29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

32. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Frsm. (Eggert Pálsson):

Allshn. hefir haft frv. þetta til athugunar. Var það flutt af háttv. þm. Vestm. (JJós). en sennilega ekki samið af honum í öndverðu, heldur af bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Eins og tekið er fram í nál., hefir nefndin fundið allmarga galla á frv. þessu, sem aðallega eru fólgnir í því, að það mun upphaflega hafa verið samið með hliðsjón af lögum um bæjargjöld í Reykjavík og á Akureyri, en þess ekki nægilega gætt, að kringumstæðurnar eru aðrar í Vestmannaeyjum en á þessum stöðum. Í Reykjavík og á Akureyri eiga kaupstaðirnir sjálfir lóðirnar, en í Vestmannaeyjum eru lóðirnar landssjóðseign.

Frv. þetta er fram komið af því, að bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar hefir hugsað sjer að greiða úr bæjarsjóði nauðsynlega starfrækslu, til þess að þar geti átt sjer stað sómasamlegur þrifnaður, meðal annars að því er snertir salernahreinsun, sorphreinsun o. fl. Er þetta ekki nema eðlilegt og sjálfsagt. En til þess að standast þau útgjöld, sem af þessu leiðir, er ekki annað fyrir hendi, eins og nú standa sakir, en að auka útsvörin, af því að kaupstaðurinn hefir ekki aðrar tekjur svo teljandi sje. Er því í frv. þessu farið fram á að fá heimild til að leggja gjald á allar fasteignir í kaupstaðnum. Og hefir nefndin ekki fundið ástæðu til að vera beinlínis á móti því. Og má því segja, að hún hafi fallist á meginatriði frv. En vegna hinna sjerstöku staðhátta, sem þarna eru, leggur hún til, að gerðar verði á því nokkrar breytingar.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er við 1. gr. frv., að orðið „allar“ falli burt. Þykir nefndinni frekar óviðkunnanlegt að kveða svo á í 1. gr., að gjaldið megi leggja á allar fasteignir í kaupstaðnum, þegar síðar kemur fram, að það er aðeins lítill hluti þeirra, sem leggja má gjaldið á.

Þá eru þrjár brtt. við 2. gr. frv. Sú fyrsta er gerð til þess, að hægara og einfaldara verði að reikna út gjaldið, þar sem farið er fram á, að minni upphæð en 100 kr. komi ekki til greina. Þá er 2. brtt. nefndarinnar við þessa sömu grein sú, að jafnframt og í frv. eru undanskilin tún og hagar, þá verði einnig undanskildir matjurtagarðar og fiskireitir, með því að þeir verða að teljast engu síður nauðsynlegir en túnin og hagarnir fyrir almenna afkomu og vellíðan bæjarbúa. Þriðja brtt. er við 4. málsgreinina, að í stað orðanna: „Gjald þetta greiði eigendur húsa og lóða eða leigjendur, sem samkvæmt byggingarbrjefi eða öðrum heimildum hafa umráð þeirra eigna, er gjaldið hvílir á“, komi: „Gjald þetta greiði eigendur húsa, leigutakar lóða eða notendur, sem samkvæmt byggingarbrjefi eða öðrum heimildum hafa umráð þeirra.“

Þetta stafar að nokkru leyti af því, að í flestum eða mörgum tilfellum eru eigendur lóðanna aðrir en eigendur húsanna.

Við 5. gr. er gerð breyting af sömu ástæðum, að í stað orðsins „fasteign“ komi: „húseign“. Önnur brtt. nefndarinnar við þessa grein er, að á eftir orðunum að „gjald þetta gangi á undan öllum veðkröfum á eigninni“ komi: „að fasteignarskatti til ríkissjóðs undanskildum.“ Er ákvæði þetta sett til þess að tryggja ríkissjóði sitt.

Þriðja brtt. nefndarinnar við þessa grein er, að þar bætist við ný málsgrein, svo hljóðandi: „,Nú greiðir leigutaki eða notandi lóðar eigi fasteignargjaldið í 2 ár, og hefir hann þá fyrirgert leigurjetti eða afnotarjetti sínum.“

Það virðist ekki hægt að gefa kaupstaðnum meira vald í þessu efni. Því að leggja veðkröfurjett á sjálfar lóðirnar, sem eru því sem næst allar ríkiseign, getur ekki komið til mála.

Fjórða brtt. nefndarinnar felur það í sjer, að ákvæði frv. um dráttarvexti nái ekki til hafnarajalda kaupstaðarins. Að hafa slíkt ákvæði hjer í þessum lögum mundi reynast mjög óheppilegt í framkvæmd. Ef þetta ákvæði frv. um dráttarvexti á hafnargjöldunum fengi að standa hjer óbreytt, þá myndu þeir, sem vildu kynna sjer hafnarlög Vestmannaeyja, ekki fá fulla eða rjetta þekkingu á þeim nema því aðeins, að þeir hittu á að fletta líka upp þessum lögum. En til þess er naumast hægt að ætlast af öllum almenningi. Ef kaupstaðurinn vill fá lögleidda dráttarvexti að því er hafnargjöldin snertir, til þess að gera ljettari innheimtu þessara gjalda, þá telur nefndin nauðsyn á því að koma fram með sjerstakt frv. um breytingar á sjálfum hafnarlögunum í þessa átt, og telur ekkert til fyrirstöðu, að slíkt frv. yrði samþykt.

Síðasta brtt. nefndarinnar er um það að fella úr 2. gr. laga nr. 18, 18. maí 1920, ákvæðið um gjald til holræsa og gangstjetta, að því er Vestmannaeyjakaupstað snertir. Því þegar þetta frv. er orðið að lögum, er það ákvæði óþarft.

Jeg hefi þá minst á allar brtt. við frv. þetta, og vil jeg, fyrir hönd nefndarinnar, leyfa mjer að mælast til, að þær verði samþyktar, því að jeg tel þær vera til bóta, og meira að segja bráðnauðsynlegar. Og ef þær ná fram að ganga, leggur nefndin til, að frv. verði samþykt.