21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Þórarinn Jónsson:

Ræður manna hafa orðið alllangar og þeir virðast ekki hafa tekið nægilegt tillit til þess, sem hæstv. forseti var að minna menn á.

Jeg ætla með fáum orðum að drepa á tillögur hv. landbn. í þessu máli. Hv. 1. minni hluti hennar leggur til, að Coopers baðlyf verði löggilt og að útrýmingarbaðanir fari fram, en hv. 2. minni hluti leggur til, að baðlyfjaverslunin verði gefin frjáls og verði þó haldið áfram skylduböðunum og eftirliti. Hv. 3. minni hluti vill hafa alt óbreytt frá því, sem nú er.

Mjer virðast tillögur hv. 1. minni hluta ekki aðgengilegar. Jeg skal ekki gera lítið úr reynslu annara um Coopers baðlyfið, en jeg skal taka það fram, að jeg hefi líka reynt það baðlyf og vil ekki nota það. Hinsvegar virðast mjer aðfinslurnar gagnvart Hreins kreólíni úr lausu lofti gripnar. Jeg hefi notað þetta kreólín og vil ekki annað. Mjer hefir reynst það ágætlega. En baðlyf þetta er flutt út um land í stórum ílátum og sest til í þeim, og býst jeg ekki við, að það sje hrist upp. Hygg jeg, að þetta sje aðalástæðan til þess, að þau hafa reynst misjafnlega. En þessi mistök má auðvitað laga. Jeg er því frekast með því að láta alt vera óbreytt, þar til útrýmingarbaðanir verða framkvæmdar.

En sökum þess, að kvartanir manna eru svo almennar, að það kann að vera rangt að daufheyrast við þeim, væri æskilegt, að verslunin væri gefin alveg frjáls. Jeg er ekki eins hræddur við það og sumir virðast vera, að hætta sje á, að skaðlegar tegundir baðlyfa flytjist inn í landið. Menn hafa tök á að vinsa úr það, sem best hefir reynst.

Það er mikið gert af því úti um landið að blanda saman baðlyfjum. Þetta álít jeg hættulegt og varasamt, enda hefir dýralæknir tjáð mjer, að hann hafi illan grun á því. Þetta getur líka valdið því, hvernig farið hefir. Annars skal jeg taka það fram, að jeg er eindregið með því, að útrýmingarbaðanirnar verði lögákveðnar. Þá yrðu betri tök á að halda kláðanum niðri með almennum þrifaböðum á eftir.