13.03.1926
Neðri deild: 30. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

67. mál, veðurstofa

Frsm. (Ólafur Thors):

Eins og frv. ber með sjer, hefir sjútvn. lagt til, að sjerstök lög verði nú sett um stofnun veðurstofu á Íslandi. Þetta frv. er eiginlega gamall kunningi þessarar hv. deildar. Árið 1917 fluttu hæstv. forseti (BSv) og hv. núverandi 2. þm. Árn. (JörB) frv. á Alþingi, er segja má, að væri vísir til þessa frv., sem hjer er flutt. Var því tekið með kostum og kynjum í hv. Nd. og var samþykt þar, en fann ekki náð fyrir augum hv. Ed. og dagaði þar uppi. Árið 1918 var sama frv. flutt af hv. mentmn. Nd. Fór eins með það og áður, það fjekk góðar undirtektir í hv. Nd., en þegar það kom til hv. Ed., var því vísað til hæstv. stjórnar með rökstuddri dagskrá. Segir ekki af því síðan, en reyndin hefir orðið sú, að síðan 1919 hefir starfað hjer sjerstök veðurstofa, en án þess að hafa stoð í lögum. Hefir hún notið styrks úr ríkissjóði og síðastliðið ár fjekk hún 44 þús. kr. Er það að vísu mikil upphæð, en nægir þó hvergi til þess, að veðurstofan geti int af hendi hin nauðsynlegustu störf. Hefir sjútvn. því litið svo á, að annaðhvort beri að leggja þessa stofnun alveg niður eða að hækka styrkinn til hennar, svo að hún geti rækt vel sitt starf, og þegar nú til þess kemur að ákveða, hvorn kostinn skuli kjósa, er það að vonum, að spurt sje um reynslu annara þjóða í þessum efnum. Í 50 ár hafa veðurstofur starfað erlendis og hafa aðallega unnið að því að safna veðurfarsskýrslum, svo að hægt sje að sjá, hvaða áhrif veðurfarið hefir á afkomu atvinnuveganna og landshagi yfirleitt. Ennfremur hafa þær gefið út daglegar veðurspár. Veðurfræðin er í flestum menningarlöndum alveg sjerstök vísindagrein. Varð mikil framför í henni á stríðsárunum. Stöfuðu þær framfarir af því, að mikil alúð var þá lögð við veðurathuganirnar vegna þýðingar þeirra fyrir flughernaðinn, því að þar var einkum nauðsynlegt að vita nákvæmlega allar horfur veðurs. Eftir ófriðinn var haldinn alþjóðafundur til þess að koma skipulagi á rannsóknirnar. Var þar ákveðið að senda frá hverju landi veðurfregnir, sem önnur lönd gætu haft gott af. Hafa allir, sem þeirra hafa notið, álitið þessar veðurfregnir alveg ómissandi. Enda myndi ekki, eftir 50 ára reynslu, vera haldið áfram að efla og stækka veðurstofnanirnar og auka fjárframlög til þeirra, nema reynslan hefði verið sú, að mikill hagnaður hefði hlotist af þeim.

Nefndin hefir kynt sjer reynslu Norðmanna í þessu máli. Jeg vil leyfa mjer að lesa upp úr Iðunni kafla úr grein eftir Jón Eyþórsson veðurfræðina, en hann hefir undanfarið starfað á aðalveðurstofu Norðmanna, og er því manna kunnugastur málinu:

„Það er einróma álit sjómanna við vesturströnd Noregs, að stormvarnirnar sjeu mikil trygging fyrir líf þeirra og eignir. Venjulega er hægt að senda aðvörun 6–12 klst. áður en stormurinn skellur yfir, svo að nægur tími er til að bjarga veiðarfærunum og búa um skip fyrirfram.

