24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

46. mál, skattur af lóðum og húsum í Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Allshn. hefir haft mál þetta til meðferðar og leggur til, að það verði samþykt.

Í frv. þessu er farið fram á heimild fyrir bæjarstjórnina á Siglufirði til að leggja skatt á lóðir og hús í kaupstaðnum. til þess að standast kostnað við viðhald sjóvarnargarðsins. Á bænum hvíla nú 50–60 þús. kr. skuldir vegna hans.

Þannig er háttað með lóðirnar á Siglufirði, að þær eru eign hins opinbera og leigðar út með lágri leigu, og hefir bæjarfjelagið því litlar tekjur af þeim. En aftur hafa leigutakar grætt stórfje á að leigja þær í framleigu.

Bænum er nauðsyn á að fá þennan skatt, enda þótt hann sje lágur, 4‰ af virðingarverði húsa og lóða, sem er lægra en skattur þessi er á Akureyri og hjer í Reykjavík.

Svo er og til ætlast, að skattur þessi standi uns kostnaðurinn við sjóvarnargarðinn er að fullu greiddur, og jafnframt, að taka megi hann upp aftur á ný, þegar þörf krefur.