21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. 1. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg stóð aðallega upp til þess að leiðrjetta misskilning og mun ekki verða langorður. Í brtt. sínum leggur 1. minni hluti til, að þær baðlyfjategundir verði notaðar, sem stjórnarráðið löggildir í samráði við dýralækni, En aðeins þessa einu tegund, Coopers baðlyfið, viljum við lögákveða, sökum þess, að dýralæknir hefir ekki fengist til þess hingað til að mæla með þeirri tegund, en við hinsvegar þykjumst hafa við svo mikið að styðjast, að við hikum ekki við að leggja þetta til, þar sem komið hafa eindregnar áskoranir um það úr 10 sýslum landsins. Jeg vænti þess, að mönnum skiljist, að dýralæknir muni leggja til, að fleiri baðlyfjateg. verði notaðar og að stjórnarráðið muni samþykkja löggilding þeirra, baðlyfjategunda. Að við tókum þessa einu baðlyfstegund út úr, var því einungis af því, að við óttuðumst, að ef við ekki gerðum það, yrði sú tegund ekki löggilt.

Annars vil jeg taka það fram viðvíkjandi ummælum, sem fram hafa komið bæði frá hv. frsm. 2. minni hluta (ÁJ) og hæstv. atvrh. (MG), að svo fremi tillögur hv. 2. minni hluta verða samþyktar og hæstv. atvrh. leggur blessun sína yfir þær, stendur opin leið að nota þetta forboðna baðlyf (Coopers duft), sem mönnum finst svo óviðfeldið. Með því er tilgangi okkar náð, svo að við getum sætt okkur við það. En eins og jeg tók fram áður, álít jeg betur fara, að ekki sje heimilt að flytja inn hverjar þær baðlyfstegundir, er mönnum dytti í hug að kaupa, því að þá er altaf hætta á, að ekki verði valdar þær bestu tegundir, sem völ er á. En til þess að þær tegundir sjeu valdar, tel jeg um það mikla tryggingu, ef dýralæknir er látinn ráða, því að hann leggur varla til, að keyptar sjeu þær baðlyfstegundir, er ekki koma að notum. En það, sem hann hefir á móti Coopers baðlyfi, er það, að hann álítur, að það skemmi ullina. Aftur á móti telja bændur, að þrif í fjenaði verði betri, ef það baðlyf er notað. Og vilji bændur taka á sig þau kaup, eiga þeir að fá að ráða því.

Jeg skal svo ekki tefja hv. deild frekar með umræðum um þetta mál. En þó vil jeg með nokkrum orðum víkja að því, er hv. frsm. 2. minni hl. (ÁJ) sagði um fjárbaðanir í Borgarfjarðarsýslu. Jeg gat þess áður, að bændur í Dalasýslu hefðu tvíbaðað fje sitt og vandað til böðunarinnar, og þrátt fyrir það hefir komið þar upp kláði. En jeg sje ekki ástæðu til að svara hv. frsm. 3. minni hlutans, því að hann hefir sjerstöðu í þessu máli, þar sem hann vill láta alt sitja við sama, sem nú er. Við fjórir nefndarmenn erum á móti því, en á hitt leggjum við ekki sjerstaka áherslu, hvort notað er Coopers baðlyf eða einhver önnur tegund, eða aðrar tegundir, því að það finst okkur ekki miklu máli skifta. (HK: Jú, það skiftir einmitt máli).

Jeg þykist þá hafa drepið á flest atriði þessa máls og nenni ekki að eltast við fleira. En þess vil jeg þó geta, að mjer þótti vænt um ræðu hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), þar sem hann vildi koma á útrýmingarböðunum og að við gerðum nú einu sinni alvarlega tilraun til þess að losna við fjárkláðann.