18.02.1926
Neðri deild: 9. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get að mestu skírskotað til greinargerðar fyrir frv. Þar eru teknar fram þær helstu ástæður fyrir því, að við flm. þessa frv. förum fram á að heimila innflutning á Coopers baðlyfjum. Að við höfum farið þessa leið, að heimila aðeins innflutning á þessari baðlyfstegund, stafar af því, að við álítum, að það geti verið varhugavert að gefa innflutning á öllum baðlyfjum algerlega frjálsan. Þá yrðu baðlyfin, sem inn flyttust, að öllum líkindum mjög misjöfn. En það er svo að kalla lífsskilyrði, að baðlyf þau, er menn nota, sjeu góð og nái tilgangi sínum.

Sú reynsla, sem við höfum fengið af þeirri innlendu baðlyfstegund, sem við höfum notað um tveggja ára skeið, hefir ekki verið góð. Að vísu kalla sumir, að það hafi gefist heldur vel. En aðrir bera mjög á móti, og hygg jeg, að því verði ekki móti mælt, að það hafi víða um landið gefist mjög illa, þó að allrar aðgæslu hafi verið gætt í notkun og verið nákvæmlega eftir þeim reglum farið, sem gefnar hafa verið. Á árangri baðlyfsins hefir verið svo mikill misbrestur, að menn geta ekki lengur unað því að vera þvingaðir til með lögum að nota það.

En um þá baðlyfstegund, sem við tiltökum hjer í frv., er það að segja, að hún hefir hvarvetna þótt, gefast mjög vel. Hygg jeg það ekki ofmælt að segja, að flestum, sem notað hafa það hjer á landi, hafi þótt það gefast ágætlega. Reynsla Breta virðist líka benda á það, að baðlyf þessi hafi gefist mjög vel. Á Bretlandseyjum var fram undir stríð meira en helmingur sauðfjár baðaður úr þessum baðtegundum. Og á síðastliðnu ári mun um 70% af sauðfje á Bretlandseyjum (Englandi, Skotlandi og Írlandi) hafa verið baðað úr hinum sömu baðlyfjum, eða 17½ milj. af 25 milj.

Virðist þetta benda á það, að þeir telji það bestu baðefni, sem þeir eiga völ á Coopers baðlyf eru líka notuð víða um heim.

Það kunna ef til vill að vera skiftar skoðanir um það, hvort þetta er heppilegasta leiðin, sem við höfum lagt til, að farin yrði, að atvrh. veitti undanþágu um innflutning. Við gerum ekki að ágreiningsatriði, hvort fyrirkomulagið verði á þennan veg eða innflutningur á þessum baðlyfstegundum verði gefinn algerlega frjáls. Á hitt leggjum við aðaláhersluna, að leyfður verði innflutningur og notkun á baðlyfi þessu, eða þá einhverju öðru, sem menn þykjast alveg öruggir um, að gott gagn sje að.

Háttv. Alþingi hafa borist alvarlegar áskoranir mjög víða af landinu um þetta efni, og jeg hygg þess vegna, að það þurfi ekki að rökstyðja þetta frekar. Vona jeg, að háttv. Alþingi sjái, að hjer er um svo alvarlegt mál að ræða og að ekki dugi að skorast undan að flytja inn góð baðlyf. Ef við getum síðar meir komið baðlyfsgerðinni innlendu í það horf, að því megi fullkomlega treysta, þá fyrst er tími til kominn að banna innflutning útlendra baðlyfja. En meðan svo er ekki, þá segir það sig sjálft, að það er í mesta máta órjettlátt að banna innflutning góðra erlendra baðlyfja.

Að svo mæltu geri jeg að till. minni, að málinu verði vísað til hv. landbn. að þessari umr. lokinni. Jeg má geta þess, að meinleg prentvilla hefir slæðst inn í greinargerð frv., í seinustu málgrein, „óhægt“ fyrir „óhæft“.