15.05.1925
Sameinað þing: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3261)

134. mál, póstmál í Vestur-Skaftafellssýslu

Flm. (Jónas Jónsson):

það verður aðeins stutt athugasemd. Hæstv. atvrh. (MG) mintist á Krossanesmálið og sagði, að með afgreiðslu á því máli hefði hann komið í veg fyrir svik þar eftirleiðis. Jeg álít gott, að þetta fái að standa sem lokajátning í Alþingistíðindunum um það mál. Með því viðurkennir ráðherrann, að hann hafi vitað um svik í Krossanesi, en af óskiljanlegum ástæðum ekki viljað láta hegna sökudólgnum.

Þá hjelt hæstv. atvrh. því fram, að þessi brjefhirðingarmaður hefði ekki leyfi til að endursenda blöðin, þótt hann hefði skriflega beiðni frá viðtakendum um það. Jeg skoraði á hæstv. ráðh. að nefna lög um þetta atriði, en það hefir hann ekki gert. Skoða jeg þetta því sem staðleysu, því að það er vitanlega hverjum manni heimilt að gefa slíkt umboð, og er þetta því ekki annað en ein af þeim vandræðalegu pex-staðleysum hæstv. atvrh. þegar hæstv. ráðherra var að tala um mín misviturlegu frv., mintist hann og á það frv. mitt, þar sem farið er fram á, að ríkið útvegi mönnum lán með góðum kjörum til þess að styrkja menn til að gera nýbýli og rækta sjer land, og fór háðslegum orðum um það. Jeg ætla rólegur að leggja það á vogarskálina mín megin á móti Krossanesmálinu, ef hæstv. ráðherra (MG) vill fara í málajöfnuð við mig, því að þetta frv. var það, sem hann kallaði allra verst af mínum frv. Hinsvegar þykist jeg viss um það, að Holdö og hans líkar mundu ekki una vel þessu frv., því að þeir hefðu kannske orðið að borga eitthvað af sínum gróða eftir því, og þeir menn, sem eru velviljaðir slíkum mönnum, munu kannske líta óvildaraugum á þetta frv.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) er búinn að játa það með þögninni, að engin skjallega rökstudd óánægja hafi komið fram um fólkið á Klaustri, en traust og þakklæti frá nálega öllu fólki, sem hlut á að máli, svo að grundvöllurinn undir þessum, mjer liggur við að segja rógburði, er algerlega fallinn. Hv. þm. (JK) spyr, hvernig standi á því, að þeir, sem biðji um blöðin, fái þau ekki. Ef það væri tilfellið, þá mundu þeir ekki gefa traustsyfirlýsingu með almannalofi til Lárusar Helgasonar og heimilisfólks hans, og það þeir menn, sem nefndir eru í kæru Ólafs Halldórssonar, að sjerstaklega hafi orðið fyrir ranglæti. Að síðustu hefir hv. þm. (JK) játað það, og það er honum til sóma, að hann gruni ekki brjefhirðingarmanninn á Klaustri um nokkra vanrækslu, en þó er hann settur af fyrir vanrækslu, og svo er það játað af manninum, sem stendur fremst í þessu, að þetta sje besti og óaðfinnanlegasti maður, og þar hefir hv. þm. (JK) rjett fyrir sjer; Lárus Helgason er viðurkendur einn af fremstu mönnum síns hjeraðs, og hann er svo langt hafinn yfir það, sem póstmeistari getur fundið að honum. Hann hefir svo miklu stærra nafn en nokkur þeirra manna, sem hafa komið með þessa, mjer liggur við að segja falskæru. (SigurjJ: þetta eru ýkjur.). Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) ætti að hugsa um sína eigin kosningu þar heima, áður en hann fer að blanda sjer í þetta mál. Jeg lýsi hjer með hv. þm. V.-Sk. (JK) ósannindamann að öllum dylgjum um fólkið á Kirkjubæjarklaustri, því að þetta heimili er alþekt sem eitt af fremstu heimilum hjer á landi. (JK: Vildi þm. ekki rannsaka rithöndina á blaðaströnglunum, þar sem skrifað er á klám og klúr orð, og bera hana saman við rithöndina á vottorðunum?).