13.03.1926
Neðri deild: 30. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

67. mál, veðurstofa

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. frsm. sjútvn. (ÓTh) sagði, þegar hann talaði um veðurskeyti hjeðan, að við Íslendingar værum eina þjóðin, sem tæki borgun fyrir þau, og er þar rjett skýrt frá, en ástæðan er sú, að Mikla norræna hefir síðan 1905 haft einkarjett á öllum skeytasendingum hjeðan og seldi þess vegna skeytin. Það var líka rjett, sem hv. frsm. sagði um verð skeytanna. Það er á ári um 24 þús. kr., en nú, eftir hinum nýja ritsímasamningi, fellur þetta gjald til Mikla norræna niður, en þegar gerðir voru samningarnir við það fjelag, var gengið út frá því, að framvegis yrði samt haldið áfram að taka gjald fyrir þessi skeyti, og rynni það í ríkissjóð. Jeg hefi talað um þetta við forstjóra veðurstofu Dana, og hafði hann ekkert við það að athuga, en forstjórinn á sæti í miðstjórn alþjóðaveðurrannsókna. Hann viðurkendi, að hjer væru ýmsir örðugleikar á söfnun og útsendingu veðurskeyta, gegna afskektrar legu landsins og einangrunar.

Mjer skildist það á hv. frsm., að hann vildi láta andvirði skeytanna renna til veðurstofunnar, en jeg verð að vera því mótfallinn; jeg tel miklu rjettara, að það renni til landssímans. Það kemur þar fram meðal tekna símans, eins og jeg álít að rjettast sje. Að vísu mætti skifta þessu milli símans og veðurstofunnar.

Mjer þótti vænt um, að nefndin áætlaði, að ekki þyrfti meira framlag en 60 þús. kr. á ári; kostnaðaraukinn verður þá ekki fullar 20 þús. kr. árlega. Framlag til veðurstofunnar var hækkað á síðasta þingi upp í 40 þús. kr., en það hefir orðið sú raunin á, að veðurstofan þurfti meira fje, sem stafaði af því, að löggildingarstofan var lögð niður, en síðan hefir veðurstofan orðið hlutfallslega dýrari í rekstri.

Jeg álít, að frv. geti vel gengið áfram nefndarlaust, en jeg bið hv. sjútv. að athuga vel erindi, sem henni verður sent mjög bráðlega og áhrærir 2. málsgr. 4. gr. frv., og jeg mælist til, að frv. komi ekki til næstu umr. fyr en nefndin hefir athugað umrætt erindi.