13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

136. mál, starfsemi erlendra vátryggingarfélaga hér á landi

Fyrirspyrjandi (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi leyft mjer að flytja þessa fyrirspurn til hœstv. stjórnar, sakir þess, að mjer hefir borist brjef frá manni, sem að mínu viti er mjög fróður um þessi efni, þar sem hann telur áreiðanlegt, að af Dana hálfu sje á þessu sviði gerð tilraun til að hafa einokun á Íslandi, m. ö. o. að hið svonefnda „Dansk Tarifforening“ ætli sjer að leggja Ísland við Danmörku að því er þetta snertir. Taxtar þessa hrings gilda fyrir „Kongeriget Danmark“, og þar með er Ísland talið og óefað Færeyjum ekki gleymt. Jeg sje nú ekki annað en að það væri heppilegast og rjettast, að Ísland væri laust við Danmörk í þessum málum sem öðrum, því að jeg býst við, að vjer munum hjer einfærir og þurfum ekki að nota Dani sem milliliði.

Ef það er rjett, sem jeg dreg út úr fyrnefndu brjefi, sýnist mjer full ástæða til þess, að þetta mál sje rannsakað, og því er það fyrirspurn mín til hæstv. stjórnar, hvort hún vill rannsaka málið til næsta þings og gefa þá skýrslu um, hvað sú rannsókn leiðir í ljós. Þarf sú skýrsla ekki að vera í neinu sjerstöku formi. T. d. getur hæstv. stjórn komið fram með lagafrv. um þetta efni, ef hún telur það nauðsynlegt. Mjer er kunnugt um, að enskt fjelag hefir orðið að fara til Kaupmannahafnar frá Lundúnum til þess að fá leyfi til að vátryggja á Íslandi. Jeg sje svo ekki ástœðu til að fjölyrða um þetta, en mjer sýnist, að full ástæða sje til að rannsaka málið. Er mjer kunnugt um, að ýmsir danskir fjesýslumenn hafa fullan hug á að hafa Ísland fyrir mjólkurkú eða sem „bíland“ norður í hafi. En eins og jeg hefi lýst yfir, þá mun jeg gera mig ánægðan með það, að hæstv. stjórn svari nú því einu, að hún skuli taka málið til rannsóknar til næsta þings og gera þá grein fyrir, hvernig sakir standa.