10.03.1926
Neðri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

50. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Jón Kjartansson):

Allshn. fellst á ástæður þær, sem fram eru færðar í greinargerðinni fyrir frv. þessu. Í núgildandi lögum um almennan ellistyrk er svo um mælt, að skrá yfir gjaldskylda til ellistyrktarsjóðs skuli lokið fyrir 1. febrúar. En gjaldendur í Reykjavíkurbæ eru svo margir, að það er varla mögulegt hjer að hafa lokið skránni fyrir þann tíma, af því að skráin er samin eftir manntali, sem tekið er hjer seint í nóvember. Hjer er því farið fram á að framlengja þennan tíma um einn mánuð. Nefndin telur mjög áríðandi, að skráin sje í góðu lagi, og leggur því eindregið til, að frv. þetta verði samþykt og væntir þess, að hv. deild leyfi því fram að ganga.