18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (3452)

74. mál, slysatryggingar

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Mjer hefir fundist við síðari part þessarar umræðu, að ekki væri svo almennur vilji að styðja þetta mál eins og jeg hafði búist við og hafði heyrt á hv. þm. Þeir láta nú að vísu svo, sumir þeirra, að þeir sjeu málinu hlyntir, en hafi ýmislegt út á það að setja. Vitanlega eru þetta aðeins undanbrögð, en ekki umhyggja fyrir málinu.

Hæstv. atvrh. (MG) tók sanngjarnlega í málið, en vildi þó láta taka ýmislegt til nánari athugunar. Það er auðvitað ekki nema sjálfsagt, að nefndin athugi, hvort ekki megi koma takmörkunum á 2. lið 1. gr. að í sjerstakri reglugerð, eða jafnvel í frumvarpinu sjálfu. (Atvrh. MG: Jeg átti við það). En frv. nær ekki, enn sem komið er, til að ákveða nákvæmlega um einstakar atvinnugreinar, eins og t. d. að ákveða tölu þeirra manna, er vinna að ákveðnu verki. Þá mætti og ákveða nánar, hvað átt væri við með „verulegum breytingum“ á húsum.

Hæstv. atvrh. vildi, að stjórn slysatryggingarinnar hefði heimild til þess að ákveða um skiftingu dánarbóta til eftirlifenda. Jeg hygg, að það mundi verða erfitt viðfangs. Í lögum um sjómannatryggingu eru ákveðnar bætur eftir föstum reglum, sem þar eru settar. Tel jeg það fyrirkomulag betra heldur en að eiga bæturnar undir mati. Dæmi það, sem hæstv. atvrh. mintist á um órjettláta skiftingu, kann að vísu að vera rjett, en jeg efast um, að málinu sje best borgið á þann hátt, sem hann leggur til.

Það var hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), sem fyrstur varð til að hefja andmæli gegn frv., og voru þau hvorttveggja í senn þjösnaleg og á engu viti bygð. Fyrsta aðfinslan var sú, að frv. væri sniðið eftir útlendum fyrirmyndum. Sannleikurinn um það atriði er sá, að öll sú innlenda löggjöf, sem til var um slysatryggingar, hefir verið tekin upp í frv., og innlend reynsla notuð eftir því sem hægt er. Hvert átti þá að sækja það, sem á vantaði? Sú erlenda löggjöf, sem hjer hefir að nokkru leyti verið tekin til fyrirmyndar, er þar að auki þrautreynd í framkvæmd. Jeg efast ekki um, að þessi hv. þm. (ÁF) mundi sjálfur hafa fært sjer hana í nyt, hefði líkt staðið á. Þessi mótbára hans er því aðeins á fljótfærni bygð eða öðru verra.

Hann talaði um vafstur og skriffinsku. Mjer er sama, hverju nafni hann nefnir það, en tæplega verður þó komist hjá því að hafa eftirlit með því, að menn skjóti sjer ekki með öllu undan því að greiða í sjóðinn. Hv. þm. (ÁF) hefði átt að hugsa áður en hann talaði. (ÁF: Jeg mun tala um málið seinna). Jeg heyrði ekki betur en í ræðu hans lægi bein hótun um að bregða fæti fyrir málið. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það kæmist ekki út úr deildinni. (ÁF: Ekki óbreytt). Hann talaði ennfremur um, að hann vildi hafa almenna slysatryggingu. Þar sjá menn best röksemdir hans. Ýmist gengur frv. of langt og er of víðtækt, eða það er of takmarkað. En það er hv. þm. sjálfur, sem er takmarkaður í þessu máli.

Aðrir hafa í raun og veru ekki gefið verulegt tilefni til andmæla. Þó tók hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) allmjög í sama streng og hv. 1. þm. G.-K. Hann ljet yfirleitt heldur óvingjarnleg orð falla í garð málsins og var ekki með öllu laus við útúrsnúning. Hann taldi upp ýms störf, sem menn gætu slasast við, sem frv. tæki ekki til greina. Jeg hefi þegar tekið það fram, að ekki væri hægt að slá alla varnagla í frv., en hitt er víst, að það stendur til bóta og að jafnan er hægt að bæta í það nýjum liðum, ef nauðsyn krefur. Hv. 1. þm. S.-M. talaði í þessu sambandi um slys eða skot, sem eldabuskur verði fyrir, en þær eigi þó ekki að tryggja. (SvÓ: Það var ekkert skot). Ekki gat jeg betur heyrt. Jeg held, að segja megi með sanni, að í dag hafi hann og sumir háttv. þm. gerst eldabuskur hjer í deildinni og þyrlað upp reyk og ryki.

Jeg vildi þá að lokum mælast til, að þeir hv. þm., sem hefðu hugsað sjer að koma fram með brtt. við frv., gerðu það sem fyrst, svo að nefndin geti bráðlega tekið þær til athugunar.