ónotayrði sjeu skrifuð á strangana til útgefenda, og býst jeg við, að hv. þm. (JK) skilji, að það stafar af því, að verið er að nauðga blöðunum upp á fólk. Jeg man eftir vísuhelmingi af endursendu íhaldsblaði, sem sýnir þetta. Hann er svona: „Endursent með engri þökk, illum feðrum sínum“. Fyrri helminginn hefi jeg ekki yfir, af því að jeg býst við, að hann þyki ekki þinglegur. Annars er ekki hægt að segja, hvaðan slíkt getur komið á strangana. Lárus Helgason neitar, að hann sje nokkuð við slík skrif riðinn, en jeg vil benda á, að þau geta vel verið skrifuð af mönnum, honum fjandsamlegum, og jafnvel af þeim, sem kæra.

En þeir, sem búa í glerhúsi, ættu ekki að vera að kasta grjóti. Í sumar kom klámgrein í Morgunblaðinu. Þetta viðurkendu ritstjórar þess einslega við menn, sem víttu þá fyrir það. Þetta hefir aldrei komið fyrir í neinu íslensku blaði fyr.

Hv. þm. (JK) játaði, að hann hefði beðið venslamann sinn, aðalpóstmeistara, um opinbera rannsókn. En ekkert varð af henni, af þeirri einföldu ástæðu, að aðalpóstmeistari er of greindur maður til að sjá ekki, að það þýðir ekkert. Jeg tel það afleitan vitnisburð á móti málstað hv. þm. (JK), að engin rannsókn fór fram, og þó er sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu víst fús að rannsaka alt, sem stefnir í sömu átt og kæran.

Það var barnaleg röksemd hjá hv. þm. (JK), að ekki mætti minnast á aðalpóstmeistara og sýslumann Skaftafellssýslu í þessu efni, af því að þeir væru svo hátt settir. Alþingi er samt hærra sett en báðir þessir menn, og enginn er svo hátt settur, að ef hann brýtur af sjer, hafi Alþingi ekki rjett til þess að tala um það. Málstaður póstmeistara er sá, að hann hefir beitt gerræði við undirmann sinn, en málstað sýslumanns sýnir vottorðið, og þarf jeg ekki að tala um það frekar. Hv. þm. afsakar færslu aukapósta með því, að þegar vanskil verði í Vík, sje hægt að senda með aukapósti frá Prestsbakka. Jeg er hv. þm. (JK) mjög þakklátur fyrir þessar upplýsingar. Þetta sannar, að honum er kunnugt um, hvað póstafgreiðslumaðurinn í Vík stendur illa í stöðu sinni. Betri snoppung er ekki hægt að gefa sjálfum sjer.

Jeg verð að segja, að ræða hv. þm. V.-Sk. (JK) var ekki nærri eins vítaverð og ræða hæstv. atvrh. (MG). Hv. þm. V.-Sk. reyndi þó að sanna, að það, sem rangt er, væri rjett, en ræða hæstv. atvrh. (MG) var þetta venjulega pex, sem er alþekt. Hann sagði, að þetta væri ekki löggjafarmál. Er þá alt löggjafarmál hjer? Var Krossanesmálið löggjafarmál? En ef till. mín verður samþykt, er það þá ekki skipun til hæstv. ráðh. (MG) um að láta aðalpóstmeistara breyta aftur um? Hann reyndi að afsaka sig með því, að þetta heyrði ekki undir þingið. En ef aðalpóstmeistari þrjóskast, er hægðarleikur að búa til lög. Jeg veit, að hæstv. atvrh. (MG) er ekki svo þunnur, að hann veit, að Alþingi hefir mátt til þess.

Þá bendir hæstv. atvrh. (MG) á það, að ekki einungis Alþingi hrindi af stað framkvæmdum í þessu máli, heldur og hlutaðeigandi sýslumaður. Auðvitað játa jeg, að mjer hefði ekki dottið í hug að tala um þetta aukapóstamál, ef ekki væri hjer um svo bersýnilegt ranglæti að ræða, að ekki má láta það óátalið. Jeg býst við, að brjefhirðingarmaðurinn á Kirkjubæjarklaustri muni ekki sækja um leiðrjetting sinna mála til hæstv. atvrh. (MG), eftir að vera búinn að heyra ræðu hans. Jeg heyrði í gær í hv. Nd., að verið var að minna hæstv. ráðh. (MG) á, þegar viss persóna setti upp lituð gleraugu. Það sama er jeg hræddur um, að komi fyrir ráðherrann, ef farið er með slíkt mál í stjórnarráðið.

Eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, geri jeg ráð fyrir, að ekki verði nein vandræði fyrir Alþingi að átta sig á málinu. Það er alveg ástæðulaust að gera aðsúg að Lárusi Helgasyni fyrir falskæru, og gera ráðstafanir þvert ofan í álit þeirra manna, sem best þekkja til. Hversdagsgæfir menn, eins og t. d. póstmeistari, geta lent á villistigum, ef þeir vita, að bak við þá stendur pólitískur meiri hluti, sem afsakar það, sem ekki er hægt að afsanna.