Stormfregnirnar eru símaðar til allra símstöðva á strandlengju þeirri, sem búist er við, að stormurinn nái til.“`

Þetta segir þessi kunnugi maður um athuganirnar í Noregi. Stendur líkt á þar og hjer, enda er langt síðan menn komu auga á nauðsyn athugananna hjer á landi. Síðan 1872 hafa Danir haft hjer á hendi veðurathuganir, þar til Íslendingar sjálfir tóku þær í sínar hendur árið 1919. En sú veðurstofa, sem hjer er nú, hefir átt við erfið kjör að búa. Aðeins fáir, lítt vanir menn hafa starfað við hana. Það má segja, að forstöðumaðurinn einn hafi verið fær um að gegna þessu starfi. En það er of mikið verk að ætla einum manni það, án þess að hann hafi nauðsynlega aðstoð. Telur hann sig sjálfur ekki geta það. Segi jeg þetta honum á engan hátt til miska, því að hann er að mínu áliti mjög gáfaður maður og duglegur í starfi sínu. Svo er á fleira að líta. Veðurstofan hefir of ófullkomin tæki, fær veðurfregnir frá alt of fáum stöðum á landi, fær of fá veðurskeyti frá útlöndum og frá alt of fáum skipum. Bagar það líka mikið að fá ekki skeyti frá Grænlandi, en vonandi rætist nú bráðlega úr því, enda er það með öllu nauðsynlegt, svo að telja má ókleift að vera sannspár um veður hjer á landi án slíkra skeyta.

Sjávarútvegsnefnd hefir talið nauðsynlegt að reyna að ráða bót á þessum meinum og hefir ætlast til, að þetta frv. yrði spor í þá átt. Eins og frv. ber með sjer þá er ætlast til, að starfssvið veðurstofunnar verði einkum tvennskonar, fyrst að safna gögnum til rannsókna á loftslagi landsins og vinna úr veðurfarsskýrslum er sýni skilyrði þau og takmörk, sem veðráttan setur atvinnuvegum landsins, og í öðru lagi að senda út veðurspár. Veit hið fyrra að framtíðinni, en lið síðara að líðandi stund, og er gagnsemi þess auðskildari.

En til þess að sú hlið starfseminnar komi að fullu gagni, þá er einkum þrent nauðsynlegt: Að veðurspárnar sjeu rjettar, í öðru lagi að menn fari eftir þeim, og í þriðja lagi að þær svari kostnaði.

Um rjettar veðurspár er mest komið undir glöggum veðurfræðingum. Við höfum hingað til aðeins haft einn mann, en það er of lítið. En nú eigum við völ á öðrum manni. Er það ungur maður, fróður mjög í sinni grein. Hefir hann stundað háskólanám í veðurfræði og tekið gott próf. Hann hefir verið 5 síðustu árin á bestu veðurstofu Norðurlanda, veðurstofunni í Björgvin. Þekki jeg ekki manninn, hefi aðeins talað við hann lítillega, en kunnugir segja hann greindan mann og starfhæfan, og tel jeg til hagsmuna fyrir oss Íslendinga að hagnýta oss starfskrafta hans. En nú stendur svo, að líklegt er að ef ekki verður undinn bráður bugur að því að festa hann hjer heima, þá festi hann rætur hjá Norðmönnum.

Það er ekki nóg að fá tvo góða veðurfræðinga. Þeim er aðstoð nauðsynleg. Það er jafnan mikið verk að vinna í stofunni; t. d. hefir það komið fyrir, að forstjórinn hafi orðið að vinna einsamall verk, sem annarsstaðar er álitið fullnóg 3 mönnum. Liggur þá í augum uppi, að verkið getur ekki orðið eins vel af hendi leyst og með þarf.

Einnig er nauðsynlegt að fá góðar og ábyggilegar frjettir. Það þarf að fjölga veðurathugunaratöðvum úti um land, búa þær að tækjum, hafa nákvæmt eftirlit með tækjunum og sjá um, að forstöðumenn athuganastöðvanna vinni verk sitt með nákvæmni. Ennfremur þarf veðurstofan að fá frjettir frá nægilega mörgum löndum. Er nauðsynlegt, að veðurstofan hafi sæmilega góð móttökutæki loftskeyta, svo starfsmennirnir geti sjálfir tekið við skeytum hvaðanæfa að, en tæki þau, er veðurstofan hefir orðið að notast við, eru með öllu ónotandi. Ný tæki mundu ekki kosta meira en 4–5 þús., og ætlast sjútvn. til, að slík fjárveiting verði samþykt í sambandi við frv. nefndarinnar. Loks væri æskilegt, að veðurstofan fengi að staðaldri skeyti frá skipum í hafi, og er eigi ólíklegt, að með tímanum verði því komið í framkvæmd.

