14.04.1926
Neðri deild: 53. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

32. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg þarf ekki að hafa þessa framsögu langa. Málið er búið að ganga gegnum Ed. og hefir sætt þar breytingum. Allshn. Nd. hefir ekkert við þær breytingar að athuga og telur þær til bóta, og hefir því fallist á að mæla með, að frv. verði samþykt óbreytt. Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, er hjer farið fram á heimild til að leggja gjald á fasteignir í Vestmannaeyjum. Samskonar gjöld er búið að leggja á hjer í Reykjavík og frv. er á ferðinni um samskonar gjöld á Siglufirði. Býst jeg ekki við, að hv. deildarmenn sjái neitt því til fyrirstöðu, að frv. nái fram að ganga. Það er sniðið eftir lögum um þetta hjer í Reykjavík, sem samþykt voru á þinginu 1924.