18.02.1926
Neðri deild: 9. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) vill leyfa innflutning á allskonar Coopers baðlyfjum, þar á meðal kreólínsbaðlyfjum, svipuðum þeim, sem nú eru notuð, en ekki eins sterk og þau. En þá finst mjer of langt gengið, ef halda á áfram innlendri baðlyfjagerð og leyfa síðan innflutning á baðlyfjum með samskonar eða svipaðri efnasamsetningu, en sem er verra. Jeg er hv. aðalflm. (JörB) samdóma um, að vel mætti athuga, hvort ekki væri rjett að hverfa alveg að gamla laginu, eða löggilda nokkrar baðlyfstegundir, sem menn væru svo frjálsir að nota eftir eigin vali.

Jeg get ekki fallið frá því, að mjer þykir það ofmælt í greinargerð frv., að flestir sjeu á einu máli um það, að baðefni það, sem menn hafi notað nú síðustu árin, hafi oft reynst ónýtt. Jeg veit ekki betur en að engar kvartanir hafi komið um það, hvorki úr Eyjafjarðarsýslu nje Þingeyjarsýslu. Einnig í Skaftafellssýslunum eru menn yfirleitt mjög ánægðir með þetta baðlyf, en jeg skal viðurkenna, að úr mörgum öðrum sýslum hafa komið kvartanir, þó að í þeim sýslum sjeu líka margir menn, sem halda því fast fram, að þetta baðlyf sje mjög gott.

Jeg veit nú ekki, til hvors flokksins á að taka meira tillit, og álit því best að miðla málum þannig, að leyfa innflutning, einkanlega á einni tegund þessa baðlyfs, duftinu. Með því móti er hægt að gera báðum flokkum til hæfis og lofa hverjum að nota það, sem hann vill.