Verði nú vel fyrir öllu þessu sjeð, geta menn gert sjer góðar vonir um rjettar veðurspár, og er þá komið að öðrum lið þessa máls: hvort almenningur muni treysta á veðurspárnar og haga verkum sínum eftir því.

Fyrsta skilyrðið er að sjálfsögðu, að menn fái að vita um veðurspárnar í tæka tíð, en til þessa hafa verið vanhöld á því. Veðurskeyti og veðurspár hafa aðeins verið sendar til l. og 2. flokks símstöðva og til skipa, er hafa tæki til að taka á móti skeytum. Jeg tel alveg sjálfsagt, að búið verði svo um hnútana, að veðurspárnar sjeu að staðaldri sendar til allra verstöðva og yfirleitt til allra þeirra, er ætla má að hafi gagn af þeim. Jeg geri mjer vonir um, að útvarpið reynist góður boðberi, og er ekki ólíklegt, að svo fari fyr en varir, að hver fleyta verði búin tækjum til móttöku á útvarpsfrjettum. Ætti þá veðurspám að vera útvarpað oft á dag. Til aðstoðar bátum, er eigi hafa móttökutæki ætti að reisa merkjastöðvar nálægt verstöðvunum til viðvörunar, ef óveður er í vændum. Er þetta kostnaðarlítið, en nauðsynlegt, enda altítt með öðrum þjóðum.

Að sjálfsögðu verður eigi með vissu fullyrt, að menn hagnýti sjer veðurspárnar, en sú er trú nefndarinnar, að reynslan muni smákenna mönnum það, ef veðurspárnar að jafnaði rætast.

Þá er loks að athuga, hvort starfsemi veðurstofunnar svari kostnaði, ef veðurspár eru sannar og menn fara eftir þeim. Óþarft er að fjölyrða um þá hlið málsins. Þó skal á það bent, að mikill vinnusparnaður mundi fylgja sönnum veðurspám, sem farið væri eftir. Yrði það til hagsmuna bæði land- og sjávarbændum. Nefni jeg þar til hey- og fiskbreiðslu, en einkum kæmi þó slíkt að gagni smáútgerðinni. Tel jeg líklegt, að margur óþarfa róðurinn sparaðist, auk þess sem veiðarfæratap mundi minka. Alt er þetta þó smáræði eitt hjá hinu, ef takast mætti að draga úr þeim ógurlegu fórnum, sem íslenska þjóðin færir Ægi árlega.

Mjer er útræði víða hættumeira en títt er annarsstaðar. Á smáfleytum er sjósókn stunduð á djúpmið fyrir opnu hafi, og er líkast sem sjómennirnir íslensku kunni ekki að hræðast, enda er blóðtakan ægileg. Á árunum frá 1881–1910 druknuðu um 2100 manns hjer við strendur landsins, en um 680 frá 1914–1926. Það er ótvíræð skylda löggjafans að gera alt, sem í hans valdi stendur, til að tryggja líf sjóvíkinganna, og þegar ekki er meiru til kostað en hjer ræðir um, vildi jeg mega vænta skilnings og aðstoðar allra háttv. deildarmanna.

Jeg nota tækifærið til að leiða athygli að því að Ísland mun vera eina menningarlandið, sem hefir áskilið sjer þóknun fyrir útsending veðurskeyta til annara landa. Gjald þetta, sem árlega mun nema um 24 þús. kr., hefir til þessa fallið til Mikla norræna ritsímafjelagsins, en á eftirleiðis að greiðast í ríkissjóð. Jeg leiði hjá mjer að dæma um, hverja sæmd vjer hljótum af þessu, en bendi á hitt, að ef á annað borð á að taka þessa borgun, er rjett að hún falli að einhverju leyti til veðurstofunnar, því að hún hefir allan tilkostnað og vinnu við að semja þessi skeyti.

