15.05.1925
Sameinað þing: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (3262)

134. mál, póstmál í Vestur-Skaftafellssýslu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 5. landsk. (JJ) var að kvarta yfir því, að hann þekti ekki heimildina fyrir því, að sendingar með póstum eigi að komast með þeim til þess staðar, sem á sendingunum er nefndur. Það er mjög leiðinleg fáfræði, því að hvert heldur hv. þm. (JJ) þá, að þær eigi að fara? Heldur hv. 5. landsk. (JJ) í raun og veru, að sá maður, sem hefir borgað að fullu undir póstsendingu til ákveðins staðar, eigi ekki lagakröfu á, að póstsstjórnin komi sendingunni á þann stað ? Og heldur hann í raun og veru, að hvaða brjefhirðingarmaður sem er hafi lagaheimild til þess að endursenda póstsendingar, sem ekki hafa verið sýndar viðtakanda? Í grundvallaratriðum póstlaganna, sem hv. þm. (JJ) ætti að þekkja, er þetta skýrt tekið fram. Svo er hv. þm. (JJ) að tala um, að brjefhirðingarmaðurinn hafi verið settur af, en jeg veit ekki betur en að á þessum bæ sje enn þá brjefhirðing, svo að þetta eru ósannindi og blekkingar, sem hv. þm. (JJ) er að fara með.