08.04.1926
Efri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

67. mál, veðurstofa

Jónas Jónsson:

Jeg vildi ekki láta þetta frv. fara út úr deildinni án þess að leggja því liðsyrði, þó að þess gerist raunar ekki þörf, þar sem nálega allir í deildinni munu málinu fylgjandi. Jeg ætla aðeins að minna á, hve stutt getur verið milli þess, að máli sje lítill gaumur gefinn og hins, að nauðsyn reki til þess, að því sje hrundið í framkvæmd. Á þinginu 1923 bar jeg fram þáltill. um öryggi sjómanna. Jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur orð, sem jeg sagði um málið þá:

„Þar sem Norðmenn hafa hafist handa í þessu efni, ætti að mega læra af þeim. Þar sem hjer eru að nokkru kunnar aðgerðir þeirra í þessu efni, þá skal jeg lýsa því stuttlega.

Í Bergen er veðurathugunarstofa í mjög góðu lagi. Forstöðumaður hennar er talinn vera færasti maður í heimi í þeirri grein. Þessi veðurathugunarstofa stendur í sambandi við veðurathugunarstofnanir á Grænlandi og Jan Mayen, og þeir vilja einnig fá glögg skeyti frá Íslandi.

Þessi vísindagrein er komin á svo hátt stig hjá Norðmönnum, að þeir sjá venjulega óveður fyrir með 6–12 klst. fyrirvara. Við þessa spástöð er tengd loftskeytastöð, sem sendir þráðlaus talskeyti á hverjum klukkutíma um Noreg allan, og hafa fiskiskipin og bátarnir móttökutæki. Slík áhöld eru mjög ódýr, kosta aðeins 1–2 hundruð krónur, en taka aðeins móti skeytum. Gagnið er þá þetta: Veðurfræðistofan segir fyrir um veður, sendir spádóminn til bátanna, og þeir geta svo hagað sjer eftir því, annaðhvort setið í landi eða horfið af sjó, ef illviðri er í aðsigi.

Það ætti því ekki að vera mjög erfitt fyrir stjórnina, með hjálp símastjóra og veðurfræðingsins hjer, að fá skýrslu um þessa starfsemi í Noregi, hvað það kostar og hvernig haganlegast myndi að koma því fyrir hjer.“

Þegar þetta var talað hjer í deildinni, var sá maður við veðurathugunarstofuna í Bergen, sem nú er gert ráð fyrir að flytjist hingað og verði annar aðalmaðurinn hjer. Jeg þekki manninn vel og veit, að hann hefir fengið góðan undirbúning til að taka við þessu starfi. Vil jeg tjá þeim, sem minna kunna að hafa kynt sjer þetta mál, að óhætt er að gera sjer glæsilegar vonir um árangur þessarar starfsemi. Við fáum mann, sem Alþingi hefir áður stutt til náms í þessari fræðigrein. Hefir hann stundað nám bæði í Danmörku og Noregi og unnið sjer traust prófessors Bjerknes, sem telja má höfund nútímaveðurfræði.

Jeg vil taka þetta fram af því jeg veit, að sumum þykir hjer í nokkuð mikið ráðist. Jeg vænti þess fastlega, að þessi breyting í sambandi við víðboð verði til þess að bjarga mörgum mannslífum.