Kostnaður við veðurstofuna er nú árlega um 40 þús. kr. Nefndin telur líklegt, að til þess að koma henni í viðunanlegt horf, þurfi vart meira fjárframlag en ca. 20 þús. í viðbót, eða um 60 þús. kr. alls, og væntir nefndin, að háttv. þingdeild verði sammála um að veita þetta, sem í sjálfu sjer er smávægilegt í samanburði við þann vinning, sem er í aðra hönd, bregðist veðurstofan ekki vonum manna.

Þó að starfsmönnum verði fjölgað við veðurstofuna, eiga þeir ekki að sitja þar auðum höndum, því að það er gert ráð fyrir, að þeir hafi þar að minsta kosti 8 klst. vinnudag, og er það talsvert lengri vinnutími en í öðrum opinberum stofnunun ríkisins. Þetta er ennfremur allströng vinna, og auk þess, sem unnið er í veðurstofunni, þurfa hinir veðurfróðu starfsmenn að kosta kapps um að fylgjast með í öllum nýjungum og framförum á sviði veðurfræðinnar, sem er ung fræðigrein ennþá og á fyrir höndum mikinn viðgang og mun verða, er fram líða stundir, með víðtækari og umfangsmestu vísindagreinum.

Nefndin hefir lagt til, að sjerstakt hús verði bygt handa veðurstofunni strax og ástæður leyfa. Húsið ætti að standa einhverstaðar á bersvæði og vera útbúið með öllum þeim tækjum og umbúnaði, sem nauðsynlegur er fyrir þessa stofnun. Nefndin hefir gert ráð fyrir, að forstjóri veðurstofunnar hefði þar frían bústað, en þangað til búið er að koma upp þessari byggingu, fái hann styrk til húsaleigu, sem jafngildi því, er sæmileg íbúð kostar hjer í Reykjavík.

Nefndin vill tryggja sjer, að hr. Jón Eyþórsson veðurfræðingur verði starfsmaður í veðurstofunni, en nú sem stendur á hann kost á embætti í Noregi, með hærri launum en hjer eru í boði. Þar fær hann um 8 þús. kr. á ári, sem fara hækkandi upp í 9–10 þús. og 500 kr., og auk þess svo góð húsaleigukjör, að svara mundi til 150–175 kr. húsaleigustyrks á mánuði. En laun þau, sem honum mundu verða boðin hjer, eru hvergi nærri sambærileg við þetta, og til þess að bæta ofurlítið úr þessu hefir nefndin stungið upp á húsaleiguhlunnindunum, sem ætlast er til, að falli að jöfnu núverandi forstjóra og herra Jóni Eyþórssyni, enda þótt lögin ákveði að forstjórinn einn njóti þeirra.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þörf okkar Íslendinga fyrir öruggar og ábyggilegar veðurspár. Öllum er svo kunnugt, að fáar þjóðir heyja harðari baráttu við Ægi en við Íslendingar, því sjósókn hjeðan er miklu örðugri en víðast hvar annarsstaðar. Jeg get sagt það fyrir hönd allrar nefndarinnar, að ef þetta aukna fjárframlag fæst og veðurstofunni verður komið í það horf, sem hún telur æskilegt, þá er það sannfæring nefndarinnar, að eigi líði svo mörg ár, að veðurstofan sanni ekki ágæti sitt.

Við næstu umræðu hefir nefndin hugsað sjer að bera fram brtt. við e-lið 2. gr. frv., en frá því hirði jeg ekki að skýra frekar fyr en að því kemur.

Þar sem frv. kemur frá nefnd, tel jeg óþarft að vísa því til nefndar, og legg því til, að það fái að ganga áfram gegnum þessa hv. deild nefndarlaust.