15.05.1925
Sameinað þing: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (3260)

134. mál, póstmál í Vestur-Skaftafellssýslu

Jón Kjartansson:

Jeg ætla aðeins að víkja með örfáum orðum að ræðu hv. flm. (JJ). Hann sagði, að það væri ekki til neins fyrir menn að endursenda blöð, ef þau yrðu send aftur og aftur og ekkert tillit tekið til þess, hvort menn vildu hafa þau eða ekki. Þetta er sagt út í loftið og kemur þessu máli ekkert við. En jeg vil spyrja hv. flm. (JJ), hvernig á að skilja það, þegar menn hafa beinlínis beðið um blöðin og þau koma endursend frá brjefhirðingu, en síðan koma kvartanir frá þeim, sem báðu um þau, um að þau hefðu aldrei komið. Þarna hlýtur eitthvað að vera bogið við afgreiðsluna. En jeg get sagt hv. flm. (JJ) það, að Ísafold er ekki send aftur neinum manni, sem endursendir hana og alt er með feldu.

það er ekki rjett hjá hv. flm. (JJ), að kæra Ólafs Halldórssonar hafi reynst röng. Þvert á móti, enda er Ólafur mjög gætinn maður og áreiðanlegur og hreyfir ekki slíkum málum nema hann sje viss í sinni sök. Það hefir einmitt sannast, að kæra hans er á fullum rökum bygð, og væri hægt að sanna það enn betur, ef rannsakaðar væru endursendingarnar í Vík. Þar eru líka blöð, sem endursend eru með klúryrðum. Það kann að vera, að slíkt hafi komið fyrir annarsstaðar. Um það skal jeg ekkert segja, en það afsakar ekki gerðir þessara manna. Jeg hefi altaf sagt, að jeg byggist ekki við, að það væri Lárus Helgason, sem skrifaði þetta á blaðasendingar, heldur mundu aðrir menn, sem honum eru nákomnir, hafa gert það, en Lárus ber vitanlega ábyrgðina, þar sem hann hefir brjefhirðinguna. (JJ: það er ósannað). Þetta er ofurauðvelt að sanna. Ef menn vilja bera saman rithönd á sumum vottorðum Tímans og þessum blöðum, geta þeir sannfærst.

Hv. flm. (JJ)sagði ekki rjett frá úr minni ræðu. Hann sagði, að jeg hefði haft á móti því, að minst væri á aðalpóstmeistara og sýslumann Skaftafellssýslu í þessu sambandi. Jeg hafði ekkert á móti því. En jeg taldi það ósæmilegt af honum að fara að koma með órökstuddar aðdróttanir í garð þessara manna. (JJ: Skjölin sanna það, sem jeg sagði). Þau sanna einmitt það gagnstæða. Hæstv. atvrh. (MG), sem er með skýrustu lögfræðingum þessa lands, er mjer sammála um, að óheimilt sje að endursenda póstsendingar án þess að sá, sem við þeim á að taka, fái að segja sitt álit þar um. Jeg tel það einnig ósæmilega aðdróttun að segja, að sýslumaður hafi ætlað að þrengja nokkrum vottorðsgefendum. Því mun hv. flm. (JJ) ekki heldur fá menn hjer á Alþingi til að trúa, því að sýslumann þekkja þeir að öllu góðu. (JJ: Vottorðið er falsað). Hvaða vottorð? Jeg sagði hv. flm. (JJ) það áðan, að þetta vottorð, sem minnist á sýslumann Skaftfellinga, snertir ekki að neinu leyti mitt mál; það er annað mál, sem það varðar. Jeg veit ekki, hvað langt það er komið, mjer er sagt, að málið hafi verið kært til sýslumannsins í Skaftafellssýslu. (JJ: Nei! Vottorðið sýnir, að það á við póstmálið). Ekki þetta mál mitt. Jeg sagði hv. flm. (JJ), að það komu 17 úrsagnir úr blaðinu „Verði“ og undirskriftirnar þóttu grunsamlegar — voru margar með sömu hendi —. Afgreiðsla „Varðar“ mun svo hafa sent sýslumanni þessar úrsagnir til rannsóknar, af því að grunur ljek á, að þetta væri ekki gert með vitund og vilja þeirra manna, sem á blaðinu stóðu. Þetta er það, sem vottorð Páls í Dalbæ á við, og það var það, sem jeg undraðist, að brjefhirðingarmaðurinn á Klaustri skyldi nokkuð um þetta mál vita, því enn hefir það ekki, svo jeg viti, komið neitt til hans kasta. Það mál hefir ekki komið til póstsstjórnarinnar; það hefir farið beina leið til sýslumanns frá afgreiðslu Varðar.

Að öðru leyti er ekki ástæða til að vera að fjölyrða neitt um þetta; það er auðvitað rjett, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, að þetta mál á ekkert erindi hjer á Alþingi. Ef hv. þm. flm. (JJ) álítur, að skjólstæðingur hans hafi hjer verið beittur ofbeldi, getur hann beint ákæru um þetta hvort sem vill til yfirstjórnar póstmálanna, sem er samgöngumálaráðuneytið, eða, ef hann óttast hlutdrægni þar, þá getur hann farið aðra leið: krafist rannsóknar hins opinbera í þessu máli. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